Vinnumarkaðsmál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 15:28:45 (1058)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er ekki um mjög flókið frv. að ræða þó það sé í bandormslíki og mun ég líklega afmarka mig við tvö atriði í frv. og fjalla um það stuttlega. Ég vil fyrst koma fram með það sem kalla mætti ábendingu frekar en athugasemd. Ég held þó að menn verði að gefa aðeins gaum að því.
    Í 1. gr. er lagt til að lögin um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26/1982, eigi ekki við um þá erlendu ríkisborgara sem falla undir reglur um Evrópska efnahagssvæðið. Með öðrum orðum gilda þessi lög um atvinnuréttindi útlendinga ekki um ríkisborgara einhverra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar með eru þeir íbúar undanþegnir öllum greinum þessara laga.
    Í 6. gr. laganna segir, með leyfi forseta: ,,Hvers konar áróður til þess fallinn að hvetja til innflutnings verkafólks til landsins er óheimill ef hann er villandi eða byggður á röngum eða ónógum upplýsingum.``
    Samkvæmt 1. gr. frv. eru ríkisborgarar innan þessa svæðis undanþegnir þessu lagaákvæði. Ég ætla ekki ráðherra eða þeim sem undirbúa málið að hugsa málið þannig að íbúum á þessu svæði verði heimilt að hafa uppi villandi áróður í því skyni að fá fólk til að flytja til landsins. En ég hlýt að spyrja í hvaða öðrum lögum ætla menn að hafa þennan varnagla. Ég býst við að það sé hugur manna að þetta verði eftir sem áður óheimilt athæfi. Ég sé ekki neinar varnir í öðrum lögum og ég hygg því að menn verði að athuga 6. gr. laganna. Ég vil a.m.k. lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að áróður, byggður á röngum eða ónógum upplýsingum, sem er til þess fallinn að hvetja til þess að verkafólk flytji til landsins, sé athæfi sem ég vil ekki sjá að mönnum sé heimilt að ástunda. Ég hygg að menn verði að fara betur yfir þetta ákvæði í 1. gr. frv.
    Í öðru lagi vil ég víkja að 5. gr. frv. um breytingu á lögum um starfskjör launafólks sem fjallar um að lögbinda lágmarksréttindi í tilteknum atriðum. Eins og menn vita hefur verið lögð fram tillaga að tilskipun innan EB um vinnu handan landamæra sem t.d. getur átt við verktakafyrirtæki. Inntak tillögunnar er í þá veru að laun og vinnuskilyrði þess lands sem unnið er í eiga að gilda en lagt er til að undanþága verði varðandi laun og orlofsgreiðslur ef starfstími er skemmri en þrír mánuðir. Þetta þýðir t.d. að erlend verktakafyrirtæki geta komið hingað, tekið að sér verk og ráðið fólk til skemmri tíma en þriggja mánaða í senn og þá eru þau undanþegin ákvæði viðkomandi lands um laun og kjör. Þetta er að vísu tillaga að tilskipun en ekki veruleiki eins og ég best veit.
    Ég vildi spyrja hæstv. félmrh. hvað líði þessari tillögu, hvort hún viti til þess að hún muni koma fram og ef svo er, hvort hún yrði þá að lögum hér sem viðhengi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ég bendi á það að í umsögn um frv. frá Sambandi byggingarmanna eru einmitt látnar uppi áhyggjur út af þessu. Þar er sérstaklega tekið fram af hálfu umsagnaraðila að nauðsynlegt sé að fram komi í lögunum að erlendir verktakar séu bundnir íslenskum lögum og samningum að þessu leyti frá fyrsta starfsdegi á Íslandi þannig að menn girði fyrir þennan möguleika erlendu verktakanna. Ég vildi vekja athygli á þessu atriði og óska eftir að hæstv. ráðherra upplýsti okkur frekar um það sem ég rakti.

    Að lokum vil ég gera athugasemd við gildistökuákvæðið sem er að vísu eins í þessu frv. og öllum hinum fylgifrumvörpunum. Ég hef ekki munað eftir að minnast á það fyrr, en það er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.``
    Það vill segja að þessi fylgifrumvörp við EES-samninginn geta öðlast gildi áður en samningurinn öðlast gildi í öðrum löndum. Mér sýnist vera möguleiki á mismunandi tímasetningu gildistökunnar eftir aðildarríkjum EES. Kannski er það misskilningur í mér, en þetta er það sem mér sýnist. Við gætum því setið uppi og verið búin að veita réttindi inn í okkar land án þess að vera búnir að tryggja okkur gagnkvæm réttindi í öðrum löndum af því að þeir væru ekki búnir að afgreiða málið. Ég mundi halda að gildistökuákvæðið ætti að vera öðruvísi þannig að hvað Ísland varðar öðluðust lögin ekki gildi fyrr en allt öðlast gildi á svæðinu, sé samtímaákvæði en ekki mismunandi eftir löndum.