Evrópskt efnahagssvæði

5. fundur
Fimmtudaginn 20. ágúst 1992, kl. 12:46:37 (27)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Í 119. gr. þess samnings sem hér á að taka til umræðu stendur, með leyfi forseta:
    ,,Viðaukar, svo og gerðir sem vísað er til í þeim og aðlagaðar eru vegna samnings þessa, skulu auk bókana vera óaðskiljanlegur hluti samningsins.``
    Ég nefni þetta hér vegna þess að enn vantar mikið á að fram séu komnir þeir efnisþættir sem vísað er til í 119. gr. samningsins. Það liggja hér á borðum alþingismanna nálægt 5.000 blaðsíður af verki sem að mati utanrrn., að ég best veit og stendur til að reiða fram, eru hátt í 10.000 síður. Sé litið á þetta efnismagn, og er ég þá ekki að leggja dóm á innihald, þá vantar mjög mikið upp á að það liggi fyrir þinginu það efni sem tilheyrir samningnum, nálægt 4.000--5.000 síður í blaðsíðum talið. Ég hygg að ólokið sé að þýða hluta af þessu efni. Það er ekki aðeins að fjöldi frumvarpa, líklega nálægt þrem tugum, sé ókominn til þingsins heldur mikið safn efnis sem er óaðskiljanlegur hluti samningsins samkvæmt orðanna hljóðan í samningnum sjálfum.
    Ég beini því til hæstv. forseta og spyr hvort skrifstofa Alþingis hafi farið yfir það hvort fyrir þinginu liggi það efni sem á að ræða undir þeim dagskrárlið sem er á dagskrá þessa fundar, þ.e. samningur um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég nefni líka, vegna þess að það hefur verið rætt fyrr í sambandi við þetta mál, varðandi 6. gr. samningsins sem varðar dóma Evrópudómstólsins sem á að beita við túlkun á samningnum og eru þannig óaðskiljanlegur hluti hans í raun, að þeir dómar liggja hér ekki fyrir. Þeir hafa ekki verið reiddir fram sem hluti málsins. Hæstv. utanrrh. greindi frá því 19. maí sl. þegar þessi mál voru rædd hér að það stæði ekki til að þýða þessa dóma og leggja þá fyrir sem hluta af málinu. Það tel ég afar alvarlegt atriði og ég vildi vekja athygli á þessari stöðu mála áður en gengið er til umræðunnar.