Evrópskt efnahagssvæði

5. fundur
Fimmtudaginn 20. ágúst 1992, kl. 12:50:29 (28)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið, um heimild fyrir Íslands hönd til að fullgilda samning um Evrópska efnahagssvæðið, samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og samning um fastanefnd EFTA-ríkjanna. Þessir samningar voru undirritaðir í Óportó 2. maí 1992, með fyrirvara um samþykki Alþingis.
    Frumvarp það sem hér er lagt fram á sér langan aðdraganda. Sjálfur frumvarpstextinn var lagður fram á síðasta Alþingi. Efni þessa samnings hefur verið til umræðu á vettvangi ríkisstjórna, Alþingis og utanríkismálanefndar undanfarin þrjú ár. Margir mætir menn hafa lagt fram mikið starf við gerð þessa samnings. Sérstaklega vil ég nota þetta tækifæri og þakka ágætt samstarf sem ég hef átt við undirbúning og gerð samningsins við forustumenn þriggja stjórnmálaflokka, auk náinna samstarfsmanna í eigin flokki.
    Það er upphaf þessa máls að Steingrímur Hermannsson þáv. forsrh. samþykkti svokallaða Óslóaryfirlýsingu leiðtoga EFTA-ríkjanna frá 15. mars 1989. Um sameiginlegar stofnanir samningsaðila segir í yfirlýsingunni, með leyfi forseta, að ,, . . .  upplýsingaskipti um fyrirhugaða löggjöf, ráðgjafarstarf, gagnkvæma viðurkenningu um sambærilega löggjöf og ákvarðanatöku fari fram tímanlega. Þessu ætti að fylgja eftir með öflugu og öruggu eftirliti með fullnustu dóma og sameiginlegri meðferð á lausn deilumála.``
    Þá segir einnig í Óslóaryfirlýsingunni sem leiðtogar EFTA samþykktu:
    ,,Við munum gera nauðsynlegar ráðstafanir til að styrkja það kerfi sem við höfum til eftirlits og framkvæmdar á samningsskuldbindingum, til þess að tryggja samræmda og samhæfða framkvæmd og túlkun þeirra á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.``
    Til viðbótar er þess að geta að þáv. hæstv. forsrh. gerði grein fyrir sérstökum fyrirvörum Íslendinga á fundinum. Mikilvægasti fyrirvarinn, sá er laut að sameiginlegum stofnunum Evrópska efnahagssvæðisins, hljóðar svo:
    ,,Við getum aldrei gefið okkur á vald yfirþjóðlegum stofnunum. Við getum aldrei afsalað okkur fullveldinu eða rétti okkar til þess að taka eigin nauðsynlegar ákvarðanir til að tryggja afkomu okkar og sjálfstæði.``
    Ekkert slíkt vald er framselt í samningnum enda ljóst af stöðu mála við starfslok síðustu ríkisstjórnar að forustuflokkur hennar, Framsóknarflokkurinn, stóð heils hugar að niðurstöðum sem þá höfðu fengist.
    Formaður Alþýðubandalagsins reyndist einnig hollráður í fjármálaráðherratíð sinni. Hann lagði samninganefndinni til aðstoðarmann sinn, lagði fram í nafni fjmrn. afar jákvæða umsögn um ávinning íslensks þjóðarbúskapar af samningnum og taldi að málið ætti ekki að vera til fyrirstöðu áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi þáv. stjórnarflokka.
    Síðast en ekki síst vil ég nefna til sögunnar hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og þakka honum samstarf sem hvergi hefur borið skugga á. Þótt helstu atriði samninganna væru útkljáð þegar samstarf okkar hófst, reyndist endaspretturinn um margt erfiður, einkum þegar svo virtist um tíma sem Evrópubandalagið hygðist jafnvel hverfa frá gerðu samkomulagi.
    Ég vil einnig, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri til að flytja þakkir mínar þeim hundruðum hæfustu embættismanna íslenska ríkisins, sem undanfarin þrjú ár hafa lagt á sig ómælda vinnu við að gera þennan samning vel úr garði. Afrakstur iðju þeirra er nú lagður fyrir Alþingi Íslendinga. Samningurinn sjálfur, greinargerð sem skýrir öll ákvæði hans, þýðingar helstu gerða sem vísað er til og ýmiss konar stoð- og upplýsingaefni liggur nú fyrir þingheimi í aðgengilegu formi. Það er því ekki ætlun mín að taka fyrir að þessu sinni einstök atriði samningsins og skýra þau. Það bíður frekari umræðu á Alþingi og í starfsnefndum þingsins.
    Allar þær breytingar sem gera þarf á íslenskri löggjöf liggja fyrir í þeim liðlega 60 frv. sem tekin verða fyrir á þessu þingi og rædd sérstaklega. Við upphaf þessa þings kýs ég heldur að ræða almennt hvernig samningurinn getur nýst okkur Íslendingum og tryggt stöðu okkar í viðsjálum og hverfulum heimi í örri þróun en mun jafnframt leitast við að svara nokkrum spurningum sem varpað hefur verið fram í hinni almennu umræðu um þetta hið mikla mál að undanförnu.
    Fyrst vil ég víkja nokkrum orðum að samkomulagi um þingmeðferð EES-samningsins. Hinn 8. maí sl. var gert samkomulag milli allra þingflokka um meðferð samningsins og lagafrumvarpa sem honum tengjast. Þar segir að stefnt skuli að því að flest lagafrumvörp fái afgreiðslu fyrir lok septembermánaðar og málsmeðferðinni allri verði lokið fyrir nóvember. Nýlega barst ríkisstjórninni bréf frá stjórnarandstöðuflokkunum um að aðstæður væru nú verulega breyttar og þeir geti ekki staðið við gerðan samning. Borið er við að breyta þurfi stjórnarskrá hugsanlega, að framlagning fylgifrumvarpa hafi tafist og að tvíhliða sjávarútvegssamningur við Evrópubandalagið sé ekki tilbúinn.
    Ég ætla að leyfa mér að láta í ljós þá von, virðulegi forseti, að orð muni standa í þessu samkomulagi. Það er ekki rétt að aðstæður hafi breyst og ég vona að þeim misskilningi hafi verið eytt. Alltaf hefur legið fyrir að skoðanir væru skiptar um stjórnarskrármálið. Afgreiðsla fylgifrumvarpa hefur gengið nokkurn veginn eftir þeirri tímaáætlun sem lögð var fram í maí og frávik frá henni hafa verið óveruleg. Sjávarútvegssamningarnir eru sem kunnugt er tveir. Meginsamningurinn liggur fyrir en eftir er að ganga frá nokkrum tæknilegum útfærsluatriðum í hinum. Þar er nokkurn veginn fyrir séð hver ramminn verður.
    Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja hvernig alþjóðasamstarfi um viðskipti hefur fleygt fram á undanförnum árum og áratugum. Með bættum samgöngum og fjarskiptum aukast tækifæri til viðskipta milli landa. Leitast er við að ryðja úr vegi viðskiptatálmunum, ekki aðeins tollum heldur einnig tæknilegum viðskiptahindrunum af ýmsu tagi. Þjóðir heims gera sér æ betur grein fyrir því að það er engum til góðs að múra sig af og einangra sig frá öðrum þjóðum. Jafnvel Albanir hafa séð villu síns vegar, þótt seint væri, og leita nú á vit alþjóðlegs samstarfs. En hindrunum verður ekki rutt úr vegi nema tryggt sé að öryggis- og heilbrigðiskröfur séu uppfylltar. Múrarnir falla þá því aðeins að hægt sé að treysta því að farið hafi verið eftir settum reglum í þjónustustarfi eða við framleiðslu þeirrar vöru sem í boði er. Þetta traust fæst ekki nema helstu reglur um framleiðslu og atvinnustarfsemi, sem tengist útflutningi, séu samræmdar. Ekki er síður mikilvægt að traust eftirlit sé með því að eftir settum og samþykktum reglum sé farið.
    Fáar þjóðir eru jafnháðar utanríkisverslun og við Íslendingar. Aðföng til framleiðslu, nauðsynleg tæki við rekstur allra atvinnuvega og neysluvarningur almennings ýmiss konar er að mestu innfluttur. Undir þessu verða tekjur af útflutningsatvinnuvegum okkar að standa. Greiður aðgangur að helstu mörkuðum okkar er okkur því hvorki meira né minna en lífsnauðsyn. Þann aðgang fáum við með því að fara eftir þeim reglum sem gilda um alþjóðaviðskipti og taka á okkur þær skuldbindingar sem fylgja.
    Ég á ekki von á því að nokkur hér inni vilji í alvöru leggja til að Ísland ætti að segja sig frá alþjóðasamkomulaginu um tolla og viðskipti, GATT og gerast þannig útlagi í alþjóðaviðskiptum eða freista þess að hverfa aftur til fortíðar í sjálfsþurftarbúskap. Umræðan snýst því ekki um það hvort íslenska ríkið megi taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar heldur um það hversu víðtækar þær eigi að vera og hvernig íslenskum hagsmunum verði best borgið.
    Ég geng út frá því, virðulegi forseti, að t.d. GATT-aðild sé sú lágmarksþátttaka í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi sem okkur Íslendingum sé nauðsynleg ef við viljum hafa eitthvert öryggi í viðskiptum okkar við aðrar þjóðir en eiga ekki afkomu okkar undir annarra náð.
    Þá vaknar spurningin: Getur GATT-aðildin dugað ein sér? Komumst við af með hana eina?
    Bandaríkin töldu t.d. lengi vel GATT duga sér, enda hafa utanríkisviðskipti þar minna vægi en með flestum öðrum þjóðum og Bandaríkin hafa hingað til talið sig hafa í fullu tré við flesta í tvíhliða samningum. Nú er þó svo komið að jafnvel Bandaríki Norður-Ameríku telja GATT-reglur ekki ganga nógu langt í viðskiptum við sínar nánustu viðskiptaþjóðir. Bandarísk stjórnvöld hafa því nýlega stofnað til mun víðtækari skuldbindinga við grannríkin Kanada og Mexíkó innan fríverslunarsvæðisins NAFTA.
    Hvert sem litið er annars staðar í heiminum er verið að stofna til umfangsmeira fríverslunarsamstarfs innan einstakra svæða. Suður-Ameríkuþjóðirnar, hluti Suðaustur-Asíu og síðast en ekki síst Evrópuþjóðir reyna að samræma reglur og aflétta hindrunum sín í milli. Þeim þjóðum sem kjósa að standa utan slíks samstarfs er að vísu ekki meinaður aðgangur að mörkuðum þessara þjóða nema í undantekningartilvikum en samkeppnisstaða þeirra er ótraust og þau bera æ skarðari hlut frá borði eftir því sem viðskiptasamstarf á fríverslunarsvæðum verður nánara.
    Eftir því sem hindrunum fækkar innan slíks samstarfssvæðis leita meiri viðskipti í farvegi innan þess. Því gagnkvæma trausti sem byggist upp innan svæðis, þar sem viðskiptaaðilar venjast því að tryggt sé að sambærilegt eftirlit er með öryggi og gæðum, fylgir einnig vantraust og tortryggni gagnvart varningi utan svæðisins, jafnvel þótt reynt sé að vega upp á móti því með öflugu markaðsstarfi.
    Ég tel því yfir vafa hafið að tæpt verði að treysta á GATT-reglur einar í samstarfi okkar við Evrópuþjóðir. En þessar sömu Evrópuþjóðir taka við 4 / 5 hlutum af útflutningi okkar Íslendinga. Vissa stoð má finna í fríverslunarsamningi okkar við Evrópubandalagið frá árinu 1972 en umfang hans er svo miklu minna að hann gefur engan veginn sömu tækifæri eða vaxtarmöguleika fyrir íslenskt atvinnulíf og þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þeir þrír stjórnmálaflokkar sem stóðu að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar samþykktu sem kunnugt er umboð til forsrh. fyrir leiðtogafund Evrópubandalagsins og EFTA í Ósló á útmánuðum 1989. Þessir þrír stjórnmálaflokkar höfnuðu því að beita sér fyrir tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um endurbætur á gamla fríverslunarsamningnum.
    Á seinasta kjörtímabili studdi Sjálfstfl. samninga um Evrópska efnahagssvæðið en þó með ítrekuðum fyrirvörum um að tvíhliða samningar kynnu að vera nauðsynlegir til að tryggja íslenska fiskveiðihagsmuni. Sjálfstfl. stendur nú að sjálfsögðu einhuga að baki niðurstöðu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Nægir í því sambandi að minna á ágæta grein hv. þm. Björns Bjarnasonar í Morgunblaðinu 4. júní sl. þar sem hann leiðir af því rök að hin góða niðurstaða sem fékkst með EES-samningnum sé því til staðfestingar að í ,,viðræðum við Evrópubandalagið náum við betri árangri í fylgd með öðrum en einir og óstuddir.``
    Hlutverkin virðast því eitthvað hafa víxlast á hinu pólitíska leiksviði eftir kosningar nú þegar Alþýðubandalagið reynir að sannfæra sjálft sig um að unnt sé að gera betri kaup við Evrópubandalagið með tvíhliða samningi en þeim sem hér liggur fyrir. Manni skilst að það þurfi ekki annað en að senda samningsdrögin íslensku út til Brussel og þá megi vænta þess að þau komi til baka undirrituð með næsta pósti. Ég á að vísu ekki von á því að nokkur maður, sem kynnt hefur sér samskipti Íslands og Evrópubandalagsins á undanförnum árum, leggi trúnað á slíkar skyndilausnir.
    Fríverslunarsamningur sá sem náðist við Evrópubandalagið 1972 var Íslendingum hagstæður og það var vel að verki staðið hjá þeim mönnum sem um hann véluðu. En ástæða þess að hagstæðir samningar náðust þá var ekki síst sú að þótt fríverslunarsamningarnir væru að formi til tvíhliða var samið við öll

EFTA-ríkin í einu. Fríverslunarsamningar EFTA-ríkjanna eru að mestu leyti samhljóða. Þá þótti ekki stætt á því að skilja Ísland eitt EFTA-ríkja eftir. Þá sem nú skilaði samstaða okkar með EFTA-ríkjunum okkur beinhörðum árangri í samningum við Evrópubandalagið.
    Segja má að frá þeim tíma hafi ekki linnt tilraunum íslenskra stjórnvalda, hverrar ríkisstjórnarinnar á fætur annarri þar sem allir flokkar utan einn af núverandi þingflokkum hafa átt sæti, til þess að bæta enn kjör íslenskra útflutningsafurða á Evrópumörkuðum. Hver ríkisstjórn á fætur annarri hefur gert tilraun til þess að fá Evrópubandalagið til að fella niður tolla á saltfiski og öðrum sjávarafurðum en því miður ekki haft erindi sem erindi. Samningar fást nefnilega ekki eftir pöntun. Það eitt að fá Evrópubandalagið til að setjast að samningaborði er langur ferill og torsóttur.
    Það tók ráðherraráð Evrópubandalagsins upp undir ár að koma sér saman um það að semja skyldi við EFTA-ríkin um Evrópska efnahagssvæðið. Það tók aðra sex mánuði að gefa framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins umboð til samninga. Þetta þótti nokkuð vel að verki staðið því að jafnan tekur ráðið sér mun lengri undirbúningstíma þar sem öll aðildarríkin verða að samþykkja samningsumboð og markmið. Það var síst vanþörf á öllum þeim pólitíska þrýstingi sem ráðamenn EFTA-ríkjanna gátu beitt til að fá Evrópubandalagið að samningaborðinu. Minna má á að samningaviðræður Sviss og Evrópubandalagsins um tryggingaviðskipti stóðu yfir í 17 ár.
    Tvíhliða samningaviðræður hefðu aldrei skilað neinum viðlíka árangri í okkar helstu hagsmunamálum og við höfum nú náð fram. Síst vil ég verða til þess að efast um einlægni og velvild ýmissa ráðamanna Evrópubandalagsins sem sótt hafa Ísland heim á undanförnum árum og sagst vilja okkur vel. Engu að síður þá tel ég tryggara að hafa samning í höndum sem tryggir okkur gagnkvæman rétt. Kurteislegar vináttuyfirlýsingar í skálarræðum í opinberum heimsóknum eru góðra gjalda verðar en gleymast stundum þegar að samningaborðinu kemur. Þetta kemur í ljós þegar menn kynna sér þá samninga sem Evrópubandalagið hefur nýlega gert við þær þjóðir sem næst því standa, menningarlega og landfræðilega, þ.e. við þjóðir Mið- og Austur-Evrópu og reyndar samninga sem þeir hafa nýlega gert við Færeyjar sem eru svo nátengdar einu aðildarríkjanna, Danmörku.
    Lítum aðeins á samninga frænda okkar Færeyinga við Evrópubandalagið. Evrópubandalagsríkið Danmörk hefur sem kunnugt er beinna hagsmuna að gæta af efnahagsþróun í Færeyjum. Samskiptum ríkjanna er svo háttað að Danir fara með fiskveiðisamninga við Evrópubandalagið fyrir hönd Færeyinga þótt þeir geri það ekki fyrir hönd sjálfra sín. Mikilvægi sjávarafurða er umtalsvert meira fyrir Færeyinga en fyrir Íslendinga. Árið 1990 nam útflutningur sjávarafurða þeirra til Evrópubandalagsins 77% af heildarvöruútflutningi þeirra. En þetta sama ár var útflutningur sjávarafurða til Evrópubandalagsins um 56% af okkar vöruútflutningi.
