Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 17:44:08 (287)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Spurningum um kostnað við samningsgerðina sjálfa og við framkvæmd samningsins hefur verið svarað mjög oft á hinu háa Alþingi. Ég hef veitt munnleg og skrifleg svör við því við fyrirspurnum og ég gerði það í svari mínu áðan. Þær tölur liggja allar fyrir, hvað þetta hefur kostað á liðinni tíð, hver eru framlög okkar frá ári til árs þannig að hv. þm. geta metið það hver sá kostnaður er í samanburði við ávinninginn og hvort það væri íslensku stjórnkerfi ofviða. Sannleikurinn er sá að þetta er ekki stórt mál í íslenskum þjóðarbúskap.
    Önnur spurning. Ef óumdeilt er að samningurinn veiti íslensku atvinnulífi ný tækifæri, hver eru þau? Við höfum þegar rætt um sjávarútveginn. Hvað um aðra þætti eins og í þjónustugeiranum sem þrátt fyrir allt leggur fram stærstan skerf til íslenskrar þjóðarframleiðslu? Samningurinn skapar almennt séð ný vaxtarskilyrði vegna þess í fyrsta lagi að aðgangur að þessum stóra markaði er greiður á jafnréttisgrundvelli. Öllum viðskiptahindrunum sem við höfum þurft að mæta hingað til er rutt úr vegi. Ég vil taka bara eitt dæmi. Það hefði getað orðið meiri háttar mál fyrir íslenskan sjávarútveg --- svo að ég staldri nú enn við hann --- að fá ekki viðurkenningu á fullgildingu íslenskra eftirlitsstofnana varðandi helbrigðiseftirlit og reglugerðir.
    Að því er varðar fjármagnsmarkaðinn og opnun hans, sem í þessu felst, þýðir að fákeppnismarkaður, tiltölulega lokaður og afmarkaður, er nú opnaður fyrir samkeppni. Það þýðir einfaldlega að verð á fjármagni mun leita jafnvægis. Við munum njóta aðgangs að peningum á heimsmarkaðsverði. Þetta þýðir aðhald að bankakerfi og fjármálastofnunum, þetta þýðir kosti fyrir íslensk atvinnufyrirtæki, þetta þýðir kosti fyrir almenning og neytendur. Það er alveg óumdeilt að því er varðar áhrif þessa samnings, hvort heldur er á verðlag vegna aukinnar samkeppni eða vaxtastig, að þetta mun verða íslenskum fyrirtækjum og almenningi í landinu mjög í hag. Fórnarkostnaðurinn, ef við værum utan við þetta, væri hins vegar mjög íþyngjandi.