Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:45:12 (556)


     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru afar skilmerkileg að þessu sinni og er vert að þakka alveg sérstaklega fyrir það sem vel er gert. Það er ljóst að nú fyrst er að reyna á Ofanflóðasjóð. Það eru að koma inn núna viðamikil verkefni sem gera það að verkum að maður veltir því fyrir sér hvort að sjóðurinn sé nægilega öflugur og tekjustofnar hans nægilega digrir til þess að geta staðið undir verkefnum sínum í náinni framtíð í ljósi þeirra verkefna sem þegar eru komin fram og ég þykist vita að fleiri séu á leiðinni.
    Ég vil t.d. benda á það að Flateyri, sem er hér með framkvæmd upp á 54 millj., er ekki stærra sveitarfélag en svo að árstekjur þess eru um 40 millj. kr. Það er því alveg ljóst að þó að Ofanflóðasjóður greiði 80% af 54 millj. kr. þá eru eftir á annan tug milljóna sem þetta sveitarfélag verður að reiða fram úr eigin sjóðum, eða ákaflega stór hluti af árstekjum sveitarfélagsins af skatttekjum.
    Ég vil upplýsa það líka að ég hreyfði þessu atriði í svokallaðri sveitarfélaganefnd sem hæstv. félmrh. skipaði og ég hygg að ráðherra sé kunnugt um að þetta mál hafi þar verið til umræðu. Þar hefur verið rætt um það að gera tillögu um að hækka hlut Ofanflóðasjóðs í framkvæmdum úr 80% í 90%, og ég hygg að ég brjóti engan trúnað þó að ég upplýsi að þessar hugmyndir séu á ferðinni.