Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 13:16:37 (8360)


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessa máls við 1. umr. þegar það fór til hv. félmn. Frv., eins og það lá þá fyrir, liggur hér fyrir á ný í 2. umr. með óverulegum breytingum. Þetta frv. felur í sér ákvörðun um að fram skuli fara kosningar samkvæmt ákveðnum reglum um sameiningu sveitarfélaga og stofnun umdæmisnefndar til þess að gera tillögur að nýrri skiptingu í sveitarfélög sem kosið er um. Frv. byggist á skýrslu sveitarfélaganefndar en umræðurnar í félmn. hafa einkum snúið að kosningafyrirkomulaginu og ekki síst að því atriði hvort sú breyting á sveitarstjórnarlögum sem frv. gerir ráð fyrir, eða það kosningafyrirkomulag sem frv. geir ráð fyrir, að einfaldur meiri hluti atkvæða ráði úrslitum, á að vera varanleg eða gilda bara við þessar kosningar.
    Þegar sveitarfélaganefnd skilaði áliti, þá fjallaði hún einkum um þessa tilteknu skoðanakönnun og eftir hvaða reglum hún ætti að fara. Hins vegar er ég sammála því að með því kosningafyrirkomulagi sem gert er ráð fyrir í þessu frv. hefur verið mörkuð skýr stefna um það að einfaldur meiri hluti eigi að ráða úrslitum í þessum efnum í framtíðinni. Ég held að allir séu sammála um að það verður ekkert aftur snúið til þess fyrirkomulags sem gilti áður um kosningar að þeir sem sitja heima teldust segja já. Það var því mikil umræða um það í nefndinni hvort fella ætti inn í frv. frv. Kristins H. Gunnarssonar um breytingu á sveitarstjórnarlögum, en af einhverjum ástæðum þá náðist ekki samkomulag um að gera svo og stjórnarliðar í nefndinni, að einum undanskildum, gáfu ekki kost á sameiginlegu áliti um slíkt.
    Hér fylgir brtt. á þskj. 1211 frá Kristni H. Gunnarssyni og er í 1. lið gert ráð fyrir að varanleg breyting á sveitarstjórnarlögum verði felld inn í frv. Ég vil láta það koma fram að ég er sammála tillögunni af þeim ástæðum að í þessum efnum verður ekkert aftur snúið eftir að skoðanakönnun hefur farið fram á þeim forsendum að einfaldur meiri hluti ráði úrslitum. Það er eins gott að varanleg breyting í þessum efnum komi inn. Ég varð ekki var við annað í störfum nefndarinnar en að menn væru þrátt fyrir allt sammála um þetta en af einhverjum ástæðum mátti ekki taka þetta inn. Ég undrast það og ég greiði 1. lið í brtt. Kristins H. Gunnarssonar atkvæði.
    Að öðru leyti stend ég og fulltrúar Framsfl. að nál. félmn. og ég hef skrifað undir það án fyrirvara. Eins og ég áður hef sagt byggist það á áliti sveitarfélaganefndar sem ég átti sæti í og aðild að á sínum tíma og skrifaði undir það álit. Ég greiði því frv. atkvæði að á undan 1. gr. komi ný grein sem hljóði þannig eins og stendur á þskj. 1211. Mér kemur ekkert á óvart að einhverjir þingmenn eigi eitthvað ósagt í þessum málum. Þetta er eitt af allra stærstu málum sem hafa komið inn í þingið. Þetta er frv. þess efnis að gera veigamikla breytingu á öðru stjórnsýslustiginu í landinu og er stórmál hvernig sem á það er litið. Að vísu fjallar frv. eingöngu um það að fram fari skoðanakönnun eða kosningar um mörk sveitarfélaga og með hvaða hætti þær kosningar eru undirbúnar.
    Ég fór yfir það í ræðu minni við 1. umr. málsins af hvaða ástæðum sveitarfélaganefndin lagði þetta til á sínum tíma. Hún lagði þetta til vegna þess að það var nauðsynlegt að íbúarnir segðu sitt álit í þessum efnum og valdboð kæmi ekki að ofan. Einmitt það kosningafyrirkomulag, sem ég hef gert sérstaklega að umræðuefni í ræðu minni, gekk eins og rauður þráður í gegnum allar umsagnir sem komu til sveitarfélaganefndar og í gegnum allar þær viðræður sem voru um allt land í þessum málum.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni en ég get auðvitað tekið til máls síðar í umræðunni ef mér finnst ástæða til og fram kemur eitthvað í máli annarra þingmanna sem mér finnst ástæða til þess að hafa skoðanaskipti um eða að láta í ljós álit mitt á.