Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 11:37:38 (1029)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu, ég vildi einungis nota rétt minn til að vekja á þessu athygli. Ég hlýddi á framsöguræðu hæstv. ráðherra svo mér er alveg ljóst hverjar ástæður eru taldar fyrir þessu. Það skiptir mig bara engu máli. Ég tel að hér sé á ferðinni lagagerð sem er aldeilis ómögulegt að sætta sig við. Lagasafn hlýtur að verða að vera læsilegt venjulegu fólki og þó mikið gangi á við að koma þessum samningi og öllum þeim aragrúa frumvarpa sem honum fylgja í gegnum þingið á örskömmum tíma þá er þetta lagagerð sem engan veginn er sæmandi hinu háa Alþingi. Ég hef spurst fyrir um það hvort það sé eðlilegt að reglugerðir birtist í lagasafni. Það er auðvitað algjör nýlunda með örfáum undantekningum eins og reglur um Stjórnarráð Íslands og tilskipun konungs sem enn þá eru einhvers staðar á sveimi í lagasafni. Ég held að það verði að athuga þetta nánar í nefnd þegar þar að kemur. Auðvitað hefur hæstv. ráðherra allan rétt til að útskýra þetta í smáatriðum, hún gerði það að nokkru í framsöguræðu sinni, en það breytir ekki því máli að hér er um afar óvenjulega lagasetningu að ræða.