    Danir gerðu nýjan fríverslunarsamning við Evrópubandalagið 2. des. 1991 fyrir hönd Færeyinga. Ef tölur um fiskútflutning Færeyinga til Evrópubandalagsins árið 1990 eru settar inn í þann samning er niðurstaðan sú að um 10% af tollum sem lagðir hefðu verið á eftir tollskrá, ef enginn samningur hefði verið fyrir hendi, standa eftir. Ef sambærileg aðferð er notuð við útflutning Íslendinga til Evrópubandalagsins sama ár, þ.e. að setja útflutningstölur þess árs inn í þær tollalækkanir sem náðust með EES-samningnum er niðurstaðan sú að þar standa einungis eftir um 3,5% af upphaflegum tollum. Auk þess er samningur Færeyinga ósveigjanlegur að því leyti að þeir þurfa að sæta magnkvótum, miðað við núverandi útflutning þeirra.
    Þessu til viðbótar gengu Færeyingar frá mun umfangsmeiri tvíhliða samningi við Evrópubandalagið um skipti á veiðiheimildum. Þannig gefa Færeyingar veiðiheimildir á þorski, ýsu, ufsa, karfa og kola en fá í staðinn tegundir á borð við makríl, sandál, brisling og kolmunna. Veiðum Evrópubandalagsflotans er skipt niður eftir tegundum og tíma. Fjöldi skipa sem fær að vera á veiðum á hverjum tíma á hverri tegund er breytilegur. Engu að síður geta á annað hundrað skipa verið að veiðum á hverjum tíma innan færeyskrar fiskveiðilögsögu. Eftirlitsákvæði í samningnum eru langt frá því að vera jafnströng og í rammasamningi Íslands og EB, sem undirritaður var í Óportó 2. maí 1992.
    Lítum frekar á reynslu þjóða af tvíhliðasamningum við Evrópubandalagið. Pólland, Ungverjaland og Tékkóslóvakía gerðu aukaaðildarsamning við Evrópubandalagið, einnig í lok síðasta árs. Það er vert í þessu samband að hafa í huga að þessi ríki njóta ómetanlegs pólitísks velvilja innan Evrópubandalagsins, jafnt meðal stjórnmálamanna og almennings í Evrópu. Þjóðarleiðtogar hafa gefið sverar yfirlýsingar um nauðsyn þess að styðja við bakið á þessum nýfrjálsu þjóðum og nægir í þessu sambandi að minna á yfirlýsingar François Mitterrand og Helmuts Kohl, auk sérstakrar vináttu Margrétar Thatcher við þessi ríki, sem núverandi forsætisráðherra, John Major, tók í arf.
    Hver var niðurstaða samninganna? Niðurstaða samninganna var að Póllandi, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi er gert að aðlaga sig að hagkerfi Evrópubandalagsins á sjö árum. Til samanburðar má geta þess að Grikkland, Portúgal og Spánn fengu aðlögunartíma í kringum 20 ár, fyrst í aukaaðildarsamningi og síðar í sérákvæðum í aðildarsamningi. Fjárhagsleg aðstoð, sem þessi ríki geta átt aðgang að, er óveruleg í samanburði við þá hjálp sem frá upphafi var veitt fyrrnefndum ríkjum, Grikklandi, Portúgal og Spáni. Þó áttu þau því láni að fagna í samanburði við nýfrjálsu ríkin í Mið- og Austur-Evrópu að þar var fyrir hendi markaðskerfi, þótt veikburða væri.
    Evrópubandalagið fær í sinn hlut fullan aðgang fyrir framleiðsluvörur sínar að mörkuðum Mið- og

Austur-Evrópuríkjanna. Helstu útflutningsvörur þeirra eru hins vegar útilokaðar frá markaði EB. Þar má nefna iðnaðarhráefni, kol, stál, vefnaðarvöru, landbúnaðarafurðir, skófatnað, sjávarafurðir o.s.frv. Þær útflutningsvörur sem þannig eru í tvíhliðasamningum þessara ríkja við Evrópubandalagið eru útilokaðar, ýmist varanlega eða fyrstu sjö árin, taka yfir helming af mögulegum útflutningi hvers þessara ríkja um sig.
    Þá eru enn frekari hömlur á frjálsum vöruviðskiptum þar sem samkeppnisreglum verður ekki beitt á samræmdan hátt, auk þess sem varla er hægt að tala um möguleika vinnandi fólks í Mið-Evrópu til að hasla sér völl innan Evrópubandalagsins.
    Þetta er niðurstaðan af tvíhliða samningum nánustu grannþjóða Evrópubandalagsins sem njóta sérstakrar pólitískrar velvildar forustumanna og almennings í þessum löndum. Mundu samningar af þessu tagi duga okkur?
    Fríverslunarsamningur Íslands og EB frá 1972 hefur vissulega reynst okkur Íslendingum vel. Fríverslun hefur leitt til aukinnar samkeppni sem kemur neytendum og framleiðendum til góða, auk þess sem útflutningsmarkaðir fyrir íslenskar afurðir opnuðust að hluta.
    Það er löngu ljóst að samningurinn frá 1972 dugir ekki lengur. Hann nær ekki til mikilvægra útflutningsafurða; hann setur þróun fiskvinnslu á Íslandi skorður með því að takmarka og hindra útflutning á unnum afurðum; hann tekur ekki til þjónustuviðskipta og gefur því t.d. íslenskum skipa- og flugfélögum ekkert svigrúm. Þannig leysir fríverslunarsamningurinn gamli við Evrópubandalagið ekki þau vandamál sem fylgja tæknilegum viðskiptahindrunum.
    Allir samkeppnisaðilar okkar verða trúlega einhvern tímann í framtíðinni aðilar að Evrópubandalaginu. Með tuttugu ára gamlan fríverslunarsamning einan að vopni verður samkeppnisstaða Íslands óviðunandi með öllu. Ef hér á landi á að haldast full atvinna og ef þjóðartekjur eiga að aukast á ný þarf á fjárfestingu að halda í íslensku atvinnulífi. EES-samningurinn tryggir að útflutningur héðan mun sæta sömu kjörum og innlend framleiðsla á mörkuðum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins; tollskoðun og innflutningseftirlit verður einfaldað til muna. Greiðari markaðsaðgangur og bætt samkeppnisstaða gerir fjárfestingu í íslensku atvinnulífi vænlegri kost, jafnt fyrir innlenda sem erlenda aðila. Þennan ávinning er engin leið að fá á grundvelli gamla tvíhliða fríverslunarsamningsins.
    Þrátt fyrir atbeina Dana og þrátt fyrir það að upphafsstaða þeirra við samningagerð var betri en okkar, því að Færeyingar höfðu óátalið flutt inn tollfrjálst til Danmerkur um áratuga skeið, fá frændur okkar Færeyingar lakari tollaívilnanir fyrir sjávarafurðir á EB-markaði en Íslendingar fengu með EES-samningnum og þurfa að auki að láta í staðinn miklar veiðiheimildir. Hvaðan kemur mönnum yfirleitt sú fullvissa að Ísland muni sækja gull í greipar Evrópubandalagsins í tvíhliða viðræðum við það?
    Alþýðubandalagið hefur eitt flokka hér á hinu háa Alþingi fundið upp á því að rétt sé að gera aukaaðildarsamning við EB um ýmsa þætti fjórfrelsisins en án sameiginlegra stofnana til eftirlits og úrskurða um ágreining. Reynslan í þessu efni er ólygnust til svara. Við sjáum hverju slíkir samningar hafa skilað hinum nýfrjálsu þjóðum í Mið- og Austur-Evrópu þrátt fyrir það að þær njóti mikillar pólitískrar velvildar.
    Eftir stendur við þessa skoðun að óskalistar duga okkur ekki. Eftir stendur að EES-samningurinn færir Íslendingum ávinning langt umfram það sem aðrar þjóðir hafa mátt una við í tvíhliða samningum við Evrópubandalagið. Samflot Íslands með hinum EFTA-ríkjunum varð til þess að fórnarkostnaðinum af samningnum var dreift; frændur okkar Norðmenn og aðrar bandalagsþjóðir okkar í EFTA léttu sérstaklega byrðar okkar þegar kom að því að standa vörð um íslenska grundvallarhagsmuni í sjávarútvegsmálum.
    Árangur EES-samninganna tekur af tvímæli um að sú leið að semja með hinum EFTA-ríkjunum um stofnun Evrópska efnahagssvæðisins skilaði Íslendingum langsamlega bestum niðurstöðum. Án samstöðu EFTA-ríkjanna og framlags þeirra til samninganna, t.d. í formi veiðiheimilda, sjóðsframlaga og samgönguréttinda um Alpana, var borin von að Íslendingar hefðu náð viðlíka hagstæðri niðurstöðu einir á báti. Enda máttum við ganga að því sem vísu fyrir fram, ella að Evrópubandalagið hefði krafist einhliða veiðiheimilda í staðinn fyrir tollfrjálsan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir ef ekki hefðu aðrir komið til til þess að tryggja heildarjafnvægi samningsins. Þessi samningsárangur náðist þrátt fyrir það að Evrópubandalagið næði hvorki fram kröfum sínum um einhliða veiðiheimildir jafngildar tollalækkunum né heldur stífum kröfum um rétt til fjárfestingar í fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu.
    Vilji menn gera samning um eitthvað annað og meira en markaðsaðgang, þ.e. um hlutdeild í hinu fjóreina frelsi, er ljóst að slíkur samningur opnar engar dyr, nema eftirlit með samningsskuldbindingum sé tryggt. Það er skiljanlegt að Evrópubandalagið hafi takmarkaðan áhuga á að opna samstarf upp á gátt við ríki utan bandalagsins, fallist þau ekki einu sinni á að eftirlit sé haft með því hvort staðið verði við gerða samninga.
    Í málum af þessum toga er ekki nóg að setjast niður, eins og formaður Alþb. hefur gert, og skrifa tvíhliða samning við EB á hné sér og kynna hann síðan sem sérstakt samningsafrek. Menn geta óáreittir skrifað eigin óskalista og áskilið sér öll hugsanleg réttindi og vísað á bug samsvarandi skyldum. En þegar öllu er á botninn hvolft þá þarf tvo til --- það þarf tvo til að skrifa undir hvern þann samning sem gerður er og óskhyggjan gerir í því efni enga stoð.
    Virðulegi forseti. Víkjum nú nokkrum orðum að viðskiptahagsmunum okkar Íslendinga.
    Beinar fjárfestingar fyrirtækja í löndum utan Evrópubandalagsins í fyrirtækjum innan bandalagsins hafa aukist gífurlega á seinni árum. Öll vilja fyrirtækin tryggja stöðu sína á innri markaði Evrópubandalagsins þegar hann kemur að fullu til framkvæmda um næstu áramót. Fjárfestingar íslenskra fyrirtækja hafa til þessa ekki verið nema brot af því sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa fjárfest innan Evrópubandalagsins þótt einungis sé miðað við hlutfallstölur. En fjárfestingardæmið er af því tagi að það minnir okkur á að atvinnulífið grípur einfaldlega til sinna eigin ráða og flytur starfsemi sína að verulegu leyti inn fyrir múra Evrópubandalagsins ef stjórnvöld sitja með hendur í skauti og gera ekki skyldu sína til að tryggja aðgang að þessum markaði á jafnréttiskjörum.
    Okkar val stendur á milli þess að lenda utan tollmúra og hætta á að atvinna og fjármagn leiti úr landi inn á markað Evrópubandalagsins eða gera raunhæfa samninga sem gera okkur kleift að skapa skilyrði fyrir blómlegu atvinnulífi, vexti þess og viðgangi á okkar eigin landi.
    Íslenskt atvinnulíf þarf fyrr eða síðar að laga sig að breyttum aðstæðum í Evrópu, um það eru allir sammála, hvort sem er innan eða utan viðskiptabandalaga, eða hætta að öðrum kosti á stöðnun og jafnvel hnignun. Okkar leið var ekki að sækja um inngöngu í Evrópubandalagið heldur að ná samningum um Evrópskt efnahagssvæði til að tryggja áhrif okkar og ávinning í alþjóðlegum viðskiptum og samstarfi svo sem best er kostur.
    Árið 1991 var fob-verðmæti útflutnings Íslands ríflega 91,5 milljarðar króna. Af því var flutt til EES-landa fyrir rúmlega 68 milljarða króna en það samsvarar tæplega 75% af útflutningi þess árs. Til samanburðar var fob-verðmæti útflutnings okkar til Bandaríkjanna 12,6% og til Japans 7,9% á sama ári. Ef við lítum á innflutninginn eru tölurnar þessar: Innflutningur til Íslands var ríflega 101,5 milljarðar króna á cif-verði. Af því komu tæp 70% frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins, rúm 10% frá Bandaríkjunum og 7,4% frá Japan. Þessar tölur segja meira en nokkuð annað um mikilvægi viðskipta okkar við lönd Evrópska efnahagssvæðisins.
    Virðulegi forseti. Í skýrslu minni til Alþingis í október 1990, í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, rakti ég helstu áhersluatriði okkar Íslendinga í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið. Fyrsta mál á dagskrá var að vörusviðið yrði að ná til sjávarafurða; að samkeppnisskilyrði skyldu vera jöfn; að bókun 6 skyldi halda gildi sínu, hvort sem af EES-samningnum kynni að verða eða ekki.
    Næst tók ég fram að eignarhald erlendra aðila í íslenskum náttúruauðlindum yrði ekki umsemjanlegt; að varnaglaákvæði yrði sett um frjálsan atvinnurétt og að ekki yrði slakað á kröfum um öryggi, hollustuhætti og umhverfisvernd.
    Árangurinn liggur nú fyrir skjalfestur á borðum hv. alþingismanna. Þegar samningurinn er að fullu kominn til framkvæmda mun sjávarútvegurinn í fyrsta sinn í sögunni standa nokkurn veginn jafnfætis keppinautum sínum og annarri iðnaðarframleiðslu á því markaðssvæði sem tekur við 4 / 5 hlutum sjávarvöruútflutnings okkar. Noregur, sem í EFTA-samningum hafði aðlögunartíma til ársloka 1993 til þess að koma á fríverslun með fiskafurðir, til þess að afnema ríkisstyrki, mun verða að flýta þeirri skuldbindingu um eitt ár. Bókun 6 mun halda gildi sínu á hverju sem dynur. Erlendum aðilum verður ekki heimilt að fjárfesta í sjávarútvegi eða orkulindunum, nema við hér á Alþingi Íslendinga kjósum svo.
    Eignarhald ríkis eða sveitarfélaga í fyrirtækjum sem nýta orkuauðlindir okkar brýtur ekki í bága við þennan samning. Varnaglaákvæði fékkst fram, ekki aðeins um atvinnurétt, heldur alla hluta samningsins. Hægt verður að grípa til þess hvenær sem stjórnvöld telja hættu bera að höndum. Haldið verður uppi fyllstu kröfum um öryggis- og hollustuhætti og víða mun samningurinn leiða til hertra krafna um umhverfisvernd og vinnueftirlit.
    Í sömu skýrslu frá því í október 1990 áréttaði ég meginmarkmið samningsins á fjórum meginsviðum. Að því er varðaði vöruviðskipti væri stefnt að því að koma á fríverslun á grundvelli samræmdra samkeppnisreglna, fyrir utan landbúnað og sjávarútveg; að útvíkka vörusvið samningsins þannig að hann tæki til fiskafurða og tiltekinna landbúnaðarafurða; að afnema allar magntakmarkanir; að jafna starfsskilyrði atvinnuvega gagnvart skattheimtu og gjaldtöku; að ná fram sérstökum ákvæðum vegna greiðslujafnaðarörðugleika aðildarríkja; að afnema undirboðstolla innan EES; að einfalda upprunareglur; að afnema tæknilegar viðskiptahindranir; setja samræmdar reglur um ríkisstyrki; að opna markaði fyrir opinber innkaup og framkvæmdir; að samræma reglur um hugverkarétt; að koma á skaðsemisábyrgð framleiðenda vegna vöru; að endurbæta reglur um viðskipti með kol og stál og auka samstarf um vissa þætti orkumála. Öll þessi samningsmarkmið hafa náð fram að ganga.
    Í samningum um fjármagns- og þjónustuviðskipti voru markmiðin skilgreind á þá leið að stefnt væri að sameiginlegum markaði fyrir bankaþjónustu, þjónustu verðbréfafyrirtækja og annarra fjármálastofnana, t.d. vegna vátryggingastarfsemi, fjarskiptaþjónustu, upplýsingaþjónustu, kvikmyndaframleiðslu og útvarps og sjónvarps. Frelsi skyldi ríkja í flutningastarfsemi og fjármagnsflutningum milli landa. Öll hafa þessi markmið náð fram að ganga.
    Meginmarkmiðið varðandi atvinnu- og búseturétt var að koma skyldi á frjálsum atvinnu- og búseturétti fyrir launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga og fjölskyldur þeirra innan EES á grundvelli almennu reglunnar um jafnan rétt á við ríkisborgara í því landi þar sem atvinnan er stunduð. Afnema skyldi alla mismunun vegna þjóðernis varðandi almenn lífsskilyrði í því landi þar sem vinnan er innt af hendi, svo sem vegna ráðningar- og starfsskilyrða og félags- og efnahagslegra skilyrða. Tryggja skyldi jafnan rétt til almannatrygginga og rétt til þátttöku í verkalýðsfélögum. Aðgangur að menntun og starfsþjálfun skyldi vera

frjáls, komið skyldi á gagnkvæmri viðurkenningu prófa, samræmingu á aðgangi að einstökum starfsgreinum og viðurkenningu á sambærilegri starfsþjálfun. Komið skyldi á fót samvinnu þeirra sem fylgjast með vinnumarkaðsmálum og einfalda landamæraeftirlit. Öll hafa þessi samningsmarkmið náð fram að ganga.
