Kjaradómur og kjaranefnd

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 17:39:48 (410)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hæstv. fjmrh. um það að þessi frumvörp muni eiga greiðan aðgang til nefndarinnar. Við ætlum ekki að setja upp þröskulda og girðingar eins og mjög er rætt um í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði. En hitt er svo annað mál hvernig með þessi mál verður farið. Ég skildi ummæli hæstv. fjmrh. þannig að hann vildi að þessi tvö frv. fylgdu bráðabirgðalögunum, þau yrðu afgreidd samhliða. Ég kann að hafa misskilið það. Ég fæ ekki séð að það liggi mjög mikið á að afgreiða þetta enda tel ég að við þurfum að skoða þetta mjög vel og málið þurfi að fá mjög vandaða meðferð í efh.- og viðskn. Þar með er ég ekki að segja að ég ætli á nokkurn hátt að tefja fyrir því heldur hafa vaknað margar spurningar varðandi þetta mál og ég held að það þarfnist ítarlegrar skoðunar.
    Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. að fjmrn. sendi bréf til efh.- og viðskn. en ég skildi niðurstöðuna sem þar var þannig að nefndin hafnaði því að byrja á málinu áður en því hefði verið vísað til nefndarinnar og það á þá skýringu að okkur þykir að það sé kominn upp allverulegur þrýstingur af hálfu framkvæmdarvaldsins til þess að fá nefndir til að taka upp mál áður en þeim hefur verið vísað til nefndar í skjóli 23. gr. þingskapalaga en við erum ekki ýkja hrifin af því. Það er bara eðlilegt að nefndin bíði eftir því að málum sé vísað til þeirra. Ég á von á því og vil gjarnan koma því á framfæri að við bíðum spennt eftir að fá þessi mál til umræðu í nefndinni og ég vona að þessi umræða verði ekki mjög löng því ég býst við að það muni margt skýrast þegar þetta mál kemst til nefndarinnar og við förum að kalla til þá aðila sem hér eiga hlut að máli.
    Stóra spurningin varðandi þetta frv. er sú hvort þær breytingar sem verið er að gera á lögunum um Kjaradóm duga til þess að breyta því ástandi sem upp er komið í þessum málum. Það kemur fram í grg. með frv. um Kjaradóm og kjaranefnd að ástandið er orðið þannig samkvæmt því sem Kjaradómur upplýsir að ráðherrar ákveða orðið allt að 50% af launum sumra embættismanna sem segir okkur það að sú stefna Kjaradóms, sem hefur verið við lýði undanfarin ár, að kveða upp úrskurð sinn í samræmi við almenna kjaraþróun, hefur leitt til þess að efla hið tvöfalda launakerfi, þ.e. að menn hafa leiðst út í það að borga mönnum yfirvinnu og óunna yfirvinnu og hvað þetta heitir allt saman. Stóra spurningin er: Duga þessar breytingar til þess að þarna verði einhver breyting á?

    Ef ég vík að sjálfu frv. þá er náttúrlega fyrsta spurning sem vaknar sú hvort sú breyting sem lögð er til varðandi skipan Kjaradóms sé eðlileg og ég fæ ekki betur séð en þarna séu menn á réttri leið, að það sé eðlilegt að Alþingi, þ.e. löggjafarvaldið, sem á að hlíta úrskurði þessa dómstóls eigi þarna aðild að.
    Spurningin vaknar hins vegar hvort þessi skipting í Kjaradóm og kjaranefnd sé eðlileg og hvað af henni muni leiða. Mér sýnist að það sem verið er að gera með þessu sé að menn taka þarna út æðstu embættismenn ríkisins, þ.e. forseta Íslands, ráðherra, alþingismenn, hæstaréttardómara og héraðsdómara, þ.e. fulltrúa hins þrískipta valds, en aðrir eiga að heyra undir kjaranefnd. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hver eru rökin fyrir þessari tvískiptingu? Því það eru auðvitað ýmsar aðrar leiðir til í þessu máli. Það er t.d. spurning hvort þetta ætti ekki allt að fara undir hreina kjarasamninga, hvort það ættu ekki að gilda kjarasamningar um alla opinbera starfsmenn og ef við hugum að prestunum sérstaklega, sem þarf auðvitað að taka mjög rækilega til skoðunar, þá get ég séð a.m.k. fjórar leiðir varðandi þeirra mál. Það er í fyrsta lagi að þeir falli undir Kjaradóm en ekki kjaranefnd sem reyndar brýtur í bága við þá hugsun sem er í þessu frv. Í öðru lagi að það verði algjör breyting á þeirra kjarasamningum og þeir hreinlega semji beint við kirkjuna. Það kallar auðvitað á breytingu á fjárhag kirkjunnar og því að kirkjan taki sín fjármál í eigin hendur. Í þriðja lagi mætti hugsa sér sérstaka kjaranefnd fyrir presta. Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. að prestar eru þarna heil stétt sem heyra undir þessi lög. Og síðan er auðvitað fjórða leiðin sú að kveðið sé á um laun presta sem annarra í lögum. En það er auðvitað leið sem menn fóru áður fyrr og það kannski skýrist í umræðunni hvers vegna eða hvort menn telja þá leið vera ófæra nú.
