Íslenskt ríkisfang vegna EES

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:51:19 (622)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mig langar að gera örstutta athugasemd. Þetta er eins konar bandormur, örlítill bandormur sem hér kemur frá hæstv. iðn.- og viðskrh. Það er annars vegar um að ræða grein varðandi verslunaratvinnu og hins vegar varðandi iðnaðarlög. Í sjálfu sér hefði kannski átt að vísa 1. gr. til efh.- og viðskn. og 2. gr. til iðnn. Ég ætla að gera athugasemd við það að iðnaðarlögin heyra ekki undir okkur í efh.- og viðskn. en við munum að sjálfsögðu taka þetta fyrir ef aðrir teljast ekki betur til þess færir.
    Mig langar líka til að gera athugasemd varðandi formið á þessum lögum. Í 1. gr. er vísað í fjórar tilskipanir frá EB. Ég var að reyna að leita að þessum tilskipunum en finn þær ekki í mínum plöggum og mér er ekki ljóst hvort búið er að þýða þessar tilskipanir. Mér hefði þótt, vegna þessa viðamikla máls sem við erum að fjalla um í heild, að það hefði verið til að auðvelda okkur þingmönnum vinnuna að gerð hefði verið grein fyrir því um hvað þessar tilskipanir fjalla þó að auðvitað sé hægt að ráða það af samhenginu um hvað þetta er. Það er spurning um tæknilega útfærslu og það hefði auðveldað okkur þetta mál ef við hefðum vitað hvað felst í þessum tilskipunum.