Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 16:36:24 (396)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var reyndar það sem ríkisstjórnin gerði með útgáfu bráðabirgðalaganna þó að það væri orðað með dálítið öðrum hætti. Þegar menn vinsa kjarnann frá hisminu í því þá var það sem ríkisstjórnin sagði við Kjaradóm með bráðabirgðalögum: Þið eigið að dæma 1,7%. Það var nákvæmlega það sem ríkisstjórnin var að gera og markmið hennar með þessum lögum.
    Það er dálítið athyglisvert þegar menn skoða seinni kjaradóm að þær breytingar á forsendum sem hann á að vinna eftir sem leiða sjálfkrafa til mismunandi niðurstöðu eru ekki fyrir hendi. Ég hallast þess vegna að því að Kjaradómur hafi einfaldlega skilið fyrr en skall í tönnum hvað hann átti að gera. En auðvitað lá það fyrir. Ríkisstjórnin tók við 30. apríl 1991. Lögin lágu þá fyrir og verkefni Kjaradóms líka þannig að ríkisstjórnin vildi breyta einhverju til að koma í veg fyrir að dómur gæti teflt í tvísýnu efnahagslegum markmiðum ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma eins og þau voru eða kjarasamningum sem hún hafði gert eða staðið að þá höfðu menn nægan tíma til að gera þær breytingar sem þurfti.