Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 23:44:21 (453)

     Árni R. Árnason :
    Frú forseti. Um þetta dagskrármál verður að segja að það er stórt, viðamikið og flókið. Það snertir flesta eða alla þætti athafnalífs í landinu og mun skipta miklu um efnahag okkar og lífskjör um næstu

framtíð. Á því eru margar hliðar. Þetta hefur vissulega verið tekið fram í umræðunni en í einum hluta hennar staðhæfði hv. 8. þm. Reykn. að ég hafi haldið fram þeirri blekkingu í blöðum á Suðurnesjum að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði muni leysa vanda atvinnulífsins. Það eru stór orð, en hann fór þar með rangt mál eða hefur ekki skilið það sem eftir mig hefur verið birt.
    Ég hef hins vegar ítrekað tjáð þá skoðun mína að með samningnum munu samkeppnisskilyrði atvinnugreina okkar batna að mun og enn fremur að með honum bjóðist okkur tækifæri til að fullvinna sjávarfang meira en hingað til og flytja þannig út vaxandi verðmæti í formi neytendavöru í stað lítið unnins eða óunnins hráefnis. Með samningnum munu breytast verulega þeir tollar sem við greiðum nú af afurðum okkar til Efnahagsbandalags Evrópu, þar er okkar langstærsti útflutningsmarkaður, þangað höfum við um árabil flutt frá um 60% og upp í nær 70% af útflutningsvörum okkar og fer það hlutfall vaxandi. Ástæða þess er augljós, þar fást betri verð fyrir vörur okkar en á öðrum mörkuðum.
    Af vöruútflutningi okkar undanfarin ár, sama tímabil, eru sjávarafurðir frá 70% og upp í 80% og þar af höfum við flutt um 70% af sjávarafuðrðum til Evrópubandalagsins.
    Árið 1990 greiddum við sem næst 2,1 milljarði í tolla af sjávarafurðum til EB, en með samningnum falla 3 / 4 hlutar þess niður strax á fyrsta samningsárinu, 1. jan. 1993, ef okkur og öðrum samningsaðilum tekst að staðfesta samninginn. Í ársbyrjun 1997 munu þessir tollar fallnir niður að 9 / 10 hlutum.
    Fyrir fáum vikum kom fram að rekstrarframlag í sjávarútvegi í landinu til fjármagnskostnaðar og afborgana muni á ársgrundvelli vera yfir 7,5 milljörðum króna. Því hefur verið haldið fram að við munum ekki njóta þessara fyrrnefndu tollalækkana, neytendur í Evrópu hafi greitt þeim mun hærra verð fyrir vörur okkar og munu krefjast hennar í sinn hlut. Ég álít þetta á misskilningi byggt, ég fæ ekki séð að við stjórnum því hvaða verð neytendur í Evrópu borga fyrir vörur okkar, þær eru þar í samkeppni við önnur matvæli, aðrar afurðir, og neytendur hafa um að velja hvaða vöru og hvaða verð þeir vilja greiða. Verðið ræðst því á markaði þar sem samkeppnisforsendur framboðs og eftirspurnar ráða.
    Þess vegna álít ég að við tollalækkun muni útflytjendur, framleiðendur þessara afurða hér heima fá í sinn hlut og fyrir sinn snúð, hækkað verð. Tollalækkunin mun koma í hlut okkar og hún mun strax á fyrsta ári nema um 20% hækkun á framlegð þessarar starfsemi. Hún mun hækka að einum fimmta. Þá þegar hlýtur þetta að bæta samkeppnisskilyrði sjávarafurðanna verulega og bæta afkomu sjávarútvegsins og mun ekki vanþörf á. Ég hef sett fram þá skoðun mína að með þessum tollalækkunum opnist færi á að flytja hingað heim vinnslu íslenskra afurða sem hefur farið fram erlendis að undanförnu, í Evrópu. Sem dæmi má nefna að íslensk sölusamtök hafa um árabil flutt blautverkaðan saltfisk til þurrkunar og annarrar vinnslu í Frakklandi fyrir neytendamarkað EB. Þar eru nú á þeirra vegum starfandi 100--130 manns að jafnaði. Við fiskiðnað okkar sem hefur nú hér heima nær horfið á sama tíma, en fyrir nokkrum árum voru hér á landi álíka margir starfandi við sömu störf. En þau eru nú flutt til Frakklands. Ég vænti þess að þau muni koma hingað aftur en ástæðurnar fyrir þessu má rekja til viðskiptaforsendna, samkeppnisskilyrða, tolla. Það hljóta að verða miklar breytingar á afkomumöguleikum saltfiskverkunar sem á næsta ári fær niðurfellda tolla sem nemur einum milljarði. Þess vegna vænti ég að þetta muni í fyllingu tímans geta flust hingað heim.