    Loks lögðum við áherslu á rétt EFTA-ríkjanna til þátttöku í áætlunum Evrópubandalagsins um rannsóknir og þróun, menntamál, umhverfismál, neytendavernd, félagarétt, málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja, félagsleg réttindi, hagtölur, ferðamál, almannavarnir o.fl. Stefnt var að nánu samráði ríkjanna varðandi stefnu í menntamálum, rannsókna- og þróunarstarfi, samræmingu á löggjöf á þessum sviðum þar sem þörf krefur, auk þátttöku í rekstri tiltekinna verkefna á sviði menningarmála. Öll hafa þessi markmið náð fram að ganga í þessum samningi.
    Því hefur verið haldið fram að með EES-samningnum sé verið að yfirtaka einhver ókjör af nýjum lögum sem séu jafnvel margfalt viðameiri en gervallt íslenska lagasafnið. Þær fullyrðingar standast reyndar ekki ef menn skoða þær nánar. Íslenska lagasafnið mun telja samtals 1.385 blaðsíður. Sá hluti EES-samningsins sem væntanlega verður lögfestur og öll fylgifrumvörp hans, rúmlega 60 að tölu, eru að öllum líkindum innan við 50 blaðsíður í íslenska lagasafninu. EES-samningurinn í heild, með viðbótaryfirlýsingum, bókunum og viðaukum er í heild sinni um 10.000 blaðsíður. Að stærstum hluta er það þjóðréttarsamningur sem hefur ekki lagagildi á Íslandi. Eftir gildistöku samningsins verða hins vegar settar íslenskar reglugerðir, sem taka mið af samningnum. Blaðsíðufjöldinn verður hins vegar einungis brot af áðurnefndri heildartölu þótt erfitt sé að meta hann nákvæmlega á þessari stundu. Þann blaðsíðufjölda á náttúrlega að bera saman við blaðsíðufjölda gildandi íslenskra reglugerða sem skipta tugþúsundum en er ekki að finna í lagasafni.
    Margir þeir sem lagst hafa gegn EES-samningnum hafa viðurkennt að fjölmargt nýtilegt og gagnlegt sé að finna í reglum þeim sem Evrópubandalagsríkin tólf hafa komið sér saman um varðandi framleiðslu og viðskipti. Reyndar hefur um árabil verið tekið tillit til ekki einasta norrænnar heldur evrópskrar löggjafar við frumvarpasmíð hér á landi. Það skýrir ef til vill hvers vegna nauðsynlegar lagabreytingar vegna EES-samningsins eru þrátt fyrir allt ekki meiri að vöxtum en raun ber vitni.
    Einhliða aðlögun að markaðsreglum Evrópubandalagsins getur hins vegar aldrei skilað okkur neinu öryggi eða neinum réttindum. Nauðsynleg viðurkenning á íslenskum afurðum og þjónustu á markaðnum fæst aðeins með því að viðskiptaþjóðirnar innan Evrópska efnahagssvæðinsins skuldbindi sig til slíkrar viðurkenningar samkvæmt umsömdum reglum.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér tíundað nokkuð samningsniðurstöðurnar eins og þær lágu fyrir í stórum dráttum í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og ég árétta það að þessi árangur náðist að mestu leyti í tíð fyrrv. ríkisstjórnar við samningaborðið. Í mars 1991, réttum mánuði fyrir síðustu alþingiskosningar, lagði ég enn fram skýrslu á Alþingi um stöðu samningaviðræðna að beiðni nokkurra þingmanna Sjálfstfl. Í þessari skýrslu var staða samningaviðræðnanna skýrð og þau atriði tíunduð sem samkomulag hafði þá þegar náðst um en í öðrum tilvikum var lýst stöðu samningsaðila. Að gefnu tilefni langar mig til fróðleiks til að minnast á ýmis atriði í þessari skýrslu til Alþingis.
    Samningskaflinn um fjárfestingar var að fullu tilbúinn á þessum tíma. Það eina sem gerðist á lokasprettinum var að fyrirvarinn sem við sóttum svo hart að fá við fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi fékkst viðurkenndur síðar. Að öðru leyti var allur kaflinn um fjármagnsmarkaðinn tilbúinn eins og hann lá fyrir og liggur fyrir.
    Samningsákvæði um ákvarðanatöku innan EES voru fullmótuð þegar hér var komið sögu. Þá lá allt fyrir um þátttöku sérfræðinga EFTA-ríkjanna í ákvarðanatökunni, um rétt samningsaðila til þess að taka mál upp til endurskoðunar í EES-ráði og nefnd, hvenær sem er, að ógleymdri grundvallarreglunni um að engin ákvörðun yrði tekin innan Evrópska efnahagssvæðisins nema með samþykki allra samningsaðila, þ.e. um neitunarvald hvers einstaks ríkis. Allt lá það fyrir.
    Ákvæði um eftirlit með framkvæmd samningsins voru ekki endanlega frágengin í tíð síðustu ríkisstjórnar. Engu að síður var ljóst að unnið yrði eftir svokallaðri tveggja stoða lausn, þannig að um yrði að ræða sérstaka eftirlitsstofnun EFTA. Þessu til staðfestingar segir í skýrslu minni til Alþingis í tíð fyrrv. ríkisstjórnar orðrétt á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Samkeppnisreglunum er ætlað að tryggja að jöfn samkeppnisskilyrði ríki á EES-svæðinu . . .   Þess vegna hafa EFTA-ríkin, við uppbyggingu eftirlits af þeirra hálfu, talið eðlilegt að taka viðeigandi tillit til þess fyrirkomulags, sem ríkir innan framkvæmdastjórnar EB við framkvæmd samkeppnisreglna.``
    Þessu fylgir síðan upptalning á valdsviði framkvæmdastjórnarinnar innan bandalagsins og er þar m.a. skýrt tekið fram hvernig unnt er að leggja á sektir við brotum á samkeppnisreglum. Þá er í skýrslunni vísað til niðurstaðna ráðherrafundar EFTA og EB í árslok 1990, m.a. með þessum orðum:
    ,,Ráðherrar tóku fram að samningamenn ynnu nú á þeim grundvelli að sett yrði upp sjálfstæð EFTA-stofnun til að beita samkeppnisreglum. Slík stofnun ætti að hafa samsvarandi umboð og hlutverk og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins.``
    Þetta var árið 1990 og þetta er niðurstaðan eins og hún liggur fyrir.
    Ég legg á það áherslu, virðulegur forseti, að eins og málin stóðu við samningaborðið í fyrra ríkisstjórnarsamstarfi var þessum tillögum aldrei mótmælt hvort heldur þær tóku til eftirlitsstofnunar eða dómstóls. Ákvæði samningsins um dómsvald á Evrópska efnahagssvæðinu voru að vísu í annarri mynd á tíma

síðustu ríkisstjórnar en nú. Þá var nefnilega gert ráð fyrir sameiginlegum dómstóli Evrópska efnahagssvæðisins, dómstóli sem hefði vald til að kveða upp forúrskurði með skýringum á ESS-samningnum og viðaukum sem yrðu bindandi fyrir dómstóla í aðildarríkjum, sem yrðu bindandi fyrir íslenska dómstóla. Þannig var samningsákvæðið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Niðurstaðan samkvæmt þeim samningi sem hér er lagður fyrir Alþingi varð hins vegar sú að stofnað verður til sérstaks EFTA-dómstóls sem hægt er að leita til eftir forúrskurðum en þeir forúrskurðir eru einungis leiðbeinandi fyrir ríkin sem að Evrópska efnahagssvæðinu standa.
    Þannig er ljóst að það sem breyst hefur í EES-samningnum á lokastiginu hvað dómsvald varðar frá tíð síðustu ríkisstjórnar er það að staða dómstólsins er veikari en hún var og það er enn tryggara nú en áður að dómsvald innlendra aðila verður ekki framselt úr landi.
    Það lá alltaf fyrir að EES-samningurinn var gerður með það í huga að orð skyldu standa. Það var kveðið á um það frá upphafi að við værum að semja um gagnkvæm réttindi og samsvarandi skyldur samningsaðila. Því var ávallt ljóst frá upphafi að um yrði að ræða sameiginlegar stofnanir samningsaðila til að fylgjast með framkvæmd samningsins. Eða eins og segir í skýrslu minni til Alþingis frá í mars 1991, með leyfi forseta:
    ,,Samræmd framkvæmd og túlkun á EES-reglum í öllum aðildarríkjunum er forsenda þess að markmiðum samningsins verði náð. Ljóst er að samningsaðili sem samið hefur um að beita sameiginlegum reglum í samskiptum við aðra getur ekki einn ráðið ferðinni við túlkun reglnanna. Sameiginlegar stofnanir samningsaðilanna eru óhjákvæmilegar til eftirlits. Ef samið verður um sameiginlegar samkeppnisreglur sem gilda í viðskiptum á milli einstaklinga og fyrirtækja yfir landamæri ríkja beinist eftirlitið að viðskiptaaðilunum sjálfum. Í samningaviðræðum um sjálfstætt eftirlit með sameiginlegum samkeppnisreglum hafa EFTA-ríkin gengið út frá að ákvörðun eftirlitsstofnunar sem beinist að einstaklingi eða fyrirtæki er gerst hefur brotlegt verði ekki hægt að fullnægja nema fyrir atbeina þar til bærra stjórnvalda í aðildarríkjunum.`` --- Eins og niðurstaðan reyndar er.
    Virðulegi forseti. Þá vil ég víkja að því sem hafið er yfir allan vafa. Í greinargerðum um þetta mál í tíð fyrrv. ríkisstjórnar er það engum vafa undirorpið að við töldum valdsvið sameiginlegra stofnana samræmast stjórnarskránni. ( ÓRG: Þú taldir það.) Þetta er auðvelt að færa sönnur á, hv. þm.
    Ég vil af þessu tilefni enn vitna í skýrslu sem lögð var fram hér á hinu háa Alþingi í tíð fyrri ríkisstjórnar, sem ég hef áður vitnað til, frá því í mars 1991. Þar segir, virðulegur forseti, á þessa leið:
    ,,Mörg fordæmi eru til í þjóðréttarsamningum sem Alþingi hefur fullgilt sem fela í sér sambærileg dæmi um viðurkenningu á aðfararhæfi sekta og annarra ákvarðana stjórnvalda og dóma í öðrum ríkjum. (Sjá t.d. lög nr. 30/1932, um Norðurlandasamning um viðurkenningu dóma, lög nr. 11/1972, um aðstoð í skattamálum, lög nr. 93/1962, um innheimtu meðlaga.) Íslendingar hafa einnig samþykkt lögsögu alþjóðadómstóla undir þeim sáttmálum sem þeir eru aðilar að, samanber t.d. Mannréttindadómstól Evrópuráðsins. Íslenska stjórnarskráin hefur eins og framangreind dæmi bera með sér verið túlkuð með tilliti til aukins samstarfs þjóða og þróunar á alþjóðavettvangi. Telja verður að þær hugmyndir sem varða valdssvið sameiginlegra stofnana á Evrópska efnahagssvæðinu falli innan ramma stjórnarskrárinnar eins og hún hefur verið túlkuð fram að þessu.``
    Þetta var greinargerð til Alþingis Íslendinga um afstöðu Íslands til þessara samninga eins og hún var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Því má bæta við að ef rekja ætti fleiri dæmi um það hvernig Alþingi Íslendinga hefur samþykkt með lögum aðfararhæfi dóma, sekta, erlendra dómstóla og stjórnvalda þá eru þau dæmi fleiri. M.a. voru samþykkt lög bæði um gerðardóma og um aðfararhæfi í tíð fyrrv. ríkisstjórnar sem byggja á þeirri grundvallarreglu að Alþingi setur lög þar sem slíkt aðfararhæfi dóma og stjórnvaldsúrskurða erlendra aðila er viðurkennt. Þessi dæmi má rekja allt frá árinu 1932, þ.e. áður en núverandi stjórnarskrá íslenska ríkisins var sett og síðan allan tímann á lýðveldistímanum.
    Virðulegi forseti. Þessi skýrsla var sem fyrr sagði lögð fyrir Alþingi í mars 1991. Ég vek athygli á því að hún var aldrei tilefni til athugasemda frá samráðherrum mínum, aldrei. Þeir gerðu hvorki þá né ella, þegar þetta mál var til umfjöllunar á vettvangi ríkisstjórnar, neinar athugasemdir við meðferð utanrrn. í þessum málum. Til frekari glöggvunar er rétt að minna á ummæli tveggja þáv. samráðherra minna um Evrópska efnahagssvæði frá því um mánaðamótin apríl/maí 1991 þegar stjórnarmyndun var til umræðu að loknum síðustu alþingiskosningum. Þá var spurst fyrir um afstöðu Alþýðubandalagsins og þá sérstaklega hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar, til samninganna um Evrópska efnahagssvæðið. Það var sérstaklega spurt hvort Hjörleifur Guttormsson yrði til að eyðileggja málið í áframhaldandi samstarfi þáverandi stjórnarflokka.
    Um afstöðu Hjörleifs til málsins sagði hv. 8. þm. Reykn. aðspurður í sjónvarpi hinn 21. apríl orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Alþýðubandalagið hefur stuðlað að því að viðræður um álver hafa getað haldið áfram með eðlilegum hætti. Viðræður um Evrópskt efnahagssvæði hafa haldið áfram með eðlilegum hætti . . .  `` Ekkert óeðlilegt við það, enginn ágreiningur um það.
    ,,Nú er ástæða að nefna það sem dæmi að þegar við mynduðum ríkisstjórnina á einni viku haustið 1988 þá lá fyrir [segir hv. 8. þm. Reykn.] að tveir af þingmönnum Alþýðubandalagsins, þeir Skúli Alexandersson og Geir Gunnarsson, voru á móti þeirri stjórnarmyndun. Engu að síður stóð þingflokkur Alþýðubandalagsins heill með þeirri ríkisstjórn að öllum lykilmálum hennar og ég lýsi því hér að þingflokkur Alþýðubandalagsins mun standa heill að stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem við munum mynda hér . . .  `` Ein tilvitnun í viðbót í 8. þm. Reykn. í sama samtali í sjónvarpi, virðulegur forseti:
    ,, . . .  ég ætla bara að segja að minn flokkur mun standa heill og óskiptur með slíkri ríkisstjórn, það er ljóst.``
    Hv. 1. þm. Austurl. segir um Evrópumálin og samvinnu milli Alþýðu- og Framsóknarflokks í Tímanum hinn 25. apríl 1991:
    ,,Við höfum unnið af fullum heilindum saman að málinu og við erum reiðubúnir að gera það áfram.``
    Ég hef rakið hvernig við unnum að málinu í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Þetta eru allt saman yfirlýsingar um að standa heilir og óskiptir að málinu enda ekkert óeðlilegt við það hvernig á málinu var haldið, virðulegi forseti.
    Hv. þingmenn, ráðherrar í síðustu ríkisstjórn, sátu í þeirri ríkisstjórn og fjölluðu að sjálfsögðu á fjölmörgum ríkisstjórnarfundum um samningaviðræðurnar um Evrópska efnahagssvæði sem stóðu í tvö ár. Á þeim tíma var afstaða stjórnarflokkanna til samninganna að sjálfsögðu eitt af meiri háttar málum í stjórnarsamstarfinu og því eðlilega mjög oft til umræðu, jafnt innan ríkisstjórnar og í stofnunum stjórnarflokkanna. EES-samningurinn, sem hér er lagður fyrir Alþingi, er í öllum meginatriðum í samræmi við þau samningsdrög sem fyrir lágu við lok starfstímabils síðustu ríkisstjórnar, virðulegi forseti.
    Ég tel það vissulega fullreynt að betri kosta er ekki völ í samskiptum okkar við Evrópubandalagið á þessum tíma. Ég á ekki von á því að í bráð skapist aftur þær sögulegu aðstæður sem gerðu þennan árangur mögulegan. Ef EES-viðræðurnar hefðu frestast af einhverjum ástæðum um 1--2 ár er ég ekki viss um að hægt hefði verið að leiða þær til lykta. EES-samningurinn gefur okkur sögulegt tækifæri til þess að koma samskiptum okkar við Evrópubandalagið við þá markaði sem okkur eru lífsnauðsynlegir í viðunandi og varanlegt horf.
    Norðurlandaþjóðirnar stefna hver á fætur annarri inn í Evrópubandalagið, hvernig sem þeim mun nú vegna í þeim samningum og hversu langan tíma sem það mun taka þær. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gefur okkur einnig færi á að halda áfram þeim tengslum sem skapast hafa við frændþjóðir á Norðurlöndum. Um þetta fjallar t.d. hv. 1. þm. Austurl. í nýlegri blaðagrein og segir þá á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Ef við stöndum einir utan við EES er líklegt að við munum verða einangraðir á ýmsum sviðum í norrænu samstarfi. Frelsin fjögur yfirtaka margt af því sem menn hafa náð fram í norrænu samstarfi, eins og t.d. norræna vinnumarkaðinn. Hann hefur verið okkur mjög þýðingarmikill í gegnum tíðina, en með frjálsum flutningi vinnuafls innan Evrópu munu reglur EB og EES yfirtaka þetta hlutverk. Sama má segja um mörg önnur svið og ekki er sjálfgefið að norrænt samstarf haldi áfram á þeim sviðum, sem EES yfirtekur.`` Þetta eru orð hv. 1. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar. Ég get vissulega tekið undir þau. ( Gripið fram í: Hvenær?) Í nýlegri blaðagrein, ég er ekki með dagsetninguna.
