Kjaradómur og kjaranefnd

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 18:16:36 (412)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það fyrsta sem menn þurfa að gæta að þegar gerð er tillaga um að skipa málum með þeim hætti sem hér liggur fyrir er að átta sig á því hver staða Kjaradóms og kjaranefndar er innan hins þrískipta valds, hvort dómurinn fellur undir dómsvald eða hvort hann er á öðrum slóðum. Þá kom fram hjá síðasta ræðumanni að hann teldi að Kjaradómur félli undir framkvæmdarvaldið og kjaranefndin einnig, og ég tek undir þann skilning af hálfu hv. 6. þm. Norðurl. e. Það er minn skilningur að svo sé og má vitna til sambærilegs dæmis í formi yfirskattanefndar, hins vegar þarf að undirstrika þetta þannig að ljóst sé hvert menn eigi að áfrýja málum, úrskurðum nefndarinnar og dóms ef menn kjósa svo, og hvort menn yfir höfuð eiga einhvern úrskurðarrétt. Það er minn skilningur að menn geti skotið málum eða niðurstöðu þessara tveggja aðila, Kjaradóms og kjaranefndar, undir dómsvald eftir venjulegum leiðum sem um það gilda. Gildir þá bæði um efni niðurstöðunnar sem menn vilja áfrýja eða formleg atriði. Ég tel að það væri málinu til góðs og til að skýra það ef hæstv. fjmrh. upplýsti frekar um sjónarmið sitt um stöðu Kjaradóms og kjaranefndar innan hins þrískipta valds og möguleika aðila sem undir dóminn eða nefndina falla að áfrýja þeirri niðurstöðu ef þeir una ekki hvort sem þar er um að ræða að formi eða efni.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hvers vegna lagt er til nýtt frv. um Kjaradóm og kjaranefnd, það virðist nokkuð augljóst mál. Hæstv. núv. ríkisstjórn telur lífið óbærilegt undir núverandi lögum um Kjaradóm frá 1986 og þá væntalega í ljósi þeirra úrskurða sem féllu á sl. sumri í tveimur dómum.
    Mér finnst sjálfum sá rökstuðningur sem þarf ekki hafa komið fram til þess að taka ákvörðun um og fallast umsvifalaust á það að æskilegt sé að breyta um form í þessu efni og skipta Kjaradómi upp í tvennt, annars vegar Kjaradóm og síðan taka upp annað stig sem er enn tengdara framkvæmdarvaldinu og ráðherrunum en Kjaradómur, þ.e. kjaranefnd.
    Það sem einkum og sér í lagi er verið að slíta frá Kjaradómi er prestastéttin sem fékk úrskurð í sumar frá Kjaradómi og manni býður óneitanlega í grun að það sé afstaða ríkisstjórnarinnar að niðurstaða Kjaradóms þá hafi verið í alla staði óásættanleg og það sé ásetningur þeirra að stjórnvöld þurfi ekki að búa við hann áfram.
    Ég get alveg fallist á það hjá hæstv. ráðherra að ef menn á annað borð telja skynsamlegt að taka upp þennan kost þá sé rétt að skipta málum þannig upp að annars vegar heyri þeir undir Kjaradóm sem eru æðstu embættismenn þjóðarinnar og hins vegar þeir sem að jafnaði heyra undir framkvæmdarvaldið og eru skipaðir af því. En með þeim rökum sem hæstv. fjmrh. flutti hefur hann kippt fótunum undan þeirri tillögu sinni að setja presta undir Kjaradóm því mér er ekki kunnugt um að framkvæmdarvaldið skipi presta í starf. Ég óska því eftir frekari rökstuðningi við því af hálfu hæstv. ráðherra, þeirri tillögu sem hér liggur fyrir að prestastéttin falli undir Kjaranefnd.
    Í minnisblaði sem ég hef fengið og sent var hv. þm. Svavari Gestssyni, sem situr í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkju, og er frá formanni Prestafélags Íslands, er rækilega undirstrikað að þjóðkirkjan heyri ekki undir ríkið, hún sé ekki ríkiskirkja heldur þjóðkirkja. Því sé það óeðlilegt að þjónar kirkjunnar sæki kjör sín úr hendi framkvæmdarvaldsins.
    Þetta vildi ég að kæmi fram þannig að menn hefðu það til umhugsunar og væri ljóst að þessi viðhorf eru rækilega uppi af hálfu þeirra sem eiga að falla undir kjaranefnd samkvæmt því sem ég rakti hér áðan.