    Ég hef enn fremur sett fram þá skoðun mína að með samningnum opnist okkur mikil færi til nýrrar fullvinnslu á neytendavörum og sjávarfangi og veruleg aukning muni verða á verðmæti sjávarafurðanna frá því sem nú er. Nú fer mikill hluti útfluttra sjávarafurða í vinnslu erlendis í Evrópu, einkum ísfiskur, heilfrystur fiskur, blautverkaður saltfiskur sem ég nefndi áðan, jafnvel fryst flök. Við erum enn útflytjendur hráefnis.
    Ég er viss um að ef okkur tekst að fóta okkur á framleiðslu neytendavöru, fullunninnar vöru, þá munum við hafa miklu betri afkomu af þessari meginatvinnugrein okkar. Þessi samningur gefur okkur færi á því.
    Ég hef nokkuð rætt um það sem ég tel vera líkur á bættum starfsskilyrðum og sóknarfærum í íslenskum sjávarútvegi. En lækkun tolla bætir samkeppnishæfni hans og gefur færi á að sækja meiri verðmæti með þeirri framleiðslu sem ég hef nefnt. Hún verður aukin umsvif í sjávarútvegi og í fiskvinnslu og þess vegna veruleg aukning á vinnuaflsnotkun í þeirri grein og hvað þýðir það annað en fleiri atvinnutækifæri? Það er mín bjargföst sannfæring að þessi sóknarfæri opnist með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði en það er atvinnulífsins, fyrirtækjanna, athafnamanna og frumkvöðla að grípa tækifærin, nýta sóknarfærin. Ég treysti þeim til þess.
    Í sjávarútvegi, iðnaði og ferðamannaþjónustu vænta frumkvöðlar þess að við, löggjafinn, höfum einurð til að taka upp það víðtæka viðskiptasamstarf við aðrar Evrópuþjóðir sem samningurinn leggur grundvöll að. Frumkvöðlar sem lagt hafa drög að nýrri starfsemi, svo sem þjónustu heilsuhótela og baðstaða fyrir almenna ferðamenn og vanheila borgara annarra landa bíða þess að þeim opnist markaðir Evrópu sem eru langmikilvægastir í slíkri þjónustu og þeir munu opnast með samkvæmni í reglum og gæðakröfum sem samningurinn býður upp á. Einnig þessum starfsgreinum opnar samningurinn ný sóknarfæri og með nýtingu þeirra eflast þær til nýrra átaka, til nýrrar starfsemi með eðlilegri von um aukinn hagnað og betri afkomu. Það gefur hins vegar auga leið að til þarf markaðsstarf og fleira sem mun kosta fjármuni en þeim fjármunum verður vel varið til þess að auka tekjur og bæta hag.
    Auðvitað fylgja hættur samkeppni og nýmælum og aldrei verður fyrir það komist með öllu að einhverjum verði fótaskortur. En á öðrum sviðum, sem samstarfið nær til, opnast okkur einnig betri færi en

að undanförnu, t.d. í menningar- og menntamálum þar sem við fáum aðgang að víðtækum samstarfsverkefnum um víðtækt þróunarstarf sem vænta má að leiði fram nýjungar og tækniframfarir, einnig hér á landi.
    Í umhverfismálum opnast okkur samskipti og samstarf um þau viðfangsefni sem líkleg eru til þess að skipta mestu um lífskjör okkar og lífsgæði í framtíðinni auk þess sem á því sviði munu mótast þeir mælikvarðar sem um síðir munu gera orkulindir okkar samkeppnishæfari en þær eru nú með kröfum um hreina orkugjafa eða hugsanlega að skattleggja hina sem menga.
    Ef ekki vegna efnahagsskilyrða þá vegna umhverfishagsmuna skiptir okkur gríðarlegu máli að við veljum okkur ekki það hlutverk að vera hornkerlingar í samfélagi og samstarfi þjóðanna.
