Vinnumarkaðsmál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 15:43:52 (1062)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. En ég vil spyrja hana út af þessum drögum að tilskipun EB: Getur íslenska ríkisstjórnin komið í veg fyrir það að hún verði samþykkt eftir að við erum orðnir aðilar að EES, ef svo ógæfusamlega tekst til? Getur þá íslenska ríkisstjórnin sagt nei, og þá öðlist tilskipunin ekki lagagildi? Það er fyrsta spurningin hvort hún geti það.
    Í öðru lagi spyr ég: Mun íslenska ríkisstjórnin gera það? Mun hún segja: Við samþykkjum ekki tilskipunina eins og hún er með þessu undanþáguákvæði varðandi þriggja mánaða vinnu?
    Þriðja spurningin: Er það rétt skilið hjá mér að samkvæmt 5. gr. eins og frv. er frá gengið þá sé erlendum verktökum og öðrum erlendum aðilum óheimilt þegar frá fyrsta starfsdegi að greiða lakari laun en gilda og lögin kveða á um?
    Síðan vildi ég að lokum fá að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um það hvort ekki sé rétt að halda inni ákvæði 6. gr. laga nr. 26 frá 1982 sem bannar útlendingum að ástunda hér villandi áróður til þess að flytja inn vinnuafl. En samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að EES-þegnar verði undanþegnir þessu banni.