Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 16:35:39 (276)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 5. þm. Vestf. virðist vera býsna fljótur að gleyma. Hann gerði hér allmikið mál úr því að fjárfesting útlendinga mundi í kjölfar þessa samnings leiða hér til mikils ófarnaðar. Honum ætti þó að vera kunnugt um að það var í tíð fyrri ríkisstjórnar sem sett var ný löggjöf um fjárfestingar útlendinga hér á landi þar sem opnað var fyrir erlendri fjárfestingu með nýjum lagaákvæðum og þau samræmd en um leið settur sá fyrirvari að fjárfestingar útlendinga í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða væru óheimilar. Hver er nú samningsniðurstaðan í þessum EES-samningum? Hún er sú að þessi grundvallarbreyting standi sem lögákveðin var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það verða því í grundvallaratriðum engar breytingar í þessu efni frá því sem línur voru lagðar um í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég minnist þess ekki að þingmenn Alþb. þá hafi hikað við að greiða þeirri löggjöf atkvæði. Svo koma þeir upp núna og mála upp á vegginn hinar dekkstu myndir vegna þeirra breytinga sem í vændum eru. Þessar ákvarðanir voru teknar í tíð fyrri ríkisstjórnar vegna þeirra samninga sem sú ríkisstjórn átti þá í við Evrópubandalagið um Evrópska efnahagssvæðið.