    Ég álít að hlutverk löggjafans sé að móta atvinnulífinu reglur um afnot þess af auðlindum og framlagi til starfa og þarfa samfélagsins og ekki hvað síst leikreglur um samskipti þess og samkeppni. Þær reglur skapa því starfsskilyrði en með gerð þessa samnings verða atvinnulífi okkar sköpuð ný skilyrði með mótun leikreglna um samskipti og samkeppni við erlenda keppinauta á grundvelli jafns réttar til umsvifa. Meginatriði samningsins eru ákvæði um samkeppnisreglur og um eftirlitsstofnun og dómstól til að framfylgja þeim.
    Mikið hefur verið rætt um það hvort þessi ákvæði varði sjálfstæði og fullveldi okkar ásamt ákvæðum um hvernig fara skuli með gerð nýrra reglna og hvernig þær fái gildi á svæðinu. Ég ætla ekki að blanda mér mjög í þá umræðu að svo komnu. Þó skal ég geta þess að ég tel samkvæmt framansögðu að með samningnum sé skapaður nýr réttur. Lögsaga íslenskra stofnana, dómsvalds og framkvæmdarvalds nær aðeins til hluta þess, þ.e. til okkar lands og af þeim sökum tel ég það sama eiga við og gilt hefur um árabil hvað varðar úrskurði og dóma norrænna dómstóla yfir íslenskum þegnum og lögaðilum. Hér hefur komið fram að þeir eru taldir komnir undir lögsögu þeirra með gerðum sínum í lögsögu réttarins þó ekki sé íslenskur.
    Hvað varðar tilurð nýrra reglna og laga sýnist mér einnig hið sama eiga við og gildir í raun samkvæmt öðrum samningum okkar við aðrar þjóðir, hvort sem þeir eru tvíhliða, fjölþjóðlegir eða alþjóðlegir. Svo margir þeirra samninga hafa fært íslenskum þegnum rétt sem ekki var áður skilgreindur í okkar lögum eða erlendum þegnum og lögaðilum rétt hér á landi. Nokkur dæmi eru þess að lög okkar hafi ekki reynst standast þá samninga og hefur lögunum þá verið breytt en ekki samningunum. Við höfum breytt lögum af þeim sökum án frumkvæðis Alþingis og enn bíða slík mál sem varða rétt bæði íslenskra og erlendra borgara og lögaðila hér á landi og kalla á að við breytum lögunum. Ég sé ekki mun á þessu og því sem vænta má í löggjafarstarfi vegna væntanlegrar framþróunar hins Evrópska efnahagssvæðis. Ég tel þess vegna að staðfesting þessa samnings krefjist ekki breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.
    Það sem ég hef sagt hér að framan eru meginástæður mínar fyrir því að mæla með staðfestingu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Ég hef vissulega ekki rætt mörg atriði sem verðskulda umræðu en læt samt sem áður hér staðar numið. Ég nefni þó að lokum að varla getum við vænst þess í samningum að fá fram allar okkar kröfur. Það væru þá varla virðulegir viðsemjendur hinum megin borðsins. Ég hlýt að taka fram vegna þess að hér hefur verið minnst á að landsmenn séu í vafa um ávinning og gildi, kosti og galla þessa samnings. Eðlilega eru þeir óráðnir og líta til okkar. En þeir eru líka í vafa um eftirtalin atriði sem ég tel þá eiga rétt á svörum við í ljósi þess hversu lengi samningamálin hafa verið til umfjöllunar hjá hæstv. ríkisstjórnum, hæstv. ráðherrum og hv. utanrmn. Alþingis:
    1. Hvers vegna var ekki fyrr en nú lagt fram frv. nokkurra hv. þm. um að breyta stjórnarskránni með tilliti til þátttöku okkar í samningum við önnur ríki og með öðrum ríkjum?
    2. Hvers vegna leggur Alþb. fyrst nú fram hugmynd um tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið þegar hv. þm. þess höfðu áður gengið í móti slíkri hugmynd?
    3. Hvaða starfsskilyrði atvinnuvega, hvaða lífskjör ætla þeir að bjóða landsmönnum sem mæla nú fastast gegn staðfestingu þessa samnings?
    Ég hygg að landsmenn eigi nokkra kröfu á að fá svör við slíkum spurningum. Aðrir kostir hljóta að skipta þá máli þegar þeir ætla að taka afstöðu til málsins.