Húsgöngu- og fjarsala

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 15:07:35 (604)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að sumt af því sem er í frv. sé til bóta og mér finnst það vera það. En ástæðan fyrir því að ég tek til máls núna er sú að ég vil beina því til nefndarmanna að skoða þetta vel með tilliti til neytenda að því leyti sem varðar ónæði á heimilum, þ.e. friðhelgi heimilisins. Ég hef þá skoðun að lög um húsgöngusölu munu verða litin þeim augum af þeim sem hana stunda að þau veiti þeim meiri rétt til að banka upp á hjá fólki og ónáða það. ( Gripið fram í: Guð hjálpi okkur þá.) Já, guð hjálpi okkur þá. Mér finnst að það þurfi að skoða hvort ekki eigi að vernda fólk á einhvern hátt fyrir þessu, t.d. með því að taka það fram, svo ég segi það sem mér dettur í hug hér í stólnum, við sínar útidyr að maður kæri sig ekki um að vera ónáðaður af sölumönnum og þá séu þeir lagalega skyldugir til að virða það.
    Ég hef trú á því að kannski komi að því að neytendur fái frið fyrir sölumönnum. Þannig er það í dag að svona sölustarfsemi fer ekki fram á venjulegum verslunartíma heldur á maður yfirleitt von á fólki sem vill koma sínum vörum á framfæri á öllum öðrum tímum, oftast nær er ég a.m.k. ónáðaður eftir kvöldmat með svona tilboðum.
    Ég veit satt að segja ekki hvernig á að bregðast við annarri tegund sölumennsku. Það eru sífelldar símhringingar með alls kyns tilboðum og þar sem menn kurteisi sinnar vegna geta ekki kannski lagt á heldur verða að hlusta á langa romsu af útlistunum þess sem í símanum er um hvað það væri sniðugt hjá viðkomandi að kaupa eitthvað eða gerast áskrifandi að einhverju blaði. Mér finnst þetta satt að segja vera gengið langt úr hófi og ég held að menn ættu að velta því vandlega fyrir sér, ef menn setja á annað borð lög eða reglur til verndar neytendum í svona skyni, hvort menn geta ekki með einhverjum hætti komið þar inn möguleikum til að fólk geti beðist undan því að vera sífellt ónáðað af sölumönnum.