    Það hefur oft gerst að mér hafa ranglega verið eignuð orð á þá leið að allt hafi í þessum samningum fengist fyrir ekkert. Hið rétta er að samningsaðilum okkar þótti sem Ísland hefði engu fórnað en fengið fram full réttindi. Þetta var afstaða sem var yfirlýst af varaforseta bandalagsins að samningunum loknum. Þetta eru hans orð en ekki mín. Ég veit að mörgum finnst það samstarf sem við nú hyggjumst hefja við aðrar Vestur-Evrópuþjóðir vera helst til umfangsmikið. Vissulega er það svo að ekki eru allir þættir þess jafnáhugaverðir. Ég á t.d. ekki von á því að þær 1.800 blaðsíður af gerðum sem hv. 4. þm. Austurl. spurði hér eftir áðan, sem fjalla t.d. um bifreiðaframleiðslu, um framleiðslu vélknúinna ökutækja eða landbúnaðardráttarvéla sem við höfum enn ekki tekið upp hér á landi, snerti íslenskt atvinnulíf í bráð. ( Gripið fram í: Er búið að þýða hann?) Sama máli gegnir t.d. um skipaskurði og járnbrautasamgöngur. Til að svara fyrirspurn hv. þm. skal þess getið að að langsamlega stærstum hluta þá liggja þessar gerðir fyrir í íslenskri þýðingu. Þar hefur forgangsröðin verið sú að fyrst hefur verið unnið að þýðingu þess sem þegar er til í íslensku efnahagslífi og hefur því eitthvert praktískt gildi. En yfirlit um stöðu þessara gerða og þýðing þeirra er eftir því sem ég best veit tilbúið, ég veit að það er tilbúið og átti að senda öllum þingflokkum í dag. Ég hygg því að þar komi fram greinargóð svör við spurningum hv. þm.
    Það er alveg rétt að samningurinn er víðtækur og nær til fleiri sviða en íslenskt atvinnulíf gerir í dag. En ég spyr: Er það frekar galli en kostur? Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér? Öll vonumst við til þess að íslenskt atvinnulíf vaxi og dafni og verði fjölbreyttara en það hefur verið. Innihaldsrýr samningur hefði sett framtíðarþróun atvinnulífs hér þess vegna þrengri skorður en æskilegt væri. Skemmst er að minnast t.d. að ekki þótti ástæða til þess á sínum tíma, þegar verið var að véla um fríverslunarsamningnn 1972, að láta hann ná til stáls frá Íslandi. Tæpum 20 árum síðar þurfti svo að grípa til sérstakra samningaumleitana þegar stálframleiðsla hófst hér á landi með útflutning til EB fyrir augum. Tilraunin tókst að vísu ekki í það skiptið en við vonum að það gangi betur í annað sinn.
    Virðulegi forseti. Undanfarin ár hefur Ísland eitt Vestur-Evrópuríkja búið við samdrátt í þjóðarframleiðslu. Við nýtingu auðlinda hafsins erum við ekki aðeins komin að endimörkum vaxtar heldur verðum við beinlínis að draga úr sókn í mikilvægustu nytjastofna. Atvinnuleysi gerir nú vart við sig á ný og sú hótun vofir yfir okkur að það nái að festa sig í sessi ef stöðnun atvinnulífsins reynist viðvarandi og ef

ekki er bryddað upp á nýjungum í íslensku atvinnulífi og framleiðslustarfi.
    Við þessar aðstæður, virðulegi forseti, er það ábyrgðarhluti að hafna samningi sem í fyrsta skipti gefur helstu útflutningsafurðum Íslands, sjávarafurðum, sambærileg kjör á við þau sem iðnvarningur hefur notið um áratugi. Áralangri baráttu gegn saltfisktollum er lokið með sigri. Allir tollar falla niður strax í upphafi á mikilvægustu sjávarafurðavöruflokkum en aðrir tollar munu síðan lækka í áföngum um 70% þannig að eftirstöðvar tolla, þegar samningurinn er að fullu kominn til framkvæmda, verða það lágir að þeir munu ekki verka sem viðskiptahindrun.
    Undantekningarnar eru lax, makríll, síld, rækja, ein tegund hörpudisks og leturhumar. Ég vek þó athygli á því að þessar undantekningar, sem eru í samningnum vegna þess hversu harðsótt mál fiskveiðihagsmunir nokkurra aðildarþjóða Evrópubandalagsins var, snerta okkur minna en t.d. félaga okkar Norðmenn, t.d. vegna þess að tollfríðindi á rækju voru tryggð samkvæmt bókun 6 og þau haldast. Makrílveiðar höfum við ekki stundað við Ísland í stórum stíl, tollar á laxi eru lágir og undanþágan sem ég nefndi áðan snertir ekki íslenskan hörpudisk. Í ljósi þessa má segja að okkar hlutur hafi verið allgóður.
    Niðurfelling tolla hefur af samtökum sjávarútvegsins sjálfra verið metin á 2 milljarða á ári. Þá eru ekki tekin með í reikninginn þau tækifæri sem nú skapast í fyrsta sinn fyrir unnar neytendavörur sem ekki seldust áður vegna tollmúra. Nýjar og hertar reglur Evrópubandalagsins um heilbrigðiseftirlit með innfluttum sjávarafurðum hefðu getað orðið okkur alvarlegur trafali í viðskiptum um næstu áramót. En EES-samningurinn tryggir að íslensk heilbrigðisvottorð, okkar eigin heilbrigðisvottorð, verða þá tekin fullgild.
    Til þessa hafa tollmúrar komið í veg fyrir þróun í íslenskum fiskiðnaði að því er varðar margt. Ég nefni einungis fersk flök og reyktan fisk en fjölmargar aðrar unnar tegundir sjávarafurða gæti ég nefnt. Það hefur verið erfitt um vik að nýta sér tækifærið til þess að komast með afurðir okkar beint inn á neytendamarkaði. Þau færi sem hér skapast verða þegar fram í sækir miklu stærri ávinningur af þessum samningi en beinar tollaniðurfellingar einar sér. Það er af þessum ástæðum sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið mun reynast landsbyggðinni á Íslandi, þar sem sjávarútvegurinn er uppistaða atvinnulífs, sérstök lyftistöng í atvinnulegu tilliti.
    Evrópubandalagið hefur einnig skuldbundið sig til frekara samstarfs um framkvæmdaþætti eins og einföldun og hraðafgreiðslu í sambandi við tolla. Íslenskar framleiðsluvörur verða viðurkenndar á Evrópubandalagsmarkaði samkvæmt íslenskum stöðlum og íslenskum heilbrigðisvottorðum og tæknilegum viðskiptahindrunum verður rutt úr vegi. Hið sama gildir að sjálfsögðu um Evrópubandalagsafurðir hér á okkar smáa heimamarkaði. En jafnvel í því efni fengum við undanþágur. Ég get t.d. nefnt hættuleg efni þar sem við getum og okkur er alveg heimilt án þess að rjúfa þennan samning að setja strangari reglur, t.d. um asbest, kvikasilfur, óson-eyðandi efni, o.fl.
    Samstarf á sviði orkumála er að vísu ekki mjög umfangsmikið samkvæmt þessum samningi, en mun þó styrkja verulega stöðu okkar sem orkuútflytjanda til Evrópu. Íslenskir verktakar hafa lýst því yfir að þeir taki fegins hendi þeim nýju tækifærum sem nú bjóðast vegna opnunar útboðsmarkaða á EES-svæðinu enda hafa í raun allir stærstu verksamningar hérlendis á vegum ríkis og sveitarfélaga verið boðnir út til þessa á alþjóðlegum útboðsmarkaði, ólíkt því sem tíðkast víða í samnings- eða aðildarlöndum. Sú skuldbinding sem við tökum á okkur er ekki önnur en sú að taka hagstæðasta tilboði sé það víst að þau séu fyllilega sambærileg og það getur varla talist þröngur kostur út frá okkar sjónarmiði.
    Vernd hugverkaréttinda verður tryggari eftir að samningur þessi gengur í gildi. Vera má að einhverjir sem stundað hafa það að taka hugmyndir erlendis frá ófrjálsri hendi harmi það en vernd íslenskra hugvitsmanna og möguleikar á því að koma hugmyndum sínum í verð á erlendum mörkuðum verða að sama skapi betri.
    Lengi, virðulegi forseti, höfum við þann steininn klappað að reyna að laða hingað erlent fjármagn en með misjöfnun árangri, fyrst og fremst í því skyni þó af okkar hálfu að reyna að koma orkulindum okkar í verð. Skilyrði orkufreks iðnaðar batna til muna verði EES-samningurinn staðfestur, einfaldlega vegna þess að með honum afsalar EB sér rétti til undirboðsaðgerða en þær hafa vofað yfir jafnt álvinnslu sem járnblendi hér undanfarin ár og voru t.d. eitt af áhyggjuefnum Norðmanna út af sambærilegum útflutningsgreinum.
    Í iðnþróuðum þjóðfélögum hefur hagvöxtur undanfarin ár ekki síst falist í vexti þjónustugreina. Ísland er þar engin undantekning. Árið 1989 voru þjónustuviðskipti orðin 61% af vergri landsframleiðslu. Þau voru 53% árið 1973. Frjálsræði í þjónustuviðskiptum milli ríkja hefur farið vaxandi hér sem annars staðar en með samningnum, þeim sem hér liggur fyrir, er þó fyrst samið um gagnkvæm réttindi og öryggi í þeim málum.
    Ég hef ekki orðið þess var að miklum ótta hafi verið lýst af hálfu íslenskra banka, vátryggingafélaga, verðbréfasjóða, flugfélaga, skipafélaga eða öðrum þjónustufyrirtækjum vegna opnunar markaðarins enda telja þessi fyrirtæki sig vel samkeppnisfær. Viðskiptavild og sterk staða á markaðnum gefur þeim gott forskot á erlenda keppinauta, en nýir möguleikar opnast við aukið frjálsræði.
    Með þessum samningnum opnast líka nýjar leiðir fyrir íslenska atvinnustarfsemi að leita fyrir sér á Evrópumarkaði. Aðgangur að láns- og áhættufé verður auðveldari og greiðari. Tækifæri til nýsköpunar verða þar af leiðandi fleiri. Gera má ráð fyrir að aukin samkeppni í vöru- og þjónustuviðskiptum og hagkvæmari viðskiptahættir leiði til lækkunar verðlags og lækkunar vaxta sem hvort tveggja er í þágu almennings, neytenda og fyrirtækja. Hver sá sem skoðar umsagnir helstu íslenskra stofnana sem um samninginn hafa fjallað getur ekki efast um þetta.
    Það væri mikill misskilningur, virðulegi forseti, ef menn héldu að þessi samningur snerist einungis um hagsmuni atvinnulífs og fyrirtækja. Það er ekki minna um vert að með honum er nýr vettvangur opnaður ungu fólki jafnt sem hinum eldri til þess að leita út fyrir landsteinana, bæði til náms og til starfa í lengri eða skemmri tíma. Þátttaka í rannsóknarverkefnum Evrópuríkja verða íslenskum rannsóknum og vísindum lyftistöng. Reynslan sýnir að framlag til verkefna á borð við COMETT eða ERASMUS hefur þegar skilað sér með vöxtum og vaxtavöxtum til baka í beinhörðum peningum og er þá ótalið það sem mest er um vert, þ.e. niðurstöður rannsóknanna sjálfra.
    Gert er ráð fyrir að Íslendingar greiði um 3,5 milljónir króna til COMETT-áætlunarinnar árlega. Sammennt, samstarfsnefnd atvinnulífs og skóla, sem sér um framkvæmd svokallaðrar COMETT-áætlunarinnar á Íslandi, er rekin fyrir 12 milljón króna styrk frá COMETT svo að eitt dæmi sé nefnt. Allar umsóknir Sammenntar voru samþykktar. Samtals hlutu Íslendingar rúmlega 18 milljón króna styrk á tveimur árum sem jafngildir alla vega tvöföldu framlagi okkar og sem er langt umfram það sem kom í hlut annarra, t.d. Norðurlandaþjóða. Á þessu ári hafa Íslendingar sótt um styrki vegna þessa samstarfs upp á 30 milljónir og fengið vilyrði fyrir 23 milljónum. Stærst þeirra verkefna sem hlaut styrk er samstarfsverkefni fyrirtækja nokkurra þjóða sem Íslendingar leiða og felur í sér rannsóknir á gæðamati á sjávarafurðum og reglum um það. Samtals fengust um 16,5 milljónir króna til þessa mikilvæga verkefnis. Þetta er aðeins nefnt hér sem dæmi um það hvernig rannsóknir og vísindi munu styrkjast í kjölfar þessara samninga.
    ERASMUS-áætlunin hefur að markmiði að gefa æskufólki tækifæri til að nema í öðrum löndum en heimalandi sínu. Nú í haust fara fyrstu íslensku ungmennin til annarra landa EES-svæðisins til að kynnast menningu þeirra og tungu á vegum ERASMUS. Þegar hafa 48 nemendur fengið loforð um styrk til að sækja háskóla utan Íslands en skilyrði fyrir námsdvöl nemenda erlendis er að heimaskóli þeirra, Háskóli Íslands, viðurkenni námsdvölina sem hluta af námi þeirra við heimastofnunina.
    Eftir að samningur þessi öðlast gildi verður Ísland fullgildur þátttakandi í mun fleiri samstarfsáætlunum. Sem dæmi um slíkt má þar nefna Æsku í Evrópu sem hefur að markmiði að gefa ungu fólki, sem ekki stundar háskólanám, tækifæri til að dvelja um tíma í einhverju ríkja Evrópubandalagsins.
    Virðulegi forseti. Það er engu líkara þegar við hlustum á málflutning andstæðinga þessa samnings en einhver ólæknandi vanmetakennd liggi að baki andstöðu margra við samninginn. Grundvallarforsenda málflutnings ýmissa andstæðinga hans virðist vera sú að Íslendingar geti ekki verið samkeppnishæfir á við aðrar þjóðir; að íslenskt þjóðfélag geti ekki þrifist í samfélagi þjóðanna nema sem verndaður vinnustaður þar sem stjórnvöld skammta almenningi aðgang að heiminum sem fyrir utan er. Leifar af þessum hafta- og skömmtunarhugsunarhætti fyrri tíma einkenna í allt of ríkum mæli málflutning þeirra sem vara við þessum hagstæða samningi. Þetta er ekkert nýtt. Þetta er hundgamalt. Það væri e.t.v. ekki úr vegi að minnast þess að hugmyndir af þessu tagi má rekja úr annálum Íslandssögunnar langt aftur í tímann. Ég nefni hér eitt dæmi.
    Það var árið 1816, hinn 27. ágúst, að merkur klerkur, séra Þorvaldur Böðvarsson í Holti skrifaði bréf til hins fræga Íslandsvinar, Rasmusar Christians Rask og segir þar orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Mjög þykja oss ískyggilegar þær fréttir, sem sumir höndlunarmenn okkar hafa látið út berast í sumar, þ.e. að jöfur ætli að leyfa öllum þjóðum ótakmarkaða höndlun við Ísland, og hinir, sem fyrir eru, skuli eftir hendinni leggja sína höndlunarstaði í eyði. Hér eigi að verða einungis þrír kaupstaðir, Reykjavík, Grundarfjörður og Akureyri. Þá vildi ég vera burtu héðan. Einasta bótin er, að ég vona, að þetta sé hermt heldur skakkt og ekki nema á aðra hliðina. Mig langar ekki eftir meiri höndlunarfríheitum en við höfum notið bæði í sumar og í fyrra og hefi þá trú að ásigkomulag vort að svo stöddu leyfi þau ekki stærri.``
    Þeir sem lesið hafa málflutning Jóns Sigurðssonar forseta í Nýjum félagsritum um nauðsyn þess að Íslendingar ryfu fjötra einokunar af landinu og nytu kosta fríverslunar í milliríkjaviðskiptum eins og aðrar þjóðir hafa íhugað fyrir sér tvo ólíka skóla sögulega séð í hugsun og umfjöllun um íslensk málefni og samskipti Íslands um umheiminn. Ef við berum niður í Nýjum félagsritum, ritsmíðum Jóns Sigurðssonar forseta, þá er eins og hann hafi haft þessa tilvitnun í höfuðklerkinn í Holti í huga þegar hann setur eftirfarandi orð á blað því að þau eru eins og svar við þessu. Í Nýjum félagsritum segir Jón Sigurðsson orðrétt á þessa leið:
    ,,Það munu enn sumir óttast að útlendir menn muni setjast í atvinnuvegu landsmanna, þá sem ábatamestir eru, og bera Íslendinga sjálfa ofurliði, af því hinir séu ötulli og auðugri. En þessu er ekki að kvíða,`` segir Jón Sigurðsson forseti, ,,því fyrst er ekki svo mjög að óttast að aðsókn að landinu verði meiri en þarfir þess og verslunarmegin leyfa, og því næst er landið ekki svo vel rómað í öðrum löndum, að menn muni gjörast til að flytjast þangað í sveitum. Þess vegna er ekki að óttast að aðsókn til landsins verði óðari en svo sem svarar framförum þess, og þá er landsmönnum innan handar að hafa jafnan yfirráðin, en þökk mætti þeim vera á að njóta styrks annarra og læra af þeim það sem þeim má til góðs verða og landinu, og á þennan hátt er slíkt metið í öðrum löndum. Þegar borin verður umhyggja fyrir að Íslendingar nái menntun og kunnáttu í hverri stétt sem þeim er ætluð, eins og fyrr hefur verið drepið á, þá er ekki að kvíða að þeir muni ekki geta átt þátt í sérhverju fyrirtæki, og komist jafnfætis ennum útlendum, því enginn hefur enn fríað þeim vits og gáfna, þó þeir hafi verið grunaðir um græsku þá, sem réttu nafni heitir gúnguskapur, og afskiptaleysi um hag sjálfra sín og landsins.``
    Þetta eru orð Jóns Sigurðssonar forseta og að sjálfsögðu hef ég engu við þau að bæta.
