Samkeppnislög

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 15:50:38 (1099)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil endurtaka það að ég tel nauðsynlegt að endurskoða stjórnsýsluþátt frv. Ég tel það óþarfa hjá hæstv. viðskrh. að grípa til þess að líkja því við aðra þætti í samfélaginu. Hann vitnaði til laganna um stjórn fiskveiða. Ekki veit ég hvers vegna hæstv. viðskrh. gerði það en vel má vera að hann hafi viljað veita mér sérstaka áminningu í þeim efnum. Hitt er svo annað mál að ég er hissa á hæstv. viðskrh. að líkja saman markaðsmálum og stjórn á nýtingu auðlindar. Hér er um gersamlega óskyld mál að ræða. Það er ekkert deiluefni, hélt ég, að nauðsynlegt er að hafa stjórn á nýtingu auðlindar og á því máli

þarf viðkomandi ráðherra að bera ábyrgð. Hann þarf að hafa pólitískt vald til þess að standa undir þeim skyldum sínum.
    Að því er varðar markaðsmál og samkeppni er það miklu meira álitamál að hve miklu leyti ráðherra skuli hafa þar afskipti. Ég hef skilið það svo að ætlunin með frv. sé að minnka afskipti verðlagsyfirvalda og ráðherra af þessum málum og nýta markaðslögmálin í meira mæli til aðhalds, nýta samkeppnina en setja leikreglur um það hvenær samkeppni er með þeim hætti að óeðlilegt megi teljast og þá sé fyrir hendi vald til þess að grípa inn í. Það vald er vandmeðfarið og ekki gott að það sé byggt á óljósum skilgreiningum eins og ég tel að sé að nokkru leyti í þessu frv. Það er ekki heldur gott að það tengist um of ráðherranum sjálfum, hver svo sem á þar í hlut. Það er ekki gott fyrir viðskrh. að blandast allt of mikið inn í samkeppnismál. Það er nauðsynlegt að það geri stofnun sem sé sem mest óháð og geti tekið á málum. Vissulega er það rétt hjá hæstv. viðskrh. að viðkomandi stofnun þarf að starfa á ábyrgð stjórnvalda, á ábyrgð hæstv. viðskrh., en það getur hún gert án þess að hæstv. viðskrh. hafi of mikil afskipti af þeirri starfsemi nema sérstakar aðstæður komi upp. Ég tel að það sé of mikið í lagt, eins og hæstv. viðskrh. í reynd viðurkenndi, að hann skipi þetta marga menn í samkeppnisráð og síðan einnig í áfrýjunarnefndina. Ég get alveg tekið undir það með hæstv. viðskrh. að ég tel að sú nefnd eigi að vera sem óháðust ráðherranum. Það mundi styrkja þetta mál ef hlutleysi hennar væri betur tryggt. Með þessu er ég á engan hátt að gera lítið úr því að aðilar séu valdir til ábyrgðar af pólitískt kjörnum fulltrúum. Ég vona að hæstv. viðskrh. misskilji mig ekki í þeim efnum. Ég vil alls ekki taka undir það að það sé af hinu vonda. En það er eins og mér hafi stundum heyrst að hæstv. viðskrh. hafi talið að það væri ekki af hinu góða að pólitískir aðilar, a.m.k. ekki Alþingi, væru að velja menn til að stýra bankastofnunum. Það má vel vera að hæstv. viðskrh. líti allt öðruvísi á það ef ráðherra geri það. Vissulega er þarna munur á því annars vegar er framkvæmdarvaldið og hins vegar löggjafarvaldið. Ég get út af fyrir sig sagt það sem mína skoðun að það eru takmörk fyrir því hvað löggjafarvaldið á að blanda sér inn í mál sem varða ýmsa framkvæmd í þjóðfélaginu. Löggjafarvaldið á hins vegar að hafa sem mest eftirlit með því sem framkvæmdarvaldið er að gera. Þetta er kannski ekki aðalatriðið heldur hitt að það sé traust á þessari stofnun, að hún njóti trausts í samfélaginu, njóti trausts fyrirtækjanna og njóti trausts almennings. Það er ekki að sjá af þeim umsögnum sem eru komnar um málið að sú skipan sem þarna er sett upp njóti nægilegs trausts. Það er áhyggjuefni því að það væri ekki gott að fara af stað með stofnun sem þessa ef á henni ríkir verulegt vantraust strax í upphafi. Úr því þarf að bæta. Ég skildi hæstv. viðskrh. svo að hann væri tilbúinn til samstarfs um það og fagna ég því.
    Þess misskilnings hefur aðeins gætt og mér fannst það í máli hæstv. viðskrh. að ég væri andvígur því að ákvæði væri í þessari löggjöf um auglýsingamál. Ég vil benda á að í 6. kafla frv., í 21. og 22. gr. frv. er fjallað um þessi atriði. Ég hef engar sérstakar athugasemdir við þær greinar frv. Það eru hins vegar greinar sem þarfnast athugunar við eins og allar aðrar. Það vill nú svo til að ekki eru mjög margar athugasemdir frá umsagnaraðilum við þær greinar. Ég er sammála því að ákvæði séu í lögum er varða þessi mál. Því er síðan haldið fram að ég sé andvígur því vegna þess að ég telji ónauðsynlegt að setja upp sérstaka nefnd til að fjalla um þau mál.
