Vegasamband hjá Jökulsárlóni

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 13:07:31 (1178)

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um aðgerðir til að tryggja vegasamband hjá Jökulsárlóni. Flm. að þessari till. ásamt mér eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jóhann Ársælsson, hinn fyrrnefndi fyrrv. samgrh., hinn síðarnefndi fulltrúi Alþb. í samgn. þingsins. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta hefja undirbúning aðgerða til að tryggja vegasamband á hringveginum hjá Jökulsárlóni í Austur-Skaftafellssýslu. Kostnaður við athuganir og aðgerðir í þessu skyni greiðist af óskiptu vegafé. Skilað verði skýrslu um málið til Alþingis fyrir næstu endurskoðun vegáætlunar.``
    Sem kunnugt er hafa orðið miklar breytingar á afstöðu láðs og lagar við Jökulsárlón í Austur-Skaftafellssýslu. Það voru heimamenn sem fyrstir vöktu athygli á því hversu hraðfara breytingar eiga sér hér stað. Í janúar 1990 kynnti Fjölnir Torfason á Hala, sem á hlut að ferðaþjónustu við Jökulsárlón, opinberum stofnunum niðurstöður af mælingum sínum á landbrotinu. Þáv. samgrh., 2. flm. tillögunnar, svaraði í framhaldi af því fyrirspurn um málið á Alþingi og beitti sér fyrir fyrstu aðgerðum. Síðan hafa Vegagerð ríkisins og fleiri fylgst með þróun á svæðinu og rætt hefur verið hvernig við skuli bregðast. Veglína austan brúar hefur þegar verið færð til og er nú styst tæpa 140 metra frá fjörubakka, en var áður í 56 metra

fjarlægð.
    Strandlínan á þessu svæði hefur færst inn sem nemur 700 metrum frá því í byrjun aldarinnar eða sem svarar 8,5 metrum á ári að meðaltali. Nú eru aðeins um 300 metrar frá fjörubakka að hengibrúnni á þjóðvegi en sú brú var byggð á árunum 1966--1967. Þetta segir hins vegar ekki alla sögu því að breytingar hafa einnig orðið á inn- og útfalli úr jökullóninu norðan brúar, raunar stórkostlega miklar breytingar og er þar mikið vatn á ferð. Við óhagstæðar aðstæður, stórstreymi og brim, getur hér orðið hraðfara rof sem veikir undirstöðu brúarinnar löngu áður en strandlínan hefur náð henni, sem líkur eru á að geti orðið á nokkrum áratugum.
    Jökulsárlón er nú orðið um 12,5 km 2 að stærð og fer stækkandi því að Breiðamerkurjökull er stöðugt að hopa. Það hop orsakast að mati Helga Björnssonar jöklafræðings ekki síst vegna áhrifa lónsins á jökulinn. Nýlegar mælingar á þykkt jökulsins hafa leitt í ljós að hann liggur í lægð sem er undir sjávarmáli á um 20 km vegalengd til norðurs, þ.e. inn til landsins. Fer dýpi vaxandi innan við núverandi jökulrönd og nær mest rúmlega 200 metrum undir sjávarmál. Ef jökullinn hyrfi væri þarna um 20 km langur og 2--4 km breiður fjörður sem næði inn á milli Esjufjalla og svokallaðs Svöludals norðvestur af Þverártindsegg. Það er því borin von að með áframhaldandi hopi jökulsins skapist aðstæður til brúargerðar norðan við núverandi Jökullón. Þetta kemur fram á fskj. með till., sem fylgdi til alþingismanna, ljósrit af litmynd sem sýnir þessar aðstæður þar sem vel kemur fram hvernig sjórinn lægi ef þarna væri jökullaust og fjalllendið umhverfis.
    Hér er svo stórt og mikilvægt mál á ferðinni að nauðsynlegt er að kanna í tæka tíð hversu við skuli brugðist og hvernig standa eigi að framkvæmdum, tæknilega og fjárhagslega. Í till. kemur fram það viðhorf að eðlilegt sé að greiða kostnað vegna athugana og framkvæmda síðar af óskiptu vegafé þar eð hér er um stórmál að ræða sem varðar landið allt, á sinn hátt ekki ósvipað vegaframkvæmdum sem gerðar voru á Skeiðarársandi 1972--1974 og þá kostaðar með átaki sem allir landsmenn