    Virðulegi forseti. Það hefur verið reynt æ ofan í æ í þessu máli eins og sambærilegum málum sem upp hafa komið í sögu lýðveldisins að magna upp ótta við samskipti af þessum toga. Sérstaklega hafa menn reynt að magna upp ótta við samræmdar samkeppnisreglur og eftirlit innan EFTA með því að eftir þeim sé farið. Satt að segja skýtur hér skökku við. Það var meginkeppikefli EFTA-ríkjanna sjálfra að öðlast þessar reglur, fá þessar reglur settar. Við töldum það eitt helsta hagsmunamál okkar í þessum samningum að fá viðurkenningu fyrir því að eftir þessum reglum skyldi farið, að fá eftirlit með þeim, að fá sameiginlegan úrskurðaraðila vegna þess að það var augljóslega okkar hagsmunamál. Þessar samkeppnisreglur eru settar til þess að tryggja hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þær eru settar til þess að koma í veg fyrir að auðhringir geti misnotað sér markaðsráðandi aðstöðu eða hin stærri ríki geti beitt afli hnefaréttarins í þessum samskiptum. Öflugt eftirlit með því að samkeppnisreglur séu virkar og virtar er engri þjóð í þessum samningum eins mikilvægt og okkur sjálfum, engri þjóð. Það kemur satt að segja á óvart þegar ólíklegustu menn gera þetta að meginádeiluefninu og þegar ólíklegustu menn eru farnir að bera slíkan kvíðboga fyrir hag auðhringa í þessu viðskiptasamstarfi.
    Lítum á hvaða augum íslenskar stofnanir, ráðuneyti, rannsóknastofnanir, aðildarfélög atvinnulífs, sérfræðingar, hafa litið samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og þann ávinning sem honum fylgir, þau tækifæri sem hann skapar. Þar verður mér fyrst fyrir að vitna til skýrslu fyrrv. fjmrh.: Evrópa 1992 og ríkisfjármálin, en þar segir:
    ,,Ef íslenskt efnahagslíf lagar sig ekki að breyttum aðstæðum í Evrópu, verður hætta á stöðnun í efnahagslífinu, auknum viðskiptahalla, verðbólgu og atvinnuleysi. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið skapast ný tækifæri til vaxtar í atvinnulífinu sem hefur þurft að þola samdrátt, stöðnun og vaxandi atvinnuleysi. Þjóðarbúið sjálft, ríkissjóður, fyrirtækin, launþegar og neytendur hagnast á þessum samningi ýmist með beinum eða óbeinum hætti,`` segir í þessari skýrslu fyrrv. fjmrh., formanns Alþb., Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Alþýðusamband Íslands bendir réttilega á það í greinargerð sinni um EES-samninginn í sumar að innihald hans ætti að gefa íslenskum fyrirtækjum betri samkeppnisskilyrði. En eigi samningurinn að fela í sér aukinn hagvöxt verði bæði stjórnvöld og atvinnulíf að vera vel á verði og hafa frumkvæði til að nýta sér þá möguleika sem bjóðast.
    Það minnir mig á að ríkisstjórnin hefur nýlega samþykkt að fjórðungi þess fjár, sem aflað verður við sölu á hlut ríkisins í ríkisfyrirtækjum, verði varið til rannsókna og nýsköpunar í íslensku atvinnulífi. Sú aðstoð er auðvitað einungis viðbót við þau tækifæri sem skapast með þátttöku í rannsóknastarfsemi og þróunarverkefnum innan ramma samstarfssamninganna sem ég nefndi áður.
    Svo aftur sé vitnað til Alþýðusambandsins þá er það rétt að EES-samningurinn getur skapað íslenskum fyrirtækjum nauðsynlegar forsendur fyrir nýjum fjárfestingum og vöruþróun sem gætu skapað aukna vinnslu hér á landi og aukinn virðisauka og fjölgað arðbærum störfum.
    Í kynningarriti Vinnuveitendasambands Íslands um Evrópska efnahagssvæðið segir, með leyfi forseta:
    ,,Ef samningurinn verður samþykktur gefst Íslendingum kostur á að taka þátt í nýju tímabili aukinnar hagsældar í Evrópu. Neytendur hér á landi sem annars staðar innan efnahagssvæðisins munu njóta lægra vöruverðs, launþegar eiga möguleika á fleiri og tryggari atvinnutækifærum og fyrirtæki njóta betri og jafnari samkeppnisskilyrða.``
    Félag íslenskra iðnrekenda er ekki í vafa um að aukið frjálsræði og samkeppni muni leiða til hagsbóta fyrir iðnaðinn enda fara 3 / 4 hlutar útflutningsiðnaðar til sölu í EB-ríkjum. Virkt eftirlit með því að farið verði eftir leikreglum Evrópska efnahagssvæðisins er smærri fyrirtækjum sérstaklega mikilvægt að þeirra mati og gefur þeim tækifæri til að verjast óheiðarlegri samkeppni stærri fyrirtækja.
    Í skýrslu Þjóðahagsstofnunar, ,,Íslenskur þjóðarbúskapur og Evrópska efnahagssvæðið,`` segir að margar iðngreinar hérlendis standi allvel þar sem viðskiptahindranir hér séu yfirleitt minni en í Evrópubandalaginu og íslensku greinarnar opnari fyrir milliríkjaviðskiptum en sambærilegar greinar í EB. Aðlögun að reglum EB ætti að stuðla að minni viðskiptahindrunum en nú eru til staðar, auk þess sem reglur um ríkisafskipti verða færðar í sambærilegt form og innan EB.
    EES-samningurinn felur í sér gagnkvæm réttindi og skuldbindingar um opnun þjóðfélagsins og aukna samkeppni á öllum sviðum í stað einokunar, fákeppni og verndarstefnu sem of lengi hefur bitnað á neytendum og launþegum í formi hærra vöruverðs og þjónustu en ella þyrfti að vera.
    Frjálsir flutningar fjármagns auka samkeppni lánastofnana. Vextir munu ráðast á alþjóðlegum mörkuðum og þar af leiðandi verða þeir í samræmi við vexti í öðrum EES-löndum. Aukið frelsi og samkeppni leiða til hagræðingar og lægra vöruverðs. Hagræðing á Íslandi og betri útflutningsmöguleikar verða til þess að landsframleiðslan mun vaxa og verðlag lækka. Meiri umsvif og aukin eftirspurn leiðir til aukins hagvaxtar svo sem m.a. kemur fram í auknum tekjum ríkissjóðs.
    Samkeppni verður ekki aðeins milli fyrirtækja á opnum alþjóðlegum mörkuðum. Hún verður einnig milli ríkja og stjórnkerfa sem þurfa að skapa eigin þegnum sambærilegt starfsumhverfi og lífskjör. Þetta mun leiða til samræmingar á skattlagningu ríkis og sveitarfélaga til einföldunar stjórnkerfis, m.a. með það

að markmiði að lækka kostnað og stytta boðleiðir, t.d. með fækkun og stækkun sveitarfélaga, lífeyrissjóða, samruna banka, lánastofnana og fyrirtækja. Þetta er allt saman hvati í þessa átt og í þessa átt ber okkur að stefna.
    Evrópska efnahagssvæðið skapar möguleika á hagkvæmari verkaskiptingu í efnahagslífinu en nú er, bæði á milli opinberra aðila og einkaaðila. Stefnan í Evrópu, þar með talið á Íslandi, er að sjálfsögðu að halda stöðugleika í gengismálum. Hlutverk hagstjórnar verður enn frekar en nú að skapa atvinnulífinu ramma í peningamálum, gengismálum og ríkisfjármálum og tryggja eðlileg rekstrarskilyrði sem allir þurfa að laga sig að.
    Ég hef áður, virðulegi forseti, vikið að hlut sjávarútvegsins í þessum samningum. Síðustu 20 árin hefur mikilvægi markaðar Evrópubandalagsins og reyndar Evrópska efnahagssvæðisins fyrir sjávarafurðir farið vaxandi, ekki síst eftir að helstu viðskiptalönd okkar eins og Bretland, Danmörk, Portúgal og Spánn gengu í bandalagið.
    Nú er svo komið að 70%--80% af heildarútflutningi sjávarafurða fer á Evrópska efnahagssvæðið. Á síðasta ári voru greiddir um 2 milljarðar króna í tolla af innflutningi íslenskra sjávarafurða þangað. Hinar nýju leiðir sem opnast fyrir íslenskan sjávarútveg á mörkuðum Evrópska efnahagssvæðisins, þegar tollarnir falla niður, eru auðvitað stóra tækifærið fyrir sjávarútveginn og fyrir fiskvinnsluna.
    Mikilvægi þess fyrir Íslendinga er óumdeilt. Við höfum hins vegar sjaldan litið á þau viðskipti út frá sjónarmiði markaðarins, viðskiptaaðilans. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hefur árlegur fiskafli Evrópubandalagsins til manneldis verið um 4 millj. tonna á undanförnum árum eða sex til sjö sinnum meiri árlegur afli en við berum á land. Þessu til viðbótar flytur Evrópubandalagið inn annað eins magn á hverju ári, tæpar 4 millj. tonna. Við þetta má svo bæta að þrátt fyrir það að í Evrópubandalaginu séu um 2 millj. manna taldar hafa atvinnu af sjávarútvegi og þjónustu við hann mælist sjávarútvegurinn varla í þeirra hagskýrslum. Hann telst aðeins skila um 0,14% til landsframleiðslu Evrópubandalagsins. Samsvarandi tala á Íslandi er yfir 16% en hlutur í vöruútflutningi er vel yfir 70%.
    Útflutningur sjávarafurða okkar til Evrópubandalagsins er um 8% af fiskinnflutningi þess og um 4% af samanlögðum veiðum þeirra sjálfra og innflutningi. Ef við Íslendingar hefðum fest utan tollmúra Evrópubandalagsins með okkar sjávarafurðir var fullkomin hætta á því að við hefðum líka fest í því fari að vera hráefnisútflutningsnýlenda þessara miklu markaða. Afleiðingar þess þarf ég ekki að orðlengja um. Það hefði auðvitað fyrst og fremst bitnað á landsbyggðinni á Íslandi. Það hefði bitnað á fólkinu í þeim byggðarlögum þar sem sjávarútvegurinn er uppistaða atvinnulífsins. Það hefði þýtt að atvinnan hefði flust í vaxandi mæli úr landinu.
    Þetta þýðir að þessi viðskiptasamningur um Evrópska efnahagssvæðið er sennilega ekki neinum í okkar þjóðfélagi jafnmikilvægur og sjávarútveginum og því fólki sem þar starfar, sjómönnum og fiskvinnslufólki vegna þess að hann léttir af sjávarútveginum byrðum, hann brýtur niður tollmúrana sem hafa haldið honum í skorðum, hann skapar honum tækifæri fyrir vöruþróun og nýjungar, hann skapar honum stórkostleg tækifæri til nýrrar markaðssóknar, hann skapar ný störf, hann eykur verðmæti sem eftir verða í höndum íslenskra handa. Enginn einn þjóðfélagshópur mun þegar fram í sækir eiga jafnmikið undir þessum samningi og fólkið sem starfar í sjávarútveginum og fólkið sem býr á landsbyggðinni.
    Menn skyldu því ætla að hagsmunasamtök í sjávarútvegi lýstu sérstakri ánægju sinni með niðurstöður þessara samninga. Þau gerðu það að vísu en drógu það til baka og sögðust ætla að bíða með það þar til endanleg niðurstaða hefði fengist í tvíhliða samningum við Evrópubandalagið um sjávarútvegsmál. Nú hafa þessir sömu talsmenn sjávarútvegsins lýst yfir stuðningi við samninginn en segjast þó gera það með fyrirvara þar til tvíhliða samningurinn liggur fyrir.
    Það er að sjálfsögðu gott til þess að vita að þar fara varkárir menn. Á þessu sviði samninganna mæddi mest á okkur Íslendingum af öllum EFTA-þjóðum sem í samningagerðinni stóðu. Við höfðum forustu lengst af um þessa samningagerð og þar var harðast að okkur sótt. Við fengum fram nær fullkomið tollfrelsi fyrir íslenskar sjávarafurðir, við fengum fram algera undanþágu frá frelsi til fjárfestinga í sjávarútvegi, við fengum fram undanþágu frá staðfesturétti í sjávarútvegi, við fengum fram viðurkenningu á íslenskri heilbrigðisvottun fyrir sjávarafurðir. Við fengum þetta fram án þess að gengið væri að kröfum Evrópubandalagsins um einhliða veiðiheimildir í staðinn fyrir tollaívilnanir. En talsmenn sjávarútvegsins eru kröfuharðir menn, vonandi til sjálfra sín eins og til annarra og bíða átekta.
    Að því er varðar samninginn um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum þá var gengið frá nótuskiptum milli Evrópubandalagsins og Íslands um þau mál 2. maí. Skýrsla um þann samning var lögð fyrir á 115. löggjafarþingi. Sá samningur kveður á um helstu atriði bæði í fyrirhuguðum rammasamningi EB og Íslands um samstarf í sjávarútvegi og þeim árlega framkvæmdasamningi sem gengið verður frá um skipti á veiðiheimildum. Samningurinn frá 2. maí er ákvarðandi um öll þau atriði sem þar eru tilgreind.
    Helstu atriði samningsins eru að Evrópubandalagið skuli fá veiðiheimildir á tilgreindum svæðum í efnahagslögsögu Íslands, allt að 3.000 tonnum af karfaígildum. Samkvæmt reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins nr. 367/1991 er hér um að ræða jafnvirði 1.500 tonna af þorski. Íslendingar fá á móti heimild til þess að veiða 30.000 tonn af loðnukvóta Grænlendinga sem EB hefur keypt en það er jafngildi 1.800 tonna af þorski samkvæmt sömu reglugerð. Meðal þeirra skilmála sem settir hafa verið og samkomulag hefur náðst um, með fyrirvara um heildarlausn, er að fjöldi veiðileyfa verði takmarkaður, að engin verksmiðjuskip verði

leyfð, koma og brottför úr fiskveiðilögsögu skuli tilkynnt, að allar íslenskar reglur um fiskvernd og veiðar verði virtar og að íslenskur eftirlitsmaður verði um borð á kostnað útgerðar.
    Þau atriði sem eftir standa og bíða framhaldsfunda samninganefndanna varða einkum hvaða fyrirkomulag skuli haft ef veiðar á öðrum hvorum stofninum bregðast. Að því er varðar tímamörk þarf þessi samningur að liggja fyrir fyrir áramót, ef heildarsamningarnir eiga þá að taka gildi, en ég fæ ekki séð að það ætti að þurfa að tefja afgreiðslu á EES-samningnum hér í þinginu.
    Virðulegi forseti. Örfá orð um landbúnaðinn og Evrópska efnahagssvæðið. Það er gamall íslenskur málsháttur að enginn sé bóndi nema hann kunni að barma sér. Af málflutningi einstakra forvígismanna íslensks landbúnaðar hefði mátt ráða að þessi samningur þrengdi mjög kosti íslenskra bænda. Hið rétta er að landbúnaðurinn fellur nær allur utan samningssviðsins og áhrif samningsins á íslenskan landbúnað eru því hverfandi. Það hefði eflaust gert samningsstöðu Íslands auðveldari á ýmsum sviðum, ekki síst til þess að tryggja okkur markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir, ef hægt hefði verið að bjóða EB- og EFTA-ríkjunum greiðari aðgang að íslenskum markaði fyrir unnar landbúnaðarafurðir. Það var hins vegar ekki reynt í þessum samningum enda bíður sú skipulagsbreyting niðurstöðu GATT-samninganna sem vonir standa til í heimsbyggðinni að takist kannski á næsta ári.
    Hitt er rétt að önnur EFTA-ríki gengu mun lengra í frjálsræðisátt í landbúnaðarviðskiptum en við gerðum. Stefnt var að samræmingu heilbrigðisreglna á öllu EES-svæðinu fyrir dýr og kjöt. Hin EFTA-ríkin samræmdu reglur sínar því sem tíðkast innan EB. Ísland var eina EFTA-ríkið með algera undanþágu frá öllum þessum reglum. Öll önnur EFTA-ríki gengu frá samningum við EB um greiðari viðskipti með unnar landbúnaðarafurðir. Ísland stóð eitt fyrir utan þá samningsgerð. Gengið var frá samræmdum lista yfir iðnaðarvörur úr landbúnaðarhráefni sem ekki mættu sæta innflutningsbanni. Ísland er eina landið sem heldur innflutningsbanni á varningi af þeim lista.
