Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:22:13 (699)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um veigamikla skattlagningu og allverulegar breytingar sem eiga að tengjast samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ef þá er ekki tilefni til að fjalla um breytingar á skattastefnunni almennt veit ég ekki hvenær það er. Heldur hæstv. fjmrh. að það verði hægt að ræða

allt undir stefnuræðu forsrh.? Heldur hæstv. fjmrh. að það sé hægt að ræða öll mál í umræðunni um fjárlög? Er ekki skynsamlegt að reyna að dreifa umræðunni þannig að það komi sem mest út úr því? Ég hlýt að álíta að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin til þessarar umræðu. Það kemur sannarlega ekki á óvart og væri nær fyrir hæstv. fjmrh. að viðurkenna að ríkisstjórnin sé ekki viðbúin því að fara í þessa umræðu og þess vegna sé það ekki hægt nú í dag. Hún þurfi mun meiri tíma í þetta mál og mörg fleiri. En það er ekki hægt, hæstv. fjmrh., að ríkisstjórnin taki sér svona langan tíma í viðamikil mál eins og þessi. Og það er ekki tími til að bíða, þ.e. ef menn ætlast til þess að Alþingi taki afstöðu til þess máls nú á næstu mánuðum.