Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 14:33:13 (1042)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg skýrt í þó nokkuð mörgum dómum sem ég er með lauslega þýðingu á að þeir grundvallast á því, eins og segir hér, svo ég vitni bara í tvær setningar í einu máli, að ef undanþága næði til allra starfa í opinberri umsjá mundi slíkt leiða til þess að hin ýmsu störf féllu ekki undir meginreglur samningsins. Þá er hlutverk opinberra aðila breytilegt eftir ríkjum. Þeir eru því að segja að það verði að vera samræmd framkvæmd á þessu ákvæði Rómarsáttmálans innan EB. Mér er ekki kunnugt um það að einstök ríki EB neiti lögsögu dómstóls EB í þessu máli. Ég vildi gjarnan fá það staðfest ef svo er. Að mínu viti er í þeim plöggum sem ég hef fengið og séð allt sem segir að innan EB-ríkjanna verði að vera samræmd framkvæmd og samræmd þróun. Það sé ég ekki að muni breytast við EES-samninginn. Eftir hann verður því hluti EES-svæðisins, þ.e. EB-hlutinn, að fylgja samræmdri þróun og lúta dómsvaldi EB-dómstólsins. Þar með erum við komnir með þá stöðu að innan EB-hluta svæðisins verður ein þróun og innan EFTA-partsins geta verið allt að sjö mismunandi útgáfur. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið leyfir ekki slíkt. Hann grundvallast á samræmingunni, á ,,homogenismanum``. Ég er því alveg sannfærður um það, virðulegur forseti, að við munum ekkert komast upp með það að vera með sérstaka útgáfu af þessu.
    Þetta rakti ég í minni ræðu og ég hygg að hæstv. ráðherra þó fimlega verjist hafi í engu haggað mínum skoðunum í þessu efni.