    Loks var samið um tollaívilnanir á suðrænum ávöxtum, grænmeti og blómum en þar var aðeins aflétt innflutningshömlum yfir hávetrartímann á örfáum grænmetis- og blómategundum. Hömlurnar falla aðeins niður á þeim tíma sem tíðkast hefur að flytja inn þessar vörur undanfarin ár. Þannig var ýtrasta tillit tekið til verndarstefnusjónarmiða forustumanna íslenskra bænda. En af viðbrögðum þeirra má hins vegar ráða aftur hið fornkveðna að sjaldan launar kálfur ofeldið.
    Að því er varðar önnur markaðssvæði þá er stundum sagt að við séum að vanrækja aðra möguleika okkar með því að ganga til nánar samstarfs við Evrópuþjóðir, jafnvel að við séum að loka á aðra markaði. Því fer víðsfjarri. Samhliða EES-samningunum hefur verið unnið að fríverslunarsamningum við Mið- og Austur-Evrópuríkin, Tyrkland og Ísrael. GATT-viðræðurnar halda áfram og innan ramma þeirra höfum við staðið í tvíhliða viðræðum við Japan og Kóreu, ríki í Suðaustur-Asíu, Brasilíu og Bandaríkin. Verið er að kanna möguleika á samningum innan þess ramma við Argentínu og fleiri Suður-Ameríkuríki.
    Það er ekkert ákvæði í þessum samningum sem bindur hendur okkar um viðskiptasamninga við önnur ríki. Ekki neitt. Við erum fullkomlega frjálsir að því að beina viðskiptum okkar þótt það ráðist að sjálfsögðu af markaðskjörum.
    Við höfum leitað hófanna hjá Bandaríkjunum um víðtækara fríverslunarsamstarf. Svar við því er að þau mál munu ekki skýrast fyrr en GATT-viðræðunum, Úrúgvæ-lotunni, er lokið. EES-samningurinn skerðir á engan hátt svigrúm okkar til þess að efla samstarf okkar við aðrar þjóðir, eins og ég sagði áðan, en þess er hins vegar ekki að vænta að vægi annarra heimshluta í viðskiptum okkar verði viðmóta mikið og við Evrópu, ekki af pólitískum ástæðum eða stjórnvaldsástæðum eða samningatæknilegum ástæðum. Það eru einfaldlega þeir markaðir sem næst liggja og best bjóða þar sem eftirspurn, studd kaupmætti, er fjölbreyttust. Það hefur því verið út frá hagsmunamati útflytjenda sjálfra sem vægi þessara markaða í okkar útflutningsmynstri hefur vaxið. Það hlýtur að vera forgangsverkefni að tryggja stöðu Íslands á þeim markaði sem tekur við 80% af útflutningsafurðum landsins í verðmætum talið. Að sjálfsögðu munum við halda áfram að greiða fyrir viðskiptum á öðrum mörkuðum og við aðrar þjóðir og ekkert kemur í veg fyrir það.
    Ég hef hér, virðulegi forseti, farið yfir og lýst hverra kosta við höfum átt völ. Okkar nánasta umhverfi í pólitísku og viðskiptalegu tilliti hefur breyst mjög ört á undanförnum árum. Viðbrögð allra Evrópuþjóða hafa verið að tryggja sína hagsmuni, að ganga til nánara samstarfs og mjög margar þeirra stefna að því sem lokatakmarki að ganga í Evrópubandalagið. Á þessari stundu bendir ekkert til þess að Evrópubandalagið sé reiðubúið til þess að gera undantekningar frá grundvallarreglum sínum um sameiginlega sjávarútvegsstefnu en án slíkra undantekninga kemur aðild Íslands að því bandalagi ekki til greina.
    Í þessari stöðu verðum við að meta það kalt og rólega hvernig okkar hagsmunum verður best borgið án allrar óskhyggju eða pólitískra fyrirframhleypidóma. Við höfum nú í hendi samning sem tryggir íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum full réttindi á okkar lífsnauðsynlega Evrópumarkaði. Samningar þessir náðust fram, ekki síst fyrir tilstyrk félaga okkar í EFTA sem innan tíðar geta verið orðnir aðilar að Evrópubandalaginu. Með þennan ávinning staðfestan höfum við traustan grunn til þess að standa á í viðskiptum okkar við Evrópubandalagið í framtíðinni. Þessi samningur blífur. Í honum eru uppsagnarákvæði, það er rétt, en hann blífur, hann getur verið varanleg skipan í viðskiptasamskiptum okkar við stækkað Evrópubandalag. Fyrir liggja yfirlýsingar forráðamanna Evrópubandalagsins um það að samningsniðurstaðan sem slík standi þótt hugsanlega kunni menn einhvern tímann síðar í framtíðinni að breyta þeim ákvæðum samningsins sem lúta að yfirstjórn.

    Andstæðingar þessa samnings kjósa hins vegar að varpa öllu því sem áunnist hefur fyrir róða, setja jafnvel fram ævintýralegar og glæfralegar kenningar um að nú eigum við bara að láta þetta eiga sig og byrja viðræður upp á nýtt í tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið.
    Mér finnst það bera vott um mikið alvöruleysi að tala svo. Ekki síst í ljósi þess hvernig umhorfs er í okkar þjóðarbúskap. Ég held að fyrir þeim mönnum, sem eru lítt fáanlegir til þess að ræða af alvöru og kosti þessa samnings og galla en vilja beina talinu að allt öðrum og óskyldum hlutum, vaki eitthvað allt annað, þeir hafi einhver pólitísk markmið. En alla vega er það svo að á þeim hvílir sú kvöð ef þeir mæla með því að þessum samningi verði hafnað að bjóða upp á aðra og raunhæfari kosti en óskirnar einar eða drauminn.
    Virðulegi forseti. Mál af þessum toga hafa löngum fyrr skipt þjóðinni í andstæðar fylkingar nánast burt séð frá raunsæju, hlutlægu mati á samningsákvæðum sem slíkum. Hver kannast ekki við setningar eins og þessar:
    Tilvitnun eitt:
    ,,Við skulum ekki gleyma því, að Ísland er og verður útkjálki í Evrópu. Ef Ísland rennur inn í stóra efnahagsheild mun að því stefna að landið verði fyrst og fremst útibú fyrir erlenda auðhringi og veiðistöð fyrir samevrópskan markað. Aðildin að EES er einmitt spor í þessa átt.``
    Tilvitnun tvö:
    ,,Við alþýðubandalagsmenn lítum svo á að sjálfstæðið sé forsenda, sem ekki megi fórna. Við erum ekki einir um það sjónarmið, sammála okkur eru menn úr öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi. Hér er um slíkt stórmál að ræða að um það má ekki taka ákvörðun, án samþykkis þjóðarinnar.``
    Tilvitnun þrjú:
    ,,Augljóst er að aðild að EES væri aðeins áfangi stjórnarflokkanna inn í enn þá stærri heild. Ýmis EES-ríki knýja nú mjög fast á um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, og er það síst ofmælt að EES sé eins og sakir standa anddyri og biðsalur Efnahagsbandalagsins. Ef við göngum í EES eru því allar líkur á að aðild að Efnahagsbandalaginu komist óhjákvæmilega á dagskrá á næstu árum.``
    Tilvitnun fjögur:
    ,,Er það bakdyraleið íslensks auðvalds og væntanlegra leppa erlendra auðhringa inn í Efnahagsbandalag Evrópu sem verið er að laumast í með inngöngunni í EES?``
    Þetta eru fjórar tilvitnanir teknar nánast eins og kylfa ræður kasti úr Alþingistíðindum. (Gripið fram í.) Allir þessir orðaleppar hljóma nefnilega gamalkunnugir. Það er ekkert nýtt í þessu. Þeir eru ekki nýir af nálinni. Það eina sem ég hef gert í þessum tilvitnunum, það eina, er það að ég tók út orðið EFTA og setti orðið EES í staðinn. Þetta eru gömlu ræðurnar sem alþýðubandalagsmenn fluttu gegn inngöngu okkar í EFTA árið 1969 og árið 1970. Og það eina sem þurfti að gera var að setja EES í staðinn og þú heyrir allar sömu ræðurnar aftur og við eigum eftir að heyra þær aftur ,,ad nauseam``, eins og það heitir, í síbylju núna á næstu dögum. ( GÁ: Hvað sagði Hannibal?) ( ÓRG: Hvernig væri að lesa fyrir okkur úr Hannibal?) Hannibal og þingflokkur hans, hv. þm., Samtök frjálslyndra og vinstri manna, greiddi atkvæði með aðild Íslands að EFTA. Það er merkilegt, virðulegi forseti, að þessar aldarfjórðungsgömlu tilvitnanir í málflutning Magnúsar heitins Kjartanssonar, Þjóðviljaritstjóra og fyrrum heilbrrh., í málflutning hv. þm. Svavars Gestssonar, fyrrum Þjóðviljaritstjóra og fyrrum heilbrrh. og menntmrh., og málflutning Ragnars Arnalds, fyrrum formanns Alþb. og fyrrum hæstv. ráðherra --- þetta voru tilvitnanir úr ræðunum þeirra --- þetta voru ræðurnar sem þeir fluttu 1969--70 um það að nú væri verið að selja Ísland, nú væri verið að afsala fullveldinu, nú væri verið að svíkjast aftan að þjóðinni, farga sjálfstæðinu, glata fullveldinu. Og allt væri þetta samsæri, hið stóra samsæri auðvaldsins, um það að ganga inn í Evrópubandalagið, þá kallað Efnahagsbandalagið. Þetta voru fullyrðingarnar þeirra. Það þarf ekkert að gera út af fyrir sig annað en að spyrja þessa háttvirtu menn: Var þjóðin svikin með þátttöku Íslands í EFTA árið 1970? Er Ísland ekki enn þá fullvalda ríki? Voru hv. þm. ekki ráðherrar fullvalda ríkis eftir að þeir sögðu þessi orð? Gerðu þeir eitthvað til þess að koma okkur út úr EFTA þegar þeir komu til valda? Meintu þeir eitthvað með þessum landráðabrigslum sínum? Nei, ekki neitt. Þetta eru dauð og ómerk orð. Þau eru ekki nothæf, ekki brúkleg lengur. Eða hversu oft er hægt að selja sama landið, virðulegur forseti?
    Ég held, virðulegi forseti, að þessum málflutningi verði vart betur svarað en með tilvitnun í ágæta samantekt sem unnin var fyrir utanrrn. og ætluð til kynningar á þessu mikla máli. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta.
    ,,Evrópska efnahagssvæðið er lausn sem tvímælalaust fellur að hagsmunum Íslendinga. Með því uppskera Íslendingar verulegan hluta þess ábata, sem hlýst af aukinni samvinnu Evrópuþjóða, án þess að tapa yfirráðum þjóðarinnar yfir auðlindum, sem eru grundvöllur efnahagslífs þjóðarinnar. Með því geta Íslendingar beitt því valdi og þeim áhrifum sem fullveldinu fylgja, án þess að framselja mikilvæga þætti þess til fjölþjóðlegra stofnana. Íslendingar ætla sér ekki að vera hornkerlingar í samfélagi Evrópuþjóða, heldur skipa þar virðingarsess.``
    Hver er höfundur þessara orða? Hann heitir Einar Karl Haraldsson og gegnir nú starfi framkvæmdastjóra Alþb.
    Þeir eru fáir orðnir eftir sem efast um að frelsi í viðskiptum og atvinnuháttum er þjóðarbúskap allra þjóða til góðs. Megininntak EES-samningsins er fjórfrelsið svonefnda sem tryggja á frelsi í viðskiptum með

vörur og þjónustu, frjálsa fjármagnsflutninga og frjálsa för launafólks um svæðið. Þrátt fyrir þessa grundvallarafstöðu, jákvæða afstöðu til þessara framtíðarviðskiptahátta var talið rétt og um það samstaða í fyrrv. ríkisstjórn að við hlytum af okkar hálfu að fara að með gát og að við kysum að takmarka þetta frelsi með fyrirvörum. Til eru þeir sem mæla samningsárangur í fjölda fyrirvara og þeim til hugarhægðar vil ég fara yfir þá fyrirvara sem gerðir voru og hver niðurstaðan er.
    Meginfyrirvarar Íslands við meginreglum fjórfrelsisins í samningaviðræðunum voru fáir en stórir og komu ágætlega fram í ræðu hæstv. fyrrv. forsrh. sem hann flutti áður en hann samþykkti fyrir hönd þáv. ríkisstjórnar Óslóaryfirlýsinguna sem er grundvöllur þessa máls. Þessir fyrirvarar snerust um fjárfestingar í sjávarútvegi, um eignarhald á orkulindum og fasteignum, um hættuna á röskun á vinnumarkaði og um innflutning landbúnaðarvara. Fyrirvararnir voru fleiri, það er gamalkunnugt mál úr eldri skýrslum, en þessir eru þeir sem máli skipta. Þess vegna vil ég víkja að því hvernig þessum fyrirvörum er nú fyrirkomið.
    Um fyrsta fyrirvarann, um takmörkun á fjárfestingum erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi, þarf ég ekki að vera margmáll. Hann náðist fullkomlega. Núgildandi lög um fjárfestingar erlendra aðila mega halda gildi sínu og það verður því unnt að útiloka fjárfestingar útlendinga í útgerð og frumvinnslu ótímabundið og jafnvel að gera erlendum fyrirtækjum sem eiga einhverja óbeina aðild skylt að losa sig við hlutabréf.
    Hér verða menn að hafa það á hreinu að fyrirvarinn í samningnum er algjörlega skýr og afdráttarlaus og varanlegur. En kjarni málsins er sá að við getum framkvæmt þetta eins og við sjálfir kjósum með löggjöf frá Alþingi. Auðvitað getur það verið álitamál hversu langt við viljum ganga og hvernig við viljum skilyrða hina óbeinu eignaraðild, leyfa hana að einhverju leyti eða hafna henni, það er bara okkar mál, fyrirvarinn náðist.
    Næsti fyrirvari var um skorður við eignarhaldi erlendra aðila í orkulindum. Það mál stendur þannig að EES-samningurinn sem slíkur gerir enga kröfu um að einstaklingum eða fyrirtækjum, hvort heldur er innlendum eða erlendum, sé heimilt að eiga orkulindirnar eða orkuverin. Það fyrirkomulag sem við höfum haft í þessu máli, eignarhald í stórum dráttum ríkisins eða sveitarfélaga, brýtur ekki í bága við þennan samning. Ef við viljum halda því kerfi áfram getum við gert það án þess að gerast brotlegir í þessum samningi. Hins vegar gerir samningurinn þá almennu kröfu að innlendum og erlendum aðilum sé ekki mismunað. Ef ríkisvaldinu er tryggður einkaréttur til þess að eiga eða nýta orkulindir þá eru útlend fyrirtæki þar með að sjálfsögðu útilokuð. Þess vegna þurfti ekki að halda til streitu hinum upphaflega fyrirvara í þessu máli vegna þess að samningurinn er ekki þess eðlis að við þurfum að hverfa frá núverandi skipan.
    Ef við hins vegar viljum taka af allan vafa sem er í núgildandi löggjöf okkar sjálfra um eignarhald á orkulindum, fallvötnum eða almenningum er okkur í sjálfsvald sett að gera það. Og í þeim skrám um fylgifrumvörp EES-samningsins sem lagðir voru fram seinast 18. maí þegar stjórn og stjórnarandstaða gerðu með sér samkomulag um málsmeðferðina voru boðuð frumvörp af hálfu iðnrh. um eignarhald á jarðhita og fallvötnum. Ef menn vilja taka af öll tvímæli um það með varanlegum hætti að orkulindirnar séu þjóðareign þá samrýmist það fyllilega þessum samningi. Það er pólitískt álitamál sem við útkljáum hér alveg án tillits til þess hvernig þessi samningur er. Það skýrir að við þurftum ekki að halda til streitu neinum fyrirvara að því er þetta varðar.
    Þriðji fyrirvarinn varðaði fyrst og fremst spurninguna um kaup erlendra aðila á bújörðum. Í XII. viðauka við EES-samninginn er undanþága fyrir Ísland til 1. jan. 1996, þ.e. tímabundin aðlögun frá reglum samningsins um erlendar fjárfestingar í fasteignum. Samningurinn heimilar kaup EES-borgara á fasteignum í atvinnuskyni en ekki fjárfestingarskyni eingöngu. Fram að þeim tíma, fram til 1996, er unnt að ákveða ýmiss konar hindranir í lögum eða stjórnsýsluframkvæmd við fasteignakaupum, umfram það sem þegar gildir, og þær eru nú ærnar. T.d. er unnt að binda eignarhald á fasteignum því skilyrði að menn skuli búsettir á því svæði þar sem fasteignin er, eins og fram kemur í álitsgerð sem var samin um þetta mál sérstaklega að beiðni dóms- og kirkjumrh. og landbrh. frá því í júní 1992. Slíkar hindranir mættu ekki fela í sér mismunun á grundvelli þjóðernis formlega séð en gætu gert það í reynd, eins og t.d. með búsetuskilyrðinu, eins og núgildandi reglur í nokkrum EB-löndum gera.