    Auðvitað er það dálítið vandasöm sambúð hjá þjóðkirkju annars vegar og ríki hins vegar þegar menn skilgreina þjóðkirkju sem sjálfstæða stofnun með forræði eigin mála í sínum höndum og innra starfs en sækir fé frá ríkisvaldinu til að halda starfinu uppi. Mér fannst á sínum tíma þegar sú breyting var gerð að færa ákvörðun um kjör presta undir Kjaradóm að þar væri um að ræða ásættanlega leið sem væri vert að fara og a.m.k. ekki að hafna fyrr en að fullreyndu. Önnur leið væri sú ef menn telja að leið af þessu tagi geti ekki gengið upp þá sýnist mér að menn séu komnir í þá stöðu að velta fyrir sér af fullri alvöru hvort sé komið að því að þjóðkirkja og ríki skiljist að fullu að og þjóðkirkjan taki í sínar hendur þessi mál og fái þá til þess tekjustofna. Þetta er leið sem vissulega er vert að hafa í huga og hefur nýlega verið reifuð í blaðagrein af einum sóknarpresti og ég tel allrar athygli verða. Reyndar er ég á þeirri skoðun að ef ekki næst friðsamleg sambúð milli ríkis og þjóðkirkju um ákvörðun kjaramála með Kjaradómi eða álíka aðferðum sé fátt annað eftir en að menn ákvarði þennan aðskilnað. (Gripið fram í.) Já, og leigukjör prestsíbúða. Fyrst hv. 6. þm. Norðurl. e. tekur það upp, þá vil ég nefna að það er skoðun mín, hvort sem menn ræða um launakjör presta eða annarra starfsstétta í þjóðfélaginu að menn eigi að hafa umsamin kjör ofan á borðunum. Ekki eigi að vera við lýði tvöfalt launakerfi. Slíkt kerfi sem hefur verið við lýði og við sáum reyndar opnast dálítið fyrir okkur með úrskurðum Kjaradóms, er fyrst og fremst til þess fallið að halda niðri kjörum láglaunafólks. Það hlýtur því að vera markmið þeirra sem berjast fyrir því að bæta hag láglaunafólks að afnema hið tvöfalda launakerfi sem viðgengst í þjóðfélaginu.
    Ég vil enn fremur segja um prestsbústaðina að sú staðreynd að menn sækja sér kaupauka að nokkru leyti með lágri húsaleigu endurspeglar kaup og kjör þeirra sem í hlut eiga. Það er viðleitnin þegar launin eru of lág, kjörin of kröpp, þá fara menn einhverjar leiðir til þess að bæta sér það upp.
    Mér finnst eðlilegra að það sé gert með hækkun kaupsins sjálfs, kauptaxta, þannig að menn hafi það fyrir sér í stað þess að vera að semja um einhverjar hliðarleiðir sem færa mönnum aukna peninga í vasann. Þetta er almenn afstaða mín til þessara mála og gildir jafnt um þetta mál sem önnur sem menn geta minnt mig á í þessum sal.
    Hvað varðar frv. sjálft þá er ég nokkuð efins um að menn nái fram einhverri annarri niðurstöðu en kom fram sl. sumar í niðurstöðum Kjaradóms. Ef maður ber saman þau lög sem Kjaradómur dæmdi eftir sl. sumar og þetta frv. þá er breytingin svo lítil að það er niðurstaða mín að menn megi allt eins búast við því að úrskurðir væntanlegs Kjaradóms og kjaranefndar verði í samræmi við þá dóma sem féllu á sl. sumri. Mér sýnist því að menn séu þá að geyma það mál til síðari tíma og fá það aftur framan í andlitið þegar að því kemur.
    Ég nefni sem dæmi 5. gr. sem er forskriftin fyrir forsendum Kjaradóms eða því sem hann á að leggja til grundvallar þegar hann á að ákvarða kjör þeirra sem hann á að dæma um. Ef maður ber saman 5. gr. frv. og 6. gr. núgildandi laga, eins og þau voru áður en bætt var við þau í sumar, þá er eini munurinn sá að í 5. gr. er bætt við einni setningu: ,,Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.`` Þetta er eina viðbótin sem er við þá forskrift sem var í gildi þegar Kjaradómur kvað upp sinn úrskurð í sumar.
    Hann hefur því í raun og veru þrjú atriði til viðmiðunar. Það er í fyrsta lagi að laun eða starfskjör séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgða. Í öðru lagi innbyrðis samræmi í starfskjörum. Í þriðja lagi á að taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.
    Virðulegi forseti. Þegar væntanlegur Kjaradómur kveður upp úrskurð samkvæmt þessu frv. getur tvennt gerst. Annaðhvort sjáum við svipaðan úrskurð og við sáum á sl. sumri eða við sjáum úrskurð um nánast engar breytingar frá því sem verið hefur og þá byggt á síðustu setningunni sem bætt er við, að taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.
    Mér fannst vanta inn í framsöguræðu hæstv. fjmrh. að hann gerði grein fyrir hvernig hann sæi fyrir sér að dómurinn gæti samræmt þessar þrjár forsendur sem hann á að starfa eftir án þess að komast að svipaðri niðurstöðu og sl. sumar eða þá að breytingin verði engin sem máli skiptir.
