Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 14:29:17 (1040)

    Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að veita andsvar við einu tilteknu atriði. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og segi að mér finnst það nýlunda í þessum umræðum um Evrópumálin að ráðherra skuli taka sig til og svara nokkuð með bærilegum hætti. Það er um skilgreininguna á opinberum starfsmönnum. Ráðherra segir að það sé mál hvers ríkis fyrir sig að skilgreina þessi mörk. Ég vitna í framsöguræðu hæstv. ráðherra sem sagði eitthvað á þessa leið, með leyfi forseta: Hér er ekki hægt að gefa neinn tæmandi lista um hvaða störf er að ræða sem eru vernduð með þessum hætti þó að af dómum dómstóls Evrópubandalagsins megi álykta nokkuð skýran ramma. Með öðrum orðum segir ráðherrann að það sé málefni ríkisins að skilgreina þetta en segir jafnframt að ekki sé hægt að lista þetta upp en til þess að fá stuðning í viðleitni við að lista þetta upp verðum við að leita í dóma dómstóls Evrópubandalagsins. Ég hef rakið þá og grundvallaratriðin í þeim eru þau að hverju ríki fyrir sig er ekki frjálst að túlka þetta með sínum hætti. Dómstóll EB líður ekki breytilega framkvæmd þessa ákvæðis í sínum löndum.
    Hvað varðar það að 700 útlendingar starfi hér á landi, þá er ég með einn dóm Evrópudómstólsins. Hann grundvallast á því að ríkið, hið opinbera, ráði mann í sína þjónustu fellir burtu röksemdir ríkisins fyrir því að halda því starfi sem opinberu starfi og undanþegið frelsinu. Þetta er dómur nr. 152/73.
    Hvað varðar lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, virðulegur forseti, þá er ég ekki að hvetja til þess að þeim verði breytt, fjarri því, en ég tel að það sem menn eru að gera þýði að þeir muni koma síðar á þessum vetri með breytingu á þessum lögum því það segir í lögunum, virðulegi forseti, í 4. tölul. 3. gr. að skilyrði fyrir skipun, setningu eða ráðningu í stöðu sé íslenskur ríkisborgararéttur.