    Það eru ýmsar leiðir til í þessu og þær þarf að skoða. Eitt vil ég nefna varðandi þetta frv. sem prestarnir hafa m.a. vakið athygli á og það er að í þessu frv. er beitt ýmsum hugtökum þegar verið er að skilgreina kaup og kjör. Hér er talað um launakjör, starfskjör, laun, önnur laun. Þetta þarf að mínum dómi að skilgreina. Mér finnst þetta svolítið óskýrt í lagatextanum hvað við er átt hverju sinni. Það kann vel að vera að fjmrn. hafi sínar skilgreiningar á þessu en ég get ekki annað en vakið athygli á því að prestarnir hafa gert athugasemd við 8. gr. þessa frv. þar sem greinin hefst á þessum orðum:
    ,,Eftirtaldir aðilar heyra undir úrskurð kjaranefndar um launakjör.`` --- Síðan kemur þar löng upptalning en í lokin segir, með leyfi forseta:
    ,,Þá skal kjaranefnd úrskurða um laun og starfskjör presta þjóðkirkjunnar, þ.e. sóknarpresta, sérþjónustupresta, prófasta og vígslubiskupa.``
    Það þarf auðvitað að vera ljóst hvað átt er við með þessu. Í athugasemd við 8. gr. er ekkert skýrt hvað átt er við. Þetta hefur vakið tortryggni presta og það ekki að ósekju því reynsla þeirra af samskiptum við ríkisvaldið er aldeilis orðin með endemum eins og rakið var í umræðunni um bráðabirgðalögin og þar af leiðandi þarf að vera ljóst hvað þarna er átt við. En eins og ég segi þá kannski skýrist í umræðunni hvað hér er á ferðinni. Nú veit ég auðvitað að störf presta og aðstæður presta eru mjög mismunandi eftir því hvar er á landinu. Í nokkrum prestaköllum búa þeir við hlunnindi og það meira að segja veruleg hlunnindi. Þeir eru reyndar mjög fáir sem þeirra njóta, er átt við það? Ætlar ríkisvaldið eitthvað að fara að skipta sér af þeim hluta launakjaranna, þ.e. það sem gerir prestakall að góðu brauði eða hvað er verið að fara? Hvað er átt við með þessu? Þessi hugtök þarf að mínum dómi að skýra betur og það þyrfti að koma fram í grg. eða í skýringu við einstakar greinar.
    Í 5. gr. frv. segir að Kjaradómur, og það gildir reyndar líka um kjaranefnd, skuli gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem hann ákveður og ég vildi gjarnan fá nánari skýringu á þessu. Þarna hljóta menn að vera að vísa til einhvers stiga eða er verið að hugsa um það að launamunur megi ekki vera meiri en eitthvað ákveðið eða hvað er verið að meina með þessu? Hvaða skilningur hefur verið lagður í þetta hugtak?
    Síðan á Kjaradómur að taka tillit til sambærilegra hópa og við höfum náttúrlega núna fengið þetta himinhrópandi dæmi um það þegar Kjaradómur tók aðeins inn í myndina sambærilega hópa en það var stöðvað af ríkisvaldinu. Það eru hér á borðum ýmissa þingmanna ljósrit úr Frjálsri verslun þar sem er að finna lýsingu á launakjörum þessara sambærilegu hópa, þ.e. stjórnenda í ríkisfyrirtækjum og á almennum vinnumarkaði, þeirra sem Kjaradómur á að taka mið af. Við erum náttúrlega hér að tala um svo himinhrópandi mun að það liggur við að maður falli í yfirlið við að sjá þessi ósköp sem þar koma fram. Að laun alþingismanna skuli vera um það bil fimmtungur af launakjörum forstjóra eða þriðjungur af launakjörum forstöðumanna opinberra stofnana er aldeilis með ólíkindum.