    Í október 1990, í tíð þáv. ríkisstjórnar, sendi ég ríkisstjórninni greinargerð um stöðu EES-viðræðnanna þar sem fram kom að íslensk löggöf setur Íslendingum þegar svo þröngar skorður varðandi fjárfestingar í bújörðum, samanber t.d. jarðalög, að möguleikar útlendinga til fjárfestinga á þessu sviði hlytu að teljast takmarkaðir. Undanþága frá reglum um erlendar fjárfestingar ætti því að vera óþörf sem slík en ég hvatti til þess að sett yrði af stað vinna við að skoða vandlega alla þá lagasetningu sem hér kemur til álita, skoða þá fyrirvara, þau skilyrði, þær takmarkanir sem í gildi eru og hvort ástæða þætti til að herða á þeim.     Þáv. hæstv. landbrh. hefur sjálfur lýst því yfir hér á þingi að hann hafi verið ósammála þessu og ekki unnið að því. Núv. hæstv. landbrh. hefur sérfræðinga að störfum við að skoða þetta mál. En ég vek á því athygli að hér eru tímamörkin rýmri en ella vegna þess að það er tímabundin undanþága til 1996. Þetta mál er því í höndum landbrh. Af hálfu utanrrn. hefur vissulega verið bent á ýmsa möguleika, bæði að því er varðar nýtingarskilyrði og búsetuskilyrði, að því er varðar spurningar um að herða forkaupsréttarákvæði, bæði að því er varðar sveitarfélög og ríki. Einnig hefur verið minnt á að lög um náttúruvernd veita stjórnvöldum víðtækar heimildir til þess að friðlýsa landsvæði ef þörf krefur og nýleg lög um umhverfisvernd og fleiri lög taka til þessa.

    Sem dæmi um lög sem takmarka fasteignarréttindi má nefna m.a. ábúðarlög, orkulög, skipulagslög, námulög, lög um fuglaveiðar og fuglafriðun, lax- og silungsveiðilög. Einnig má nefna skipulagslög sem kveða á um forkaupsréttarákvæðin. Nánar er fjallað um þessar takmarkanir allar í áðurnefndri álitsgerð en ég vil einnig vekja athygli hv. þm. á því hvernig t.d. Norðmenn hafa komið þessum málum fyrir í löggjöf hjá sér þar sem gerð er mjög rækilega grein fyrir í greinargerð með staðfestingarfrumvarpinu í norska Stórþinginu og vísa þingmönnum á að kynna sér það.
    Varðandi þann ótta sumra að erlendir aðilar kaupi hér jarðir sem laxveiðiréttindi fylgja og útiloki síðan aðgang Íslendinga að laxveiðinni, þá tel ég þá hættu ekki vera meiri við gildistöku EES-samningsins en nú er. Útlendingum er frjálst nú þegar að kaupa öll laxveiðileyfi sem á annað borð eru til sölu, ár frá ári eða fram í tímann. Það eru ekki margir dagar frá því það heyrðist í fjölmiðlum hér að verðlagið á þessum gæðum væri orðið svo hátt að útlendingar, jafnvel vellríkir, teldu sig ekki lengur hafa efni á því, ekki vera samkeppnishæfa um að stunda þetta mjög svo eftirsóknarverða útvistarsport vegna þess að það væri orðið svo dýrt. EES-samningurinn breytir engu í þessu tilfelli, ekki nokkrum sköpuðum hlut.
    Að lokum má minna á öryggisákvæðið, 112. gr. samningsins, í þessu sambandi. Hún heimilar Íslandi að grípa einhliða til ráðstafana ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í tengslum við framkvæmd samningsins. Ísland gaf út sérstaka yfirlýsingu af því tilefni sem er birt og var ekki mótmælt af hálfu EB, þar sem segir að vegna einhæfs atvinnulífs þjóðarinnar og fámennis geti Ísland gripið til öryggisráðstafana ef framkvæmd samningsins leiðir til alvarlegrar röskunar jafnvægis á fasteignamarkaðnum.
    Þetta ákvæði er svo rúmt, það tekur ekki bara til fasteigna, það tekur til alls samningsins, við höfum margrætt það hér hvað síðan fylgir, en það er enginn vafi á því að þetta öryggisákvæði má nota með einhliða ákvörðunum. Síðan er að taka afleiðingunum sem er þá spurningin, ef til þessa örþrifaráðs er talið nauðsynlegt að grípa, um gagnráðstafanir sem verða að vera hlutfallslega í sama vægi og beiting öryggisráðstafana hjá viðkomandi þjóð. En álitamálum um þær gagnráðstafanir má hins vegar vísa til gerðardóms.
    Að því er varðar röskun á vinnumarkaðnum þá verð ég einfaldlega að segja það álit mitt að EES-samningurinn er ekki líklegur til þess að hafa neinar umtalsverðar breytingar á því í för með sér. Heildarfjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi var 4.812 manneskjur samkvæmt manntali 1. des. 1990. Það telst vera 1,9% af íbúafjölda. Af þessum 4.812 voru 2.768 taldir vera vinnandi fólk á vinnumarkaðnum. Af þeim var langsamlega stærstur hlutinn, 1.754, frá EES-löndunum, en þar af 932 frá Norðurlöndum sem þegar höfðu þennan rétt samkvæmt norræna vinnumarkaðssamningnum. Það er þá afgangurinn, 822 einstaklingar sem fá rétt til starfa á Íslandi með EES-samningnum þar sem Norðurlandabúar höfðu hann þegar fyrir.
    Lítum á reynslu annarra. Þrátt fyrir tæplega 20 ára aðild Danmerkur að Evrópubandalaginu er aðeins rúmt hálft prósent íbúa landsins ríkisborgarar annarra EB-ríkja, þar af meira en helmingur frá næstu grannríkjum og helstu viðskiptalöndum Dana, þ.e. Bretlandi og Þýskalandi. Þrátt fyrir nokkurt atvinnuleysi í Danmörku eru lífskjör þar góð og mætti því ætla að þar þætti mönnum eftirsóknarvert að búsetjast ef þeir hafa gagnkvæm réttindi samkvæmt EB-samningum.
    Miðað við reynslu Dana er erfitt að ímynda sér stórkostlega fólksflutninga frá löndum EB til Íslands.
    Ef við lítum á tölur um búsetuþróun og röskun á atvinnumarkaðnum vegna frjálsra fólksflutninga milli landa kemur á daginn að á þeim rúmlega þremur áratugum sem frjáls atvinnu- og búseturéttur hefur verið við lýði innan EB hefur fjöldi borgara annarra ríkja bandalagsins ekki aukist meira en svo, svo dæmi séu tekin, að í Þýskalandi eru þeir um 2% og í Frakklandi 2,8% af mannfjölda landanna hvors um sig. Þó er erum við hér að tala um tvö af efnahagslegum stórveldum bandalagsins, lönd þar sem atvinna var nóg þegar þessir flutningar mestan part áttu sér stað og þar sem stjórnvöld í viðkomandi löndum sóttust beinlínis eftir því að fá fólk til starfa og búsetu í viðkomandi löndum og þar sem hefðir eins og t.d. í Frakklandi eru langvarandi fyrir því að hafa frjálslega innflytjendapólitík.
    Ef við athugum aftur dæmið sem ég nefndi frá Danmörku þá hefur landið verið aðili að sameiginlegum vinnumarkaði Norðurlanda síðan 1954 og hluti af vinnumarkaði EB síðan 1973. Þó eru borgarar samanlagt frá öllum EFTA-ríkjum og öllum EB-ríkjum sem kosið hafa að taka sig upp og flytjast til þessara elskulegu frænda okkar ekki nema alls innan við 1% af íbúafjöldanum.
    Könnun á vegum félmrn. og Alþýðusambands Íslands bendir til þess að fjölgun erlendra ríkisborgara gæti orðið um 5% á ári til aldamóta og þannig vaxi heildarfjöldi þeirra úr tæpum 5.000 í hugsanlega 7.500. Þetta er mat Alþýðusambandsins og félmrn.
    En að lokum þarf einnig að benda hér á öryggisákvæðið vegna þess að Ísland getur gripið til öryggisráðstafana ef alvarleg röskun jafnvægis verður á vinnumarkaði vegna meiri háttar flutninga starfsfólks sem beinast að sérstökum svæðum, störfum eða atvinnugreinum.
    Það er ástæða til þess, virðulegi forseti, að leggja áherslu á þetta öryggisákvæði vegna þess að menn hafa gjarnan í umræðunni viljað gera lítið úr því. Það kemur í staðinn fyrir fjölda fyrirvara sem annars hefði þurft að setja hugsanlega víðs vegar í samninginn. Samkvæmt því má ítrekað grípa einhliða til þess ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum, á sérstökum svæðum eða landinu í heild. Beita mætti ákvæðinu ef erfiðleikar væru yfirvofandi. Ef til kæmi mundi Ísland sjálft meta skilyrðin fyrir beitingu þess, hvort þau eru fyrir hendi. Gerðardómur getur ekki vefengt þá ákvörðun en hann gæti metið hvort ráðstafanirnar væru í réttu hlutfalli við þá erfiðleika sem þeim var ætlað að leysa. Ég vísa aftur í hina sérstöku yfirlýsingu af Íslands hálfu um það við hvaða skilyrði við munum beita ákvæðinu og þar sem EB gaf ekki út gagnyfirlýsingu verður að líta svo á að túlkunin af okkar hálfu sé óumdeild.
    Niðurstaða mín er því sú að öllum meginfyrirvörum Íslands í samningaviðræðunum við Evrópubandalagið var haldið til haga, afdráttarlaust, þótt hitt sé rétt að þeir eru í nokkrum tilvikum í öðru formi en þeir voru settir fram upphaflega. Það eru sérstök undanþáguákvæði sem veita vernd gegn erlendum fjárfestingum í sjávarútvegi. Það er á okkar valdi með eigin löggjöf að tryggja sameiginlegt eignarhald þjóðarinnar yfir orkulindum og einnig að því er varðar áhyggjur manna varðandi bújarðir. Með almenna öryggisákvæðinu er okkur veitt trygging fyrir röskun á fasteignamarkaði og á vinnumarkaði og svo til allar kröfur hagsmunaaðila í landbúnaði hafa verið teknar til greina, t.d. um takmarkanir á innflutningi landbúnaðarafurða. Það er þess vegna ekki rétt sem menn hafa verið að reyna að segja að fyrirvörunum hafi verið sleppt, fallið hafi verið frá þeim, þeir látnir eiga sig. Og það er þess vegna ekki rétt að niðurstaða samningsins sé að því er þetta varðar önnur en lagt var upp með í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar.
    Virðulegi forseti. Allnokkrar umræður hafa orðið á undanförnum mánuðum um það hvort samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði samrýmist stjórnarskrá Íslands eða ekki. Eins og ég rakti áðan var tekið fullt tillit til þess í utanrrn. meðan á samningum um EES stóð hvort ákvæði samningsins brytu í bága við stjórnarskrá. Höfuðáhersla var á það lögð í samningunum af Íslands hálfu í tíð beggja þeirra ríkisstjórna sem um það hafa vélað að samningarnir mættu ekki brjóta í bága við íslensk stjórnskipunarlög. Um það mál hafa allir helstu stjórnlagafræðingar EFTA-ríkjanna og lagadeildar EFTA verið kvaddir til ráðuneytis allan samningstímann.
    Í tilefni af þessum skoðanaskiptum sem orðið hafa hér innan lands, virðulegi forseti, vil ég leyfa mér að vitna í merka þingræðu um stjórnarskrármál, sem flutt var á Alþingi Íslendinga árið 1967. Höfundur þessara orða var á sinni tíð talinn merkasti stjórnlagafræðingur Íslands, að öðrum ólöstuðum, en hann var Bjarni heitinn Benediktsson forsætisráðherra. Hann sagði í þessari þingræðu 1967: ,, . . .  einmitt í þeim löndum, þar sem stjórnarfar er einna óstöðugast og mest ringulreið hefur iðulega komið upp í stjórnarháttum, þar hafa verið settar bæði flestar og ítarlegastar stjórnarskrár.`` Og Bjarni Benediktsson heldur áfram, virðulegi forseti: ,, . . .  jafnvel gamlar stjórnarskrár hafa ekki staðið á móti eðlilegri þróun og í raun og veru gerbreytingu þeirra þjóðfélaga, sem hafa búið við þessi gömlu stjórnarskrárákvæði. En vitanlega er það svo, að þó að bókstafurinn sé enn sá sami í mörgum atriðum, er margt skilið öðruvísi en áður og öðruvísi framkvæmt. Framkvæmdin hefur fylgst með tímanum, en stjórnlögin sjálf hafa haldist til öryggis og til frekari tryggingar fyrir réttarskipun í landinu og samhengi um stjórnarhætti.``
    Að íslenskum rétti er það dómsmál, að lokinni lagasetningu, eina leiðin til að fá endanlega niðurstöðu í ágreining af þessum toga. Það er hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að fara að öllu með gát og gera allt sem unnt er til að eyða óvissu. Nákvæmlega þess vegna skipaði ég nefnd sérfræðinga, sem í sátu þeir menn sem reynslu sinnar vegna og sérþekkingar sinnar vegna og starfa sinna vegna sem prófessorar m.a. í þjóðarétti og stjórnskipunarrétti eru vafalaust taldir hæfastir manna til þess að skila um þetta hlutlausri og hlutlægri álitsgerð. Þeir skiluðu einróma áliti og komust afdráttarlaust að þeirri niðurstöðu að ekkert í þessum samningi bryti í bága við íslensku stjórnarskrána.
    Helstu niðurstöður nefndarinnar voru að löggjafarvald væri ekki framselt erlendum aðilum með samningnum, enda yrði engin lagaregla bindandi á hinu Evrópska efnahagssvæði nema með samþykki Alþingis. Það er afdráttarlaust og óvefengjanlegt. Heimilt sé skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar að fela eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum eftirlitsvald á þröngu sviði samkeppnisreglna, án þess að framkvæmdar- eða dómsvald sé framselt með samningnum, enda styðjist það við svo mörg fordæmi úr fyrri löggjöf frá Alþingi Íslendinga sem séu sannanlega sambærileg að um þetta þurfi ekki að deila. Þar við má svo bæta að hér er um að ræða vald til að tryggja eftirlit með sameiginlegum reglum, sem gilda utan íslenskrar lög- og dómsögu og féllu að óbreyttu ekki undir íslenska dómstóla.
    Til þess að skýra þetta betur vil ég, með leyfi forseta, vitna beint í niðurstöður nefndarinnar svo ég leggi þeim engin orð í munn. Í lokaorðum segir, virðulegi forseti:
    ,,Eina greinin í stjórnarskránni, sem hugsanlega gæti að lögum staðið því í vegi, að samningarnir yrðu gerðir, er 2. gr. Hún er þannig:
    ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.````
    Varðandi spurninguna um framsal löggjafarvalds er niðurstaða sérfræðinganefndarinnar þessi, orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þessi atriði teljum við að ráði úrslitum um það að ákvæði EES-samningsins um setningu reglna eru samrýmanleg 2. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.``
    Um framkvæmdarvaldið segja þeir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum því, að þær reglur varðandi framkvæmdarvaldið, sem hér hefur verið rætt um, séu ekki

andstæðar 2. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.``
    Nefndin kemst að sömu niðurstöðu varðandi dómsvaldið en samantekið hljóða niðurstöður hennar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hér að framan höfum við komist að þeirri niðurstöðu, að EES-samningurinn og fylgisamningar hans eða sú lagasetning sem af þeim leiðir brjóti ekki í bága við íslensk stjórnskipunarlög, ef þetta er metið út frá einstökum ákvæðum samningsins.``
    Og að lokum segja þeir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Við höfum tekið til athugunar, hvort sameiginleg áhrif samninganna geti falið í sér óheimilt valdaframsal, þó að einstök ákvæði skoðuð hvert fyrir sig geri það ekki. Við teljum það ekki vera.``
    Skýrari og afdráttarlausari getur niðurstaðan ekki orðið. Ég tel engan sannfærandi vafa kominn fram sem haggi þessari niðurstöðu.
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að menn eru ekki á eitt sáttir um þá niðurstöðu sem sérfræðinganefndin komst að, hvorki í röðum stjórnarandstæðinga né í röðum lögfræðinga eins og fram hefur komið. Eftir stendur að eina leiðin sem fær er að íslenskri stjórnskipun til þess að fá hlutlaust álit í þessu máli er sú leið sem þegar hefur verið farin. Það er að sjálfsögðu svo að það er ekki til annarra að leita í okkar þjóðfélagi en manna sem gegna höfuðembættum í Háskóla Íslands í stjórnskipunarrétti og þjóðarétti eða hafa gegnt störfum í Hæstarétti Íslands sem þeir voru að vísu leystir frá með sérstöku leyfi dómsmrn. Það getur enginn maður með sjálfsvirðingu staðið uppi í þessum ræðustól og reynt að ómerkja þessa niðurstöðu með vísan til þess að þessir menn hafi verið keypt handbendi utanrrh. Og ég verð nú satt að segja að gera athugasemd við þá þingskapaumræðu sem fór hér fram áðan, eða öllu heldur þá ættfræði sem fram kom í máli hv. 8. þm. Reykn. þegar hann sagði: ,,Fjórmenningar utanrrh.`` Mér er ekki kunnugt um þennan skyldleika. Hér er um að ræða þá fjóra menn sem að bestu manna yfirsýn var unnt að kveðja til vegna sérfræðiþekkingar þeirra, vegna þess að þeir eru fræðimenn starfandi við Háskóla Íslands. Þeir gegna þeim störfum að fjalla á prófessorsstóli við háskólann um stjórnskipunarlög og þjóðarétt. Til hverra annarra átti að leita eftir áliti sem við hljótum að geta gengið út frá að sé ekki keypt álit heldur hlutlausar niðurstöður sem varða fræðimannsheiður þessara manna?
