Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 17:50:03 (290)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs til að óska eftir því að gert verði nokkurra mínútna hlé svo hægt sé að skiptast á upplýsingum um það utan við ræðustólinn hvernig ætlunin er að halda áfram með þessar umræður. Ég vil lýsa því að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ræðu hæstv. utanrrh. Ég tek undir það sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir sagði: Hún var mjög rýr.
    Það hefur verið beint hér í umræðunum fjöldanum öllum af fyrirspurnum til hæstv. ráðherra, bæði til hans sem utanrrh. og eins til hans fyrir hönd annarra ráðherra sem menn hafa unað að væru fjarstaddir þessa umræðu. Ég nefni t.d. hæstv. félmrh. varðandi vinnumarkað og fjölmargt annað. Hæstv. ráðherra vék ekki einu orði að því að reyna að svara þeim spurningum. Auðvitað gerist það stundum hér í þinginu í tímaþröng að ráðherrar fara þá leið að skjóta sér undan því að svara spurningum og láta sem þeir hafi ekki heyrt það sem sagt var.
    Ég hefði haldið í máli af þessu tagi þegar þjóðþingið er kallað sérstaklega saman tæpum einum og hálfum mánuði mánuði fyrir venjulegan þingtíma væri eðlilegt að hæstv. ráðherra sýndi þinginu þá virðingu að svara þeim spurningum sem menn hafa lagt fyrir hann eða fara í gegnum það hverju hann treystir sér ekki til að svara þegar þingmenn hafa lagt mikla vinnu í það í mörgum málefnalegum ræðum, sem hér hafa verið fluttar, að biðja um skýringar og umfjöllunaratriði. Ég tel þess vegna alveg nauðsynlegt í þessu máli að annaðhvort fái hæstv. utanrrh. tækifæri til þess, þar til nýr fundur verður haldinn, að fara yfir þær ræður sem hér hafa verið fluttar og átta sig betur á þessu og fá þá tækifæri til þess að koma hér aftur eða við verðum að bíða eftir þeim ráðherrum sem ríkisstjórnin hefur látið vera fjarverandi þessa umræðu og forsrh. hefur leyft að vera fjarverandi þótt umræðan sé mikilvæg. Ég nefni þar sérstaklega hæstv. félmrh. því það er alveg ljóst að vinnumarkaðurinn er einn af mikilvægustu þáttunum í þessari samningsgerð. Út af fyrir sig var það ekki krafa okkar í stjórnarandstöðunni að bíða eftir félmrh. en ef utanrrh. ætlar engu að svara fyrir hennar hönd, þá eigum við engan annan kost. Það er því ósk mín, virðulegi forseti, að hér verði gert hlé í nokkrar mínútur svo menn geti utan við fundarsalinn reynt að átta sig á því í sameiningu hvernig eigi að halda þessu áfram.