Framleiðsla og sala á búvörum

177. fundur
Sunnudaginn 09. maí 1993, kl. 00:04:05 (8495)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég trúi því nú ekki að forseti hafi verið að fella úrskurð áðan og það órökstuddan um að tillaga um dagskrá fundarins, þetta sérstaka atriði hennar, fái ekki að koma til atkvæða. Slíkt er auðvitað með öllu óskiljanlegt þegar horft er til hinna almennu ákvæða IV. kafla þingskapalaganna um fundarsköp. Það er alveg ljóst af öllum lestri þess kafla að það leiðir af hinum almennu ákvæðum hans að það er meiri hluti þingfundar sem stendur hverju sinni sem í raun hefur vald um framgang mála á fundinum. Það leiðir af öllum hinum almennu ákvæðum IV. kafla laganna um þingsköp Alþingis. Það er sömuleiðis almenn venja í fundarsköpum nánast hvar sem er á byggðu bóli að það er meiri hluti á fundinum sem á að ráða en ekki eitthvað annað. Þannig að ég tel að í fyrsta lagi sé ekki hægt að vísa þessari tillögu frá þegar horft er til hinna almennu ákvæða IV. kaflans og góðir latínumenn hér á fundinum hafa tjáð mér að það heiti ,,per analogiam`` á hinu eina og sanna lögfræðimáli. ( ÁJ: Notaðu bara íslensku.)
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, er ljóst að samkvæmt 62. gr. þingskapa er hvaða þingmanni sem er, hvenær sem er, heimilt að krefjast þess að gengið sé til atkvæða um eitthvert þingmál umræðulaust. Upphaf 62. gr. þingskapanna, hæstv. forseti, hljóðar svo --- hv. alþm. er sennilega orðið betur viðeigandi að nota sem ávarp á fundinum. Hv. alþm., 62. gr. þingskapanna hefst svo:
    ,,Heimilt er þingmanni að krefjast þess að gengið sé til atkvæða um eitthvert þingmál umræðulaust, . . .  `` ( Forsrh.: Lestu áfram.) Nú háttar svo til, hæstv. frammíkallandi, sem er forsrh. í þessu tilviki, ( Utanrrh.: Lesa svolítið lengra.) að umræðu er meira að segja lokið um þetta þingmál. ( Forsrh.: Lestu áfram.) Það er allt í lagi að lesa áfram, það er alveg sjálfsagt að lesa áfram: ,, . . .  en það skal því aðeins gert að tveir þriðju hlutar fundarmanna séu því samþykkir.`` Og þá fer fram atkvæðagreiðsla um það. --- Hvernig ætla menn að finna út úr því öðruvísi, hæstv. forsrh., hvort tveir þriðju hlutar þingmanna séu tiltekinnar skoðunar en að láta fara fram atkvæðagreiðslu? Það er ekki hægt. Nú hefur ekki einasta einn þingmaður heldur fimm þingmenn óskað eftir því að nákvæmlega þetta verði gert, að umræðulaust, án frekari umræðu verði gengið til atkvæða um tiltekið dagskrármál. Það er algjörlega ótvírætt, hæstv. forseti, að samkvæmt 62. gr. hafa menn þennan rétt, að kalla fram slíka atkvæðagreiðslu. Það er ekki nokkur leið að fella úrskurð um annað og allra síst órökstutt. Ég fer því fram á það að forseti endurmeti afstöðu sína og leyfi mönnum að njóta þess réttar sem þingsköpin færa þeim.