Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 17:06:24 (666)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra vék sér undan að svara spurningu minni varðandi þau lög og reglur sem Evrópubandalagið hefur innleitt hjá sér á samningssviðinu frá því í lok júlí 1991. Með hvaða hætti munu stjórnvöld og hann, sem hluti af íslensku ríkisstjórninni, bregðast við í þeim efnum og ganga frá þeim málum gagnvart Alþingi Íslendinga?
    Varðandi spurninguna um það hvernig við Íslendingar berum okkur eftir að svona samningur hefur verið gerður af Íslandi, staðfestur af Alþingi Íslendinga. Ég vona sannarlega að sú stund renni ekki upp og ég mun ekkert liggja á því þá frekar en nú hvernig ég met það valdaafsal sem felst í þessum samningi. Það er ótvírætt.