Framleiðsla og sala á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 18:15:28 (8398)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Nú líður að því að menn séu að skoða það hvenær þessu þinghaldi ljúki, í kvöld eða nótt eða einhvern tíma eftir helgina. Með hliðsjón af því að svo er þá er óhjákvæmilegt fyrir mig að nefna hér tiltekið mál við hæstv. forseta sem lýtur að nýjustu afrekum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þannig háttar til að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna kom saman til fundar í dag og samþykkti nýjar úthlutunarreglur. Í þeim úthlutunarreglum er m.a. gert ráð fyrir að meðlög sem námsmenn kunna að fá greidd komi beint til frádráttar á framfærslueyri námsmanna þannig að meðlag upp á 10 þús. kr. lækkar námslán sjálfkrafa um 10 þús. kr. Nú háttar þannig til með meðlög að þau eru eins og kunnugt er eign barna samkvæmt lögum og auk þess, eins og kunnugt er virðulegi forseti, að þegar um er að æða tekjuútreikning námsmanna þá er ekki dregin frá króna fyrir krónu heldur helmingurinn af þeirri krónu sem námsmaðurinn aflar sér sérstaklega. Á móti 10 þús. kr. meðlagi ætti því að koma 5 þús. kr. frádráttur en ekki 10 þús. eins og ákveðið var í dag.
    Nú liggur fyrir að það hefur orðið gríðarleg fækkun á einstæðum foreldrum í námi þannig að hér er um að ræða alveg hrottalega atlögu að íslenskum námsmönnum, verð ég að segja, virðulegi forseti, og óska eftir því við hæstv. forseta að hann skapi svigrúm til þess í dagskrá þingsins í kvöld eða nótt eða mánudaginn eða hvenær sem það nú yrði að unnt verði að ræða þessa sérstöku árás á kjör íslenskra námsmanna utan dagskrár. Það er algerlega óhjákvæmilegt að það eigi sér stað og að þessi ólög, þessi árás á námsmenn verði rekin til baka. Það er ekki hægt, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) tíminn er ekki alveg búinn samkvæmt klukkunni, 24 eftir. ( Forseti: Hv. þm. hefur komið sinni ósk á framfæri og þarf ekki að rökstyðja hana frekar.) Nei, en ég vil kannski aðeins bæta því við, virðulegi forseti, að það er ekki hægt að fara heim af þessu þingi án þess að reka þessi ólög til baka.