    Hér er um að ræða stóra stofnun og hvers vegna þarf að vantreysta þessari stofnun og samkeppnisráði til að fjalla um þau mál? Þarf slíka sérþekkingu á þeim sviðum að sérstaka pólitískt skipaða nefnd úti í bæ þurfi til að fjalla um þau mál? Ég skil það ekki og get ekki á það fallist og sé ekki rök fyrir því. Hér stendur að þessi nefnd skuli skipuð af ráðherra og skuli formaður og varamaður hans vera úr hópi aðalmanna og varamanna í samkeppnisráði samkvæmt ákvörðun ráðsins. Samkeppnisráðið á væntanlega að stjórna þessari stofnun. Síðan kemur ein nefnd til viðbótar sem á líka að hafa með stofnunina að gera á afmörkuðu sviði. Eiga þessar fastanefndir, sem síðan er heimilt að skipa á ýmsum sviðum, líka að hafa með stofnunina að gera? Mér finnst þetta vera óheppilegt stjórnunarfyrirkomulag og ég tel einfaldlega að þetta eigi allt að vera á ábyrgð stofnunarinnar og samkeppnisráðs. Ég tel að alveg sé hægt að treysta þeim til að fjalla um þessi mál. Ef þeir þurfa á því að halda að kalla til sérfræðinga um afmörkuð, tiltekin mál, þá hef ég trú á því að stofnuninni sé það heimilt enda séu fjármunir til þess á hennar áætlun og engin sérstök lagafyrirmæli eða lagaheimildir þurfi til þess. Það er ekki ólíklegt að stofnunin muni þurfa á því að halda að fá aðstoð á ýmsum öðrum sviðum og kalla til þess ákveðna sérfræðinga. Það er vel hægt að gera án þess að föst ákvæði sé um það í lögum.
    Þetta ber svo sem sömu merkin og oft eru í lagasetningu hér á landi. Það er verið að setja ákvæði um alls konar atriði, mörg sjálfsögð, mörg sem eru óþörf. Þetta frv. er, eins og mörg önnur frumvörp sem eru flutt hér á Alþingi, óþarflega langt og ítarlegt. Það mætti stytta það og fella ýmsa sjálfsagða hluti út úr textanum. Af því að hæstv. viðskrh. nefndi sérstaklega löggjöfina um stjórn fiskveiða, þá held ég að ég muni það rétt að þar er um 23 lagagreinar að ræða án þess að ég ætli að fara að bera það saman. Hér eru um þessi mál milli 60 og 70 lagagreinar. Hvað ætli séu margar lagagreinar í íslenskri löggjöf um það hvernig eigi að lána út á húsnæði? Ætli það séu ekki u.þ.b. 200 greinar um það hvernig almenningur á að taka lán út á eina íbúð? Ætli eitthvað af þessu sé ekki óþarft? Ég tel að við ættum öll sem berum ábyrgð á setningu löggjafar hér á Alþingi --- ég er ekki að bera þetta sérstaklega á hæstv. viðskrh. þó að hann hafi komið nálægt því að semja margvíslega löggjöf hér á landi. Ég held að þetta sé bara almennur galli á lagasetningu, hún er oft óþarflega ítarleg. En hitt er svo rétt að menn gagnrýna það líka að reglugerðarvaldið sé of umfangsmikið svo stundum ríkir tvískinnungur í þessari gagnrýni.
    Ég er sem sagt ekki andvígur því að taka á þessum auglýsingamálum en ég er andvígur að búa til svona flókna stjórnsýslu, eins og mér finnst hér vera gert. Ég tek eftir því að sambærileg gagnrýni kemur líka frá aðilum sem hafa mun meira vit á þessu en ég og ég vil líta til þeirrar gagnrýni og vænti þess að hæstv. viðskrh. vilji það líka. Aðalatriðið er þrátt fyrir allt að það ríki traust á því að þarna sé verið að setja upp stofnun sem muni starfa sem óháð stofnun og muni bera hagsmuni neytenda og atvinnulífsins jafnframt fyrir brjósti. Þetta er mjög vandmeðfarið mál og það er mikil gagnrýni á atvinnulífið. Hér hefur t.d. verið nefnd hringamyndun og samþjöppun á valdi sem vissulega ber að líta á. Það þarf líka að hafa það í huga að okkar litlu fyrirtæki munu koma til með að eiga í erfiðri samkeppni við mun stærri erlend fyrirtæki því að risar í okkar efnahagslífi eru smápeð í hinu alþjóðalega efnahagslega umhverfi. Þetta ber okkur að sjálfsögðu að hafa í huga þótt við vildum sjá miklu meiri dreifingu á efnahagslegu valdi hér á Íslandi. Lykillinn að því er að fá almenning, lífeyrissjóði og fleiri, til meiri þátttöku í atvinnulífinu og þá sérstaklega þá sjóði sem ráða yfir miklum fjármunum en það eru lífeyrissjóðir launþega í landinu.
    Ég vil svo fagna því að hæstv. viðskrh. er til viðræðu um breytingar á þessu máli og ég vænti þess að um það geti náðst góð samstaða. Ég tel það mikilvægt og ég tel það mikilvægt í öllum þeim málum sem varða atvinnulífið um þessar mundir. Ég vænti þess að þessi vilji hæstv. viðskrh. komi fram í fleiri málaflokkum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. viðskrh., að mér finnst mjög á það skorta. Ekki svo að skilja að það sé sérstakt keppikefli hjá stjórnarandstöðu á hverjum tíma að sökkva sér niður í þessi mál. En það er hins vegar skylda okkar allra og við eigum að gera það. Það er grundvallaratriði að ríkisstjórn á hverjum tíma hafi til þess nokkurn vilja og ég held að það sé öllum fyrir bestu við núverandi aðstæður að sá vilji komi meira fram í verki en ekki í einu og einu orði á Alþingi.