    Það er ekki nýtt að lögfræðinga greini á um álitaefni. Getið þið nefnt mér nokkra lögfræðinga sem eru sammála um eitthvert mikilsvert mál? Það er afar sjaldgæft. (Gripið fram í.) Það er ekki nýtt að þá greini á. ( Gripið fram í: Þessa fjóra.) Og það er ekkert nýtt í þingsögunni að talsmenn stjórnarandstöðu komi upp og segi að eitthvert stjfrv. eða eitthvert frv. sem um er verið að fjalla brjóti í bága við stjórnarskrána að þeirra áliti. Slíkar ræður heyrum við oft á hverju einasta þingi.
    Kjarni málsins er þessi: Það var engin leið að leita eftir hlutlausu, fræðilegu áliti önnur en sú sem farin var. Síðan er spurningin þessi: Er nóg að einhverjir aðilar, hvort heldur þeir eru talsmenn stjórnarandstöðunnar á þingi eða lögfræðingar sem lýsa öðru áliti, er einhver önnur leið til þess að fá úr slíkum álitamálum skorið? Fyrst er að gera það sem unnt er til þess að eyða vafanum. Það er svo annað mál að ef menn eru ekki allir sammála í þessu efni, þá er það nokkuð umhendis að ætla að túlka ólíkar skoðanir sem menn hreyfa í pólitískum álitaefnum sem einhvern vafa í lögfræðilegum efnum.
    Eins og þingheimur veit mætavel er því mjög oft haldið fram í pólitískri umræðu að eitt og annað í löggjöf eða stjórnarframkvæmd samrýmist ekki stjórnarskránni. Ég held að það væri beinlínis óðs manns æði að ætla sér að fylgja þessari vafakenningu fram og breyta stjórnarskránni í hvert skipti sem einhverjir menn hreyfa slíkum efasemdum. Hversu oft værum við þá að hringla með þessa ágætu stjórnarskrá? Má ég nefna nokkur dæmi?
    Ágætur lögfræðingur, prófessor við Háskóla Íslands, Sigurður Líndal, hefur nýlega haldið því fram í ítarlega rökstuddu riti að því sem næst gjörvöll löggjöf íslenska ríkisins um landbúnaðarmálefni sé brot á stjórnarskránni í mörgum greinum. Sami prófessor vakti athygli á því bréflega að hann væri þeirrar skoðunar að þau lagaákvæði um framsal í hendur ráðherra sem varða fiskveiðistjórnunarlögin séu brot á stjórnarskránni. Þetta er eitt skýrt dæmi um ágætan lögfræðing sem hefur gert grein fyrir því að þetta er hans skoðun og hann hefur rökstutt þá skoðun. Hefur það nokkuð farið fram hjá mér eða hefur það gerst að einhver hér á hinu háa Alþingi hafi rokið upp til handa og fóta og sagt að nú sé slíkur vafi, nú leiki slíkur vafi á um búvörulöggjöfina ,,in toto`` að nú verði bara að breyta stjórnarskránni eða nú leiki slíkur vafi á um kvótaúthlutanir að nú verði að breyta stjórnarskránni? Eða höfðu menn þetta til siðs virkilega t.d. svo að ég vitni til alþingisumræðna sem fram fóru af fjölmörgum tilefnum á löngu tímabili 1960--1971 þegar virtur fræðimaður sat hér sem stjórnmálaleiðtogi og lýsti þeirri skoðun sinni býsna oft í mörgum og ólíkum málum að tiltekið mál væri brot á stjórnarskránni? Hvernig brugðust stjórnvöld við? Var það svo í hvert skipti sem einhver lýsti þessari skoðun sinni, jafnvel þótt virtir fræðimenn ættu í hlut, að þá hafi menn rokið til og breytt stjórnarskránni? Er stjórnarskráin eitthvað sem menn eiga að rjúka til og breyta ef einhver lýsir yfir efasemdum um eitthvað? Er það eðli stjórnarskrárinnar? Auðvitað ekki.
    Það er kannski ástæða til þess að nefna sérstaklega eitt dæmi, nýlegt. Því var haldið fram í tíð fyrrv. ríkisstjórnar af ákaflega vel virtum forustumönnum launþegasamtaka úti í bæ, BHMR, og reyndar ýmsum mjög virtum þingmönnum þáverandi stjórnarandstöðu, að setning bráðabirgðalaga um launamál, nr. 89/1990, stæðist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. ( ÓRG: Það var nú aðallega Davíð Oddsson.) Lögfræðingar voru ekki ásáttir í málinu. Lögfræðinga greindi á í málinu. Lögfræðingar skrifuðust á í blöðum og

höfðu mjög ólíka skoðun á málinu. Sumir færðu rök fyrir því að þetta væri brot á stjórnarskránni, aðrir sögðu: Nei, það er alls ekki svo. Hvað gerði hæstv. þáv. forsrh. og hæstv. þáv. fjmrh., þeir sem helst hafa gerst talsmenn vafakenningarinnar í stjórnarskrármálinu? Ruku þeir til og breyttu stjórnarskránni? Að sjálfsögðu ekki, það hvarflaði ekki að þeim. Þeir gerðu það sem rétt var.
    Málið fór sinn venjulega og eðlilega gang í gegnum dómskerfið þar sem var skorið úr því endanlega fyrir dómstól sem er eina leiðin, eina aðferðin í íslensku kerfi til þess að kveða upp endanlega úr um þetta vegna þess að við höfum engan sérstakan stjórnlagadómstól sem getur skilað áliti um slíkt álitaefni fyrir fram. Það mál verður einfaldlega að reka fyrir dómstólum þannig að það verður ekki skorið úr þessari lögfræðiþrætu endanlega fyrr en með dómsniðurstöðu. Það eina sem við getum gert þangað til er að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að leita álits þeirra sem sérstaklega stendur þannig á í íslensku þjóðfélagi að þeir eiga að heita og vera og starfa sem sérfræðingar í viðeigandi málefnum. Og ef menn eru að tala um að leita til sérfræðinga, þá er það nú almennt svo, skilst mér, í læknisfræðinni að ef menn eru eitthvað veilir fyrir hjartanu, þá leita menn til hjartasérfræðinga en ekki til nýrnasérfræðinga og það getur verið dálítill munur á því, því að það eru ekki allir lögfræðingar sérfræðingar í þjóðarétti og stjórnskipunarrétti.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að kveða upp neinn salómonsdóm, enda ekki til þess bær í þessu máli. En undir lok þessarar ræðu langar mig til að vitna enn til þess stjórnmálamanns og stjórnlagafræðings sem notið hefur hvað mests álits, bæði lögfræðinga og almennings í landinu sem er Bjarni heitinn Benediktsson. Hann sagði í ræðu:
    ,, . . .  það er fyrst og fremst stjórnmálaákvörðun sem er verið að taka þegar [stjórnarskrár]breytingu á að gera. Það er ákvörðun um það eftir hvaða reglum eigi að starfa að stjórnmálum í landinu og hvaða rétt borgararnir eigi að hafa. Þetta er ekki fræðilegt atriði nema að sáralitlu leyti . . .  ``
    Einstakir þingmenn og þingflokkar hafa lýst áhuga sínum á því að vilja breyta stjórnarskránni. Ég hef sjálfur átt aðild að því í stjórnarskrárnefnd að lýsa hugmyndum og tillögum um breytingar á stjórnarskránni. Til þess hafa menn allan rétt. Þetta er hins vegar útrætt mál út af fyrir sig fræðilega séð. Fyrir því eru engar forsendur að krefjast breytinga á stjórnarskránni með lögfræðilegum rökum hvað sem líður pólitískum skoðunum og hagsmunum. Það staðfesti álit þeirra sérfræðinga sem til voru kvaddir og gerst þekkja til. Ég vil þess vegna taka undir með hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þegar hún sagði eftir að álit sérfræðinganefndarinnar lá fyrir að Alþingi yrði að taka pólitíska afstöðu til ólíks mats einstakra lögfræðinga í þessu máli. Það er laukrétt. Málið er í höndum Alþingis. Málið er í höndum hvers einasta alþingismanns að gera upp hug sinn í þessu efni. Alþingi er hæstiréttur í þessu máli.
    Ef menn eru efnislega ósammála því sem er að finna í EES-samningnum, þá ræðum við það að sjálfsögðu hér á hinu háa Alþingi. En ég held að orð Bjarna Benediktssonar, fyrrum forsætisráðherra, séu góð áminning um að sérhver stjórnarskrárbreyting er í eðli sínu eins og hver önnur pólitísk spurning og það er rangt af mönnum að klæða sig í gervi lögfræðinga í fræðideilum til þess að ljá pólitísku deilumáli einhvern fræðilegan blæ.
    Virðulegi forseti. Því hefur líka verið haldið fram að það sé sjálfsagt og eðlilegt að bera EES-samninginn undir þjóðaratkvæði. Hér sé slíkt stórmál á ferðinni að Alþingi einu sé ekki treystandi til þess að taka um það ákvörðun. Það mætti kannski taka sem dæmi um hver vegur Alþingis er orðinn í hugum sumra, bæði innan og utan Alþingis.
    Þetta mál gefur hins vegar ekkert sérstakt tilefni til þess að umbylta okkar stjórnarháttum. Slíkt valdaafsal Alþingis væri að mínu mati alls ekki sjálfsagt og að mínu mati heldur ekki eðlilegt. Ég held að Alþingi hafi gengið allt of langt í að afsala sér völdum, oft á tíðum í þeirri von að komast sjálft frá ábyrgð í erfiðum málum. Ég tel að þessi þróun hafi átt þátt í minnkandi virðingu Alþingis á undanförnum árum.
    Hugmyndir um að bera hin margvíslegustu mál undir þjóðaratkvæði eru ekkert nýjar af nálinni. Ég tók t.d. dæmi af því hér áðan í umræðum fyrir tæpum aldarfjórðungi um inngönguna í EFTA að sú krafa var reist mjög af stjórnarandstæðingum þá að þetta væri svo mikilsvert mál að það yrði að bera það undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu sem var auðvitað að nokkru leyti yfirvarp fyrir því að þurfa ekki að bera ábyrgð á málinu sjálfu, taka efnislega afstöðu til málsins sjálfs. En treysti Alþingi sér ekki til þess að taka afstöðu til málsins af því að það er svo flókið og viðamikið, hvaða hugsun felst þá í því að varpa því frá sér til annarra? Þessar kenningar eru ekki nýjar af nálinni. Þær höfum við heyrt frá lýðveldisstofnun í ýmsum myndum og þær hafa skotið upp kollinum víða. Þeim hefur alltaf verið hafnað að vandlega íhuguðu máli. Má ég enn vitna til þess hvernig okkar merkasti stjórnlagafræðingur leit á málið þegar slíkt mál var rætt hér á Alþingi 1967? Þá sagði Bjarni heitinn Benediktsson:
    ,,Að hér þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til breytinga á stjórnarháttum vegna samskipta við önnur ríki, fæ ég ekki séð. Okkur hefur í heild lánast þau vel og ég tel t.d. ekki að það væri mikill vinningur þó að fara ætti að bera hin viðkvæmustu utanríkismál undir þjóðaratkvæði, svo sem vikið er að. Það er yfirleitt reynsla, þar sem þjóðaratkvæði hafa verið að þau verka mjög í íhaldsátt. Það er bæði í Sviss og eins á Norðurlöndum, þar sem þau hafa verið prófuð.``
    Þannig mælti stjórnlagaprófessorinn og þáv. forsrh., Bjarni Benediktsson, í umræðu á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslukröfur. Ég tel reyndar eins og hann að til séu mál sem eðlilegt er að bera undir þjóðaratkvæði. En EES-samningurinn er að mínu mati ekki eitt þeirra. Við núverandi aðstæður mundi þjóðaratkvæðagreiðsla um EES snúast um allt annað en samninginn sjálfan. Atkvæði mundu falla í stórum dráttum eftir flokkspólitískum línum. Þrátt fyrir mikið átak til þess að kynna EES-samninginn þá benda skoðanakannanir til þess að landsmenn lýsi því yfir, þeir lýsa því beinlínis yfir í skoðanakönnunum, að þeir telji sig ekki hafa nægilega þekkingu á þessum samningi, sem er miður þar sem flestir þeirra sem hafa lagt það á sig að kynna sér samninginn og taka það fram í skoðanakönnunum, lýsa sig fylgjandi honum. Slíkt er ekkert óeðlilegt því að hann er viðamikill og það vex mörgum í augum hér á hinu háa Alþingi þótt grundvallarreglur hans séu út af fyrir sig einfaldar.
    Fyrir mitt leyti vil ég ekki stuðla að því að umbylta því stjórnarfyrirkomulagi sem ákveðið var í stjórnarskrá vorið 1944 og góð sátt hefur ríkt um mestallan lýðveldistímann. Samkvæmt okkar stjórnskipunarvenjum er Alþingi kosið til þess að taka ákvarðanir af þessu tagi og munu stjórnarflokkarnir standa eða falla með þeirri ákvörðun sinni. Kjósendur fá tækifæri til þess að eiga síðasta orðið í næstu kosningum. Ef þeim finnst sú ákvörðun hafa verið röng er þeim í lófa lagið að kjósa þá flokka sem mundu segja Ísland úr Evrópska efnahagssvæðinu, sem þeir geta gert með árs fyrirvara samkvæmt ákvæðum samningsins. Þetta er hinn eðlilegi og lýðræðislegi framgangsmáti samkvæmt okkar stjórnskipun.
    Virðulegi forseti. Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á undanfarinni öld. Við urðum fullvalda fyrir rúmum 70 árum og sjálfstæði okkar er tæplega hálfrar aldar gamalt. Sá samningur sem hér er lagður fyrir Alþingi kveður á um ýmis réttindi okkur til handa. Hann leggur okkur skyldur á herðar og hann gefur okkur líka tækifæri til nýrrar sóknar.
    Í aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu felst tækifæri fyrir okkar þjóð, vit hennar og framtak. Við tengjumst betur þeim þjóðum sem okkur standa næstar og styrkjum íslenska þátttöku í menningar- og menntasamstarfi í Evrópu. Þessi samningur reynir líka á getu okkar og sjálfstraust til að standa í samstarfi við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli. Treystum við okkur til að leggja á okkur þá sömu mælistiku og við viljum leggja á aðra, láta sömu reglur gilda um okkar viðskipti og við viljum láta gilda í viðskiptum annarra?
    Ekki mundi ég víkjast undan því að axla minn hlut af ábyrgðinni á því að hafa náð fram þessum samningum. En mergurinn málsins er hins vegar sá að það voru sérstakar sögulegar ástæður fyrir hendi sem leiddu til þess að við gátum gripið tækifærið og náð þessum samningi einmitt á þessum tíma. Við hefðum ekki náð honum fyrr og við hefðum ekki náð honum síðar. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir þessa sögulega þenkjandi þjóð að grípa núna hið sögulega tækifæri.
    Þessi samningur er í höndum Alþingis sem verður að gera það upp við sig hvort lögfesta eigi samninginn eða ekki. Alþingi verður að gera annað tveggja, eins og ævinlega þegar um er að ræða staðfestingu á þjóðréttarsamningum, að samþykkja hann eða fella eftir því sem hugur manna stendur til. Þjóðin mun fylgjast með því sem hér fer fram og þeim málflutningi sem hér verður hafður í frammi.
    Ég vitnaði hér á undan til nærri 25 ára gamalla ummæla sem enn eru viðhöfð óbreytt. Ég held að það verði engum til framdráttar lengur að fitja aftur og aftur upp á gömlum landráðabrigslum og ásökunum um landsölu. Ég hef rakið góðar og gildar ástæður fyrir því hvers vegna íslenskur þjóðarhagur mælir með samþykkt samningsins um Evrópskt efnahagssvæði en það er Alþingi sem með valdið fer. Það er ljóst að íslenskum hagsmunum verður ekki borgið með því að við veljum okkur framtíð utan alþjóðasamstarfs um viðskipti, gagnkvæm réttindi og skyldur. Ísland er fámennt eyland sem lifir og hrærist í nánum samskiptum við aðrar þjóðir. Það segir okkur menningarsaga okkar, atvinnusaga okkar, viðskiptasaga okkar. Að þessum kjarna málsins vék Jón Sigurðsson forseti í grein í Nýjum félagsritum árið 1842, með leyfi forseta:
    ,,Þannig er auðséð hversu allt er samtvinnað hvað öðru og þegar eitt er leyst þá þarf að leysa allt ef landinu á að verða fullt gagn af breytingunni en annars verður hún einungis af hálfu eður litlu gagni.
    En jafnframt og beðið er um verslunarfrelsi þurfa landsmenn og að leggjast á eitt að afla sér þekkingar á verslunarmálefnunum svo þeir geti vitað hag sinn og fengið skynbragð á að sjá hvað við tekur og hvers þeir þurfa að gæta, því ekki er neinum að vænta að steiktar krásir fljúgi í munn honum sofanda þótt verslunin verði látin laus. Atorku, sparsemi og kunnáttu þarf alls staðar og á öllum tímum ef vel á að fara, en því framar sem fleiri sækja að og keppast á og því betur sem þeir eru menntaðir sem við mann keppa.``
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.