Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 16:48:42 (1108)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það sem af er hafa þetta verið gagnlegar umræður, svona fram til þessa. Ég ætla ekki að bæta miklu við. Þetta frv. kemur í framhaldi af frumvörpum sem við erum þegar búin að ræða og álitaefni skarast mikið en það eru frumvörpin um atvinnu- og búseturétt. En eitt langaði mig til þess að fá fram hjá hæstv. ráðherra, nokkuð ótvírætt, hans skilning á hvort kröfu um tungumálakunnáttu væri hægt að beita þannig að menn litu svo á að þar væru menn að mismuna eftir þjóðerni eða hvort krafan um tungumálakunnáttu sé einungis hæfnikrafa. Þetta hefur ekki verið alveg ótvírætt í frumvörpum og ræðum af hálfu ráðherra hvernig bæri að líta á tungumálakunnáttu ef menn beita því fyrir sér við ráðningu á starfi, hvort það væri einföld hæfniskrafa eða hvort menn væru að mismuna á grundvelli þjóðernis og það sé þá samkvæmt samningnum heimilt að mismuna á grundvelli þjóðernis með því að beita kröfu um tungumálakunnáttu. Þetta er eiginlega spurningin til ráðherra og þó að frv. í sjálfu sér verðskuldi ítarlegri yfirferð þá læt ég þetta duga, virðulegi forseti.