Verðbréfaviðskipti

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 15:40:39 (610)

     Guðrún Helgadóttir :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfáar athugasemdir og spurningar í sambandi við þessi tvö mál. Ég vil

fyrst vekja athygli á því að ég er mjög sammála því að um þessi mál sé rætt bæði í einu og satt að segja undrast að ekki skuli hafa verið látið nægja eitt frv. Ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar í raun og veru að hafa þau tvö en það kann að vera meira smekksatriði en það skipti verulegu máli.
    Ef við tökum fyrst fyrir 11. málið þá hvarflar það að manni hvort þess sé gætt að samkeppnisaðstaða íslenskra verðbréfafyrirtækja sé sambærileg og í aðildarríkjunum að Evrópska efnahagssvæðinu. Og þá hnýt ég strax um það að ég held að óvenjulegt sé að slík fyrirtæki hafi ekki leyfi til lánastarfsemi. Nú kann að vera að þetta sé ekki rétt hjá mér og ég skal þá taka leiðréttingu en grun hef ég um að erlend verðbréfafyrirtæki í Evrópu hafi almennt leyfi til að stunda lánastarfsemi. Og þá hlýtur sú spurning að vakna hvort þau hafi sömu samkeppnisaðstöðu hér á landi og þau hafa erlendis.
    Aðra athugasemd langar mig að gera við 2. gr. frv. eða a.m.k. setja fram þá spurningu hvert hlutverk bankaeftirlits Seðlabankans sé. Ég fæ ekki betur séð en þegar viðskrh. veitir leyfi til verðbréfamiðlunar þá sé, eins og segir seinast í greininni, ,,áður en leyfi er veitt skal leitað umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands``. Síðan í 31. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með starfsemi verðbréfamiðlara og verðbréfafyrirtækja.``
    Og í 38. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra getur falið bankaeftirlitinu veitingu leyfa til verðbréfamiðlunar skv. II. kafla og starfsleyfa verðbréfafyrirtækja skv. III. kafla, afturköllun leyfa skv. IX. kafla svo og setningu reglna sem ráðherra er falið að setja samkvæmt lögum þessum.``
    Mér finnst einhvern veginn að þarna hafi bankaeftirlitið allt vald í sínum höndum, bæði sem leyfisveitandi, eftirlitsaðili og í raun og veru dómari í málefnum viðkomandi fyrirtækis og vil því spyrja þann hæstv. ráðherra, sem gekkst fyrir því að gerður væri greinarmunur á hinu þrískipta valdi í þjóðfélaginu, hvort þarna sé ekki ástæða til að gera einhvern greinarmun á völdum bankaeftirlitsins með allri virðingu annars fyrir því.
    Í 17. gr. er komið að því vandamáli hvort verðbréf í almennu útboði skuli skráð á opinberum verðbréfamarkaði samkvæmt reglum sem þar gilda um skráningu verðbréfa, þ.e. spurningin um hvort það skuli vera lögbundið að verðbréf séu skráð. Og ég rek augun í að Eiríkur Guðnason hefur gert athugasemd við þetta í séráliti í fskj. og telur að það ættu að vera hagsmunir fyrirtækjanna sjálfra eða verðbréfaeigendanna að þau verði skráð og það sé þá til marks um að þau séu einhvers virði. Um þetta treysti ég mér ekki til þess að fella neinn dóm en væri forvitin að vita hvaða þýðingu þetta hefur. Ég hef satt að segja ekki nógu mikið vit á þessu til þess að gera mér grein fyrir því hvort það sé eðlilegt að skráningin sé lögboðin.
    Í 20. gr. þykir mér orðalagið ,,í eðlilegum tengslum`` aðeins óskýrt, ég held að ég sé nú búin að fá skýringu á því en lög eiga helst að vera þannig að maður skilji þau án þess að leita skýringa, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Verðbréfafyrirtæki er því aðeins heimilt að vera meðeigandi eða þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi að slík þátttaka sé í eðlilegum tengslum við starfsemi verðbréfafyrirtækisins og hafi ekki áhrif á óhlutdrægni þess, . . . `` Ég hef fengið þá skýringu að hér sé einungis um að ræða sams konar fyrirtæki, banka, lánastofnanir af öllu tagi og fjármögnunarfyrirtæki og bið hæstv ráðherra að leiðrétta það ef þetta er rangt hjá mér. En alla vega þykir mér þetta orðalag ,,í eðlilegum tengslum`` segja lesanda frv. afar lítið.
    Síðan vil ég bara ítreka það sem ég reyndar gerði að umræðuefni áðan. Í VII. kafla er talað um ársreikninga og endurskoðun og ég tel að afar nauðsynlegt sé í sambandi við öll þessi fjölmörgu mál að aðlagaðar verði reglur um ársreikninga og endurskoðun og uppgjör fyrirtækja til samræmis við það sem annars staðar gerist. Það sýnir hvernig ástandið er hér í landi þegar það getur verið álitamál hjá sjálfum ríkisendurskoðanda hvort skila eigi reikningum samkvæmt greiðslugrunni eða rekstrargrunni þannig að þá hljóta ýmsir aðrir að vera í vandræðum með það. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að þessi mál verði skoðuð í sambandi við öll þessi nýju frv. um efnahagsmál.
    Annað hef ég ekki í fljótu bragði getað séð í 11. málinu sem ástæða væri til að gera athugasemd við. Ég vænti þess og vil jafnframt spyrja að því hvort þessi frv. hafi ekki örugglega farið til umsagnar hagsmunaaðila, verðbréfafyrirtækja af öllu tagi og hvort tillit hafi ekki verið tekið til athugana sem þar komu fram. Ég geri satt að segja ráð fyrir að svo hljóti að hafa verið, en ekki sakar að fá það staðfest. En ef ég tek saman það sem ég hef verið að gera athugasemdir við þá er fyrst þessi spurning um sömu samkeppnisaðstöðu íslenskra verðbréfafyrirtækja og annarra innan Evrópska efnahagssvæðisins ef af verður og hvort bankaeftirlitið hefur ekki einum of fjölskrúðugt vald gagnvart þessum fyrirtækjum.
    Að síðustu vil ég benda á ýmis ákvæði sem vara menn við að fara galgopalega með trúnaðarupplýsingar. Þegar þessi ákvæði eru lesin hlýtur maður að velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að beita allt of miklum trúnaði um hag þeirra fyrirtækja sem menn eru að reyna að fá annað fólk til að fjárfesta í. Ég held að það þurfi ekki nema lesa Pressuna í dag og reyndar eina Pressu á viku til þess að komast að hvers konar subbuskapur á sér stað í viðskiptum í þessu þjóðfélagi og hvernig menn geta haft fé af samborgurum sínum eina vikuna, orðið gjaldþrota daginn eftir og stofnað nýtt fyrirtæki og haldið áfram að arðræna fólk á allan hátt og enginn virðist fá rönd við reist. Þar segir frá einum ágætum Íslendingi sem hélt áfram að