    Ég vil líka nefna í sambandi við 10. gr. um kjaranefndina að þegar kjaranefnd á að ákvarða launakjör, þá á hún að hafa sem forsendu innbyrðis samræmi í starfskjörum og þau séu í samræmi við launin í þjóðfélaginu o.s.frv. og í þriðja lagi að samræmi sé á milli þeirra og þeirra launa hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga eða Kjaradóms. Ef við tökum prestastéttina sem á að falla undir kjaranefnd og þar með forskrift 10. gr., þá er síðasta atriðið samræmið milli þeirra og þeirra launa hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga eða Kjaradóms. Það er óvirkt því það er væntanlega enginn prestur í starfi hjá ríkinu á grundvelli kjarasamnings eða Kjaradóms þannig að kjaranefndin verður þá að kveða upp úrskurð um kjör presta á grundvelli tveggja atriða, innbyrðis samræmis og í öðru lagi samræmis við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar sem er í raun og veru það sama og Kjaradómur hafði sem forskrift sl. sumar.

    Fyrir þá sem eiga að vinna eftir þessum lögum er nauðsynlegt að hafa nánari skilgreiningu á því hver viðmiðunarhópurinn er og ég spyr hæstv. fjmrh.: Hverjir eru taldir sambærilegir við presta með tilliti til starfa og ábyrgðar í þjóðfélaginu? Hvaða hópar eru samanburðarhópar? (Gripið fram í.) Já, já, ég get alveg orðið við ósk hæstv. fjmrh. og spurt hann um það hvaða hópar séu samanburðarhópar okkar alþingismanna ef hæstv. ráðherra vill koma því á framfæri og mér finnst alveg sjálfsagt að það verði upplýst hér.
    Eitt finnst mér að menn verði að íhuga dálítið þegar menn leggja upp með þá forsendu að gæta samræmis við sambærilega hópa í þjóðfélaginu að það er ekkert sjálfgefið að launaþróun sambærilegra hópa í þjóðfélaginu sé eðlileg. Ég sé ekki að launaþróun t.d. forstjóra í ýmsum fyrirtækjum sem hafa nú verið til umfjöllunar, laun þeirra m.a. í frjálsri verslun, séu neitt eðlileg þróun sem menn ættu að binda í lögum að taka eigi mið af. Það er fjarri því að sú þróun, sem verið hefur á síðustu missirum í æðstu toppum þjóðfélagsins og minnir um margt á viðlíka þróun erlendis sem stundum er nefnd svokölluð forstjóragræðgi þar sem háttsettir menn hjá einkafyrirtækjum og jafnvel hinu opinbera sækja sér hærri laun í krafti stöðu sinnar og það jafnvel óháð afkomu og stöðu stofnunar eða fyrirtækis sem þeir starfa hjá, að þetta sé eitthvert lögmál sem menn eigi að hengja sig í. Þannig hef ég efasemdir við það atriði að beintengja fortakslaust laun þeirra sem falla undir Kjaradóm og kjaranefnd við einhverja samanburðarhópa.
    Virðulegi forseti. Ég gat um það áðan að ég teldi ekki sjálfgefið að breyta þessu kjaradómsformi. Það hefði í sjálfu sér ekki reynt þannig á það, a.m.k. ekki gagnvart þeim sem síðast voru settir undir Kjaradóm, þ.e. prestastéttina, að menn ættu að fallast á breytingar án frekari röksemdafærslu. Ég minni á að á síðasta þingi fyrir þingkosningarnar 1991 var samþykkt frv. til laga sem færði presta undir Kjaradóm og það var gert með samþykki allra þingflokka á Alþingi og samkvæmt Alþingistíðindum hefur verið alger samstaða um það meðal allra á þingi um að gera þessa breytingu. Þessi breyting er auðvitað gerð á tilteknum forsendum. Það eru ákveðin rök fyrir henni. Það þarf því sérstök rök til að hverfa frá þessari skipan mála. Og ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. rökstyðji þá tillögu sína að færa prestastéttina frá Kjaradómi. Ég er ekki að segja að ég muni hafna þeim rökum eða ekki fallast á það fyrirkomulag en ég hef vakið athygli á afstöðu þeirra sjálfra sem eru þolendur í þessu máli og afstöðu Alþingis fyrir rúmu ári sem vildi hafa þennan hátt á og tel því eðlilegt að fá fram sérstakan rökstuðning fyrir breytingunni. En almennt vil ég segja um þetta frv. að ég tel eðlilegt að það verði athugað vandlega í nefnd og að menn reyni að koma sér saman um breytingar á núverandi skipan mála fyrst það er ljóst að ekki er sátt um það og að þeir miði störf sín að því að ná einhverju viðunandi samkomulagi milli flokka hér á þinginu.