    Ég hlýt að koma hér að skipan kjaranefndarinnar. Mér þykir sem þar sé vald fjmrn. fullmikið og ég á sannast að segja erfitt með að skilja hugmyndina á bak við þessa tillögu. Þarna á fjmrh. að skipa tvo en forseti Alþingis einn. Það er sem sagt framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið sem á að koma að skipan þessarar nefndar. Reyndar mátti heyra það á hæstv. fjmrh. að hann er til í að skoða það að þarna gæti verið einhvers konar breytileg skipan nefndarinnar eftir því um hvaða hópa eða einstaklinga er verið að ræða, sérstaklega varðandi kirkjuna. En þar með komum við auðvitað að þessari grundvallarspurningu um kirkjuna og þau rök sem prestar hafa sett fram. Við hljótum að þurfa að skoða býsna rækilega hvort sú skipan sem hér er lögð til standist þá stöðu sem kirkjan hefur í íslenska stjórnkerfinu. Nú gerði ég allnokkra tilraun til þess að fá fram skilgreiningar á því hver staða þjóðkirkjunnar er í íslenska stjórnkerfinu en hún er býsna óljós lögum samkvæmt. Ég hef rætt við presta sem greinir á um það hvort kirkjan, hin íslenska kirkja, sé raunverulega þjóðkirkja eða hvort hún sé ríkiskirkja. Spurningin snýst um það hvaða

leyfi framkvæmdarvaldið hefur til að ákveða kjör kirkjunnar með þessum hætti. Menn skilja það þannig að á sínum tíma hafi verið gerður eins konar samningur milli ríkis og kirkju þar sem kirkjan lét í raun og veru eignir sínar eftir til ríkisins en ríkið tók að sér að greiða laun presta þar á móti. Margir prestar sem ég hef talað við skilgreina stöðu kirkjunnar þannig að hennar verndari sé forseti Íslands, biskupinn hennar yfirmaður en að öðru leyti hafi framkvæmdarvaldið ekkert yfir kirkjunni að segja. Aðra greinir á um þetta. Ég held að það ætti að verða næsta verkefni kirkjumálaráðherra og okkar hér á Alþingi að skera úr um þetta og kveða nánar á um skipan þjóðkirkjunnar í lögum. Ég get lýst því sem minni skoðun að ég vildi sjá sjálfstæði hennar sem mest.
    Það mætti fara hér út í langt mál varðandi skilning á hugtökunum þjóðkirkja og ríkiskirkja en ég ætla að láta það duga að segja að hugtakið þjóðkirkja er fyrst og fremst ,,theólógískt`` eða fræðilegs eðlis, kom fyrst fram árið 1822, en ríkiskirkja er skilgreind þannig að ríkið hafi beint yfir kirkjunni að segja. Það hafa margir prestar þessa lands ekki viðurkennt að sé raunin hér á landi enda sé það biskup sem hafi mest vald í málefnum kirkjunnar. Þetta eru mikilvægar spurningar, þetta er mikilvægt atriði og mikilægt að leysa þessa deilu við prestastéttina á friðsamlegan og ásættanlegan máta. Við munum að sjálfsögðu fara út í það verk í efh.- og viðskn.
    Mig langar líka til þess að spyrja hæstv. fjmrh. út í 11. gr. Það er ýmiss konar orðalag í frv. sem þarfnast nánari skýringar en mig langar að spyrja varðandi 11. gr., um skilning hans á því hvað felst í setningunni að kjaranefnd ,, . . .  úrskurðar hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega.`` Þarna þykir mér sem þessari nefnd sé gefið býsna mikið vald ef hún úrskurðar um það hvað tilheyrir starfinu og hvað ekki. Þá er hún farin að búa til eins konar starfslýsingar. Eins gleymdi ég því varðandi 9. gr. að þar á kjaranefnd líka að fá upplýsingar um aukastörf og hlunnindi og um þau störf sem menn kunna að gegna fyrir aðra. Ég hlýt að spyrja: Ef embættismenn ríkisins eru í öðrum störfum, sem þeir hljóta að gegna utan síns vinnutíma, hvað kemur það þessari kjaranefnd við eða hverju ætla menn að ná tökum á með þessu? Hvað er verið að gefa í skyn með þessu? Mér finnst þetta nokkuð dularfullt ákvæði. Ég get ekki séð að það komi kjaranefnd við ef menn eru í öðrum störfum svo framarlega sem þeir eru ekki að vinna þau í sínum vinnutíma hjá ríkinu. Þetta er óþarfa afskiptasemi sýnist mér.
    Ég ætla ekkert að segja af eða á um það hver afstaða mín er til frv. Þarna eru nokkuð margar eðlilegar breytingar en við hljótum að þurfa að átta okkur betur á því hver rökin eru fyrir þeim breytingum sem hér er verið að leggja til. Ég undirstrika það að mér þykir fjmrh. fá allt of mikið vægi og vald varðandi kjaranefndina þó ég dragi það ekki í efa að þeir sem þar sitja vinni samkvæmt lögum. Það getur ekki verið ætlunin að þeir sem sitja í þessari nefnd séu einhvers konar handbendi fjmrh. Menn verða að geta treyst því að nefnd sem þessi starfi á þeim lagagrundvelli sem þeim er ætlað og láti ekki segja sér fyrir verkum af ráðherrum. Síðast en ekki síst þarf að athuga stöðu prestanna alveg sérstaklega og þeirri meðferð sem þeir hafa hlotið hjá ríkinu og ríkisvaldinu verður að linna. Allt verður þetta tekið til athugunar í efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti. Ég endurtek að ég bíð spennt eftir því að fá þetta mál til nefndarinnar.