reka fyrirtæki sitt úr tugthúsinu, kallaði starfsliðið bara á morgnana á fund og var að afplána gamla dóma á meðan hann var að afla sér nýrra því að allt virtist vera jafnólöglegt sem hann gerði í tugthúsinu. Ekki batnaði hann við það. Þannig að maður spyr sig: Hvernig í heimsins ósköpunum er hlutafélagaskráningu háttað í þessu landi? Það virtist hver sem er getað stofnað hvert hlutafélagið á fætur öðru þótt þetta séu margdæmdir sakamenn. Virtir bæjarfulltrúar og framkvæmdamenn í þjóðfélaginu láta sig ekki muna um að hafa tugi milljóna af virtum fyrirtækjum í landinu, flýta sér að skipta um nafn á fyrirtækinu og kaupa af sjálfum sér gamla fyrirtækið eða hvernig í ósköpunum sem menn gera þetta nú allt saman. En einhvern veginn fær þetta allt saman að viðgangast og það virðist vera orðin einna helst von um að ekkert verði gert í málum þeirra sem mest hafa af sér brotið að þeir hjálpi til þess að ná í aðra sem eru kannski eilítið skárri og aðstoða þar með lögregluna til þess að koma höndum yfir þá. Og maður spyr sig: Í hvers konar bananalýðveldi býr maður? Hvar er eftirlit með hlutum eins og þessum? Síðan er gengið að heiðvirðu fólki sem hefur verið að reyna að vinna að því að gera atvinnulífið í landinu fjölskrúðugra með kostnaðarsömum tilraunum. Þær hafa ekki alltaf heppnast en þær hafa bæði veitt fólki vinnu og kannski von um betra líf í sinni heimabyggð. Það stendur ekki á því að ganga að þessu fólki. Af hverju er þessu fólki ekki bent á að kaupa fyrirtækið af sjálfu sér og láta það heita eitthvað annað og komast þannig hjá ábyrgð á því sem það er að gera? Ég vil mælast til þess að meðan sótt er af ofurkappi að breyta löggjöf íslensku þjóðarinnar í öllum mögulegum og ómögulegum efnahagsmálum, þá verði ofurlítið litið til þess sem er svo að gerast allt í kringum okkur. Því að ég vil bara spyrja: Vill okkur einhver í Evrópska efnahagssvæðið? Ef menn litu í kringum sig í íslensku efnahagslífi þá trúi ég því satt að segja ekki. Ég held að þeir mundu flýta sér að losna við okkur.