Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 15:14:50 (272)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Undanfarna daga og vikur hafa farið fram umræður um hið Evrópska efnahagssvæði á hinu háa Alþingi og hefur umræðan eins og gengur farið vítt um svið, enda um víðtækan samning hér að ræða. Framsóknarmenn hafa ítarlega gert grein fyrir fyrirvörum sínum, fyrirvörum sem framsóknarmenn hafa ávallt haft varðandi inngöngu okkar, fyrirvara sem ekki eru allir tryggðir í þessum samningi.
    Fulltrúar Framsfl. hafa einnig rætt hér ítarlega um stjórnarskrármálið og mun ég ekki endurtaka þá umræðu. En það hefur vakið mesta athygli mína að hlusta á þá sem hafa engan vafa í brjósti sér í sambandi við þennan samning. Hér hafa fulltrúar hæstv. stjórnar staðið í pontu með dollaramerki í augum. Efalausir hafa hv. alþm. stjórnarinnar staðið upp hver af öðrum og talið að óendanleg ný tækifæri væru fólgin í inngöngu Íslands í hið Evrópska efnahagssvæði, tækifæri sem annars væru okkur glötuð. Tækifærin sem upp eru talin eru flest tengd sjávarútvegi, ef ekki öll.
    Við viðurkennum auðvitað öll að það er mikilvægt að losna við 16--18% toll af ferskum flökum og saltfiski. En er þetta ekki allt og sumt? Er það ekki næstum allt og sumt sem við fáum út úr þessum samningi? Sjá menn t.d. ný störf í því falin að flaka fisk á Evrópumarkað? Vitum við ekki öll að sala á óunnum fiski hefur minnkað ár frá ári á Evópumarkað og mun minnka, að íslensk frystihús hafa í síauknum mæli hafið fullvinnslu á fiski í neytendapakkningar undir merkjum stórfyrirtækja í Evrópu eins og Igloo, Gordon, Marks & Spencer o.s.frv. og að það eru ekki nokkrir tollar á þessari fullunnu vöru, þökk sé bókun 6? Er það ekki fullvinnsla sjávarafurða sem við erum alltaf að tala um? Er það ekki það sem er framtíðin? Og ég spyr: Hvað eru mörg störf falin í því að flaka fisk? Þau eru örfá. Við getum flakað fisk frá stórum togaraflota með nokkrum Baader-vélum og örfáum manneskjum. Það eru engin ný störf í þessum tækifærum falin, engin ný störf.
    En ég er ekki að draga úr mikilvægi ferskfiskmarkaðar. Ég er bara að benda á það að þessi markaður gefur okkur ekki ný störf eins og menn hafa talað um hér. Og ferskfiskmarkaðurinn er mjög viðkvæmur eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. hér áðan og þeir ,,down-prísar`` sem núna eru á ferskfiskmörkuðum í Evrópu eru ekki vegna tollanna heldur vegna offramboðs og vegna undirboða. Þetta er viðkvæmur markaður því að þetta eru ferskar vörur sem geymast ekki og þurfa að seljast einn, tveir og þrír. Og það er mjög hættulegt að leggja svona mikla áherslu á ferskfiskmarkaðinn.
    Um saltfiskinn er aðra sögu að segja eins og fram hefur komið hér. Þar eru háir tollar. Þó að neytendur hafi hingað til borgað þessa tolla, þá, mundi það breyta miklu að þessir tollar hyrfu. Það mundi eflaust auka sölu á saltfiski. En það er minna talað um síldina. Það er ekkert talað um síldina. En það er einmitt síldin sem við þyrftum að losna við tolla af. Síldin okkar er óseljanleg á Evrópumarkaði og öll okkar síld fer því miður í gúanó vegna þess að Rússlandsmarkaðurinn hefur ekki tækifæri til að kaupa hana vegna fjárhagsörðugleika. Síldin er sem sé skilin eftir og þar höfum við ekki ná neinni samningsstöðu.
    Ég hræðist þessa goðsögn um uppsveiflu í sjávarútvegi við inngöngu í hið Evrópska efnahagssvæði. Það er einhvern veginn þannig að margir eru búnir að kjafta sig upp í þetta, að þetta séu okkur mikilvægir samningar fyrir sjávarútveginn, nema fulltrúar úr sjávarútveginum sjálfum. Það heyrist ekki mikið í þeim. Þeir hafa ekki þessa ofurtrú á mikilvægi þessa samnings. Ég held ekki að talsmenn þess sem trúa á mikilvægi einmitt þessara viðskiptasamninga séu að segja ósatt, alls ekki. Þeir hafa einhvern veginn bara borist með þessum straumi án þess að skoða hvað í alvöru býr að baki. Það eru engir nýir atvinnumöguleikar á bak við þennan samning. Ég endurtek það.
    Ég viðurkenni einnig að ég er tortryggin varðandi þessi 3 þús. tonn af karfa og aldrei er góð vísa of oft kveðin. Það er mikið búin að tala um þessi 3 þús. tonn. 3 þús. tonn af karfa er ekki neitt og það er merkilegt að svo stór markaður, 360 milljóna markaður, vilji fá þessi litlu 3 þús. tonn af karfa frá okkur Íslendingum. Ætli 3 þús. tonn af karfa séu ekki 200 millj. virði eða svo? En auðvitað er þetta litli lykillinn að okkar auðlind og það er sagt hér, og það er satt, að það er sama hvort lykillinn er stór eða lítill ef hann gengur að. Og ég spyr líka: Þegar samningurinn verður næst endurskoðaður, vilja þeir þá ekki fá 6 þús. tonn, 10 þús. tonn, 12 þús. tonn, annars falla tollarnir niður, annars hefðum við ekki þessi tollfríðindi lengur? Hlýtur maður ekki spyrja sig að því?
    Ég sagði áðan að forsvarsmenn sjávarútvegsins hefðu ekki verið neitt sérstaklega brattir vegna þessa samnings en íslenskir iðnrekendur hafa aftur á móti mælt eindregið með samningnum, aðallega fyrir hönd sjávarútvegsins. En iðnrekendur telja réttilega að svo margt þurfi að breytast í rekstrarumhverfi iðnaðarins sem þeir eiga alls ekkert von á frekar en áður að stjórnvöld lagi þannig að hagurinn sé óbreyttur að öðru leyti en því að aðalbreytingin er sú fyrst og fremst að samkeppni eykst.
    Með þátttöku okkar viðurkennum við að við ætlum að vera fullgildir þátttakendur í alþjóðlegum viðskiptum, aukinni alþjóðavæðingu og verkaskiptingu. Við verðum með sömu leikreglur og annars staðar eru í Vestur-Evrópu. Þess vegna verða starfsskilyrði atvinnulífsins að vera samkeppnisfær eins og best gerist meðal erlendra keppinauta. En hvernig eru starfsskilyrði atvinnulífsins almennt? Hvernig er skilningurinn á þeim? Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Starfsskilyrðin eru miklu verri en víðast hvar í Evrópu. Af hverjum skyldum við ætla að erlendur fjárfestir komi hingað til að fjárfesta í atvinnulífinu og búi síðan hér við miklu erfiðari aðstæður en víðast hvar í Evrópu, með ýmsa skatta og skyldur sem þekkjast ekki í Evrópu?
    Mig langar til að víkja fáeinum orðum að ágætri ræðu sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hélt hér um ýmsar hagfræðikenningar sem svo sannarlega var hægt að vera sammála. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn er hérna, ég sá hann áðan en hann er kannski vikinn brott. Hann vék að ríkisstyrkjakerfinu og skilgreiningu Evrópubandalagsins á ríkisstyrkjum til útflutningsfyrirtækja og nauðsyn þess að halda sig frá ríkisstyrkjum. Íslenskur sjávarútvegur hefur ekki verið ríkisstyrktur til þessa og það hefur styrkt mjög stöðu sölumanna okkar erlendis að geta sannað það að þó að okkar verð hafi oft verið miklu hærri en keppinauta okkar hafi það verið samþykkt og viðurkennt vegna þess að við höfum ekki verið með ríkisstyrktan sjávarútveg.
    En hvað er að gerast núna? Ætlar ekki hæstv. forsrh. að fara að ríkisstyrkja sjávarútveg okkar í óþökk

allra sem málið varðar? --- Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. er hér en ég hefði gaman af að spyrja hann einnar spurningar eða svo. Forseti. Er hann hér í hliðarsal? ( Forseti: Forseti skal gera ráðstafanir og láta hæstv. forsrh. vita að þingmaðurinn óski eftir nærveru hans. --- Forseti vill taka fram að forsrh. er í húsinu og það er verið að leita hans. Það er spurning hvort þingmaðurinn getur haldið áfram ræðu sinni og geymt þann hluta ræðunnar sem hann vildi ræða við forsrh.) Ég á örstutt eftir af minni ræðu og það er eiginlega ekkert eftir nema spurningin til hæstv. forsrh. ( Forseti: Það er verið að kanna málið ef hv. þm. vill hinkra örlítið. --- Samkvæmt upplýsingum mun hæstv. forsrh. koma eftir tvær mínútur.) Ég mundi kannski nota tækifærið og spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson hvort hann muni samþykkja það þegar mál Hagræðingarsjóðs kemur til atkvæða að senda útgerðarmönnum ávísun og ríkisstyrkja þannig sjávarútveginn í óþökk sjávarúvegsins sjálfs. Hann hélt hér mjög athyglisverða og góða ræðu um að það sé alveg út í hött að ríkisstyrkja sjávarútveginn og atvinnulífið almennt. Það verður því vel eftir því tekið þegar að þessu máli kemur hvernig hv. þm. greiðir atkvæði. Þessu vildi ég koma að en síðan langaði mig að bíða hér í rólegheitunum þar til hæstv. forsrh. hefur lokið kaffidrykkju sinni. Þetta er ekki löng ræða sem ég á eftir en mig langar aðeins að eiga eitt orð við hann. --- Verði þér að góðu, hæstv. forsrh., mig langaði að beina spurningu til hæstv. forsrh. vegna ríkisstyrkjakerfis sem flestir Íslendingar eru sammála um að eigi ekki að viðgangast í undirstöðuatvinnugreinum okkar. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það sé einlægur ásetningur hans að senda útgerðarmönnum ávísun í pósti til að þeir geti keypt aflaheimildir Hagræðingarsjóðs og eyðileggja þar með þann grunn sem hefur skapast á mörkuðum okkar erlendis, að við séum ekki með ríkisstyrktan sjávarútveg. Mig langar að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann hafi hugleitt það hvaða erfiðleikum þessar hugmyndir hans muni valda sölumönnum okkar á íslenskum afurðum erlendis. Þetta var spurningin til hans.
    Virðulegi forseti. Ég tel að við höfum einhvern ávinning af þessum samningi, þó það nú væri, jafnflókinn og mikill sem hann er. En það er langur tími þar til hæstv. ríkisstjórn hefur búið svo um hnútana að við getum notið hagnaðarins í þessari opnu samkeppni á Evrópumarkaði og ég hræðist þá miklu oftúlkun sem hér hefur átt sér stað á ágæti samningsins. Ég vona að við berum gæfu til að ganga hægt um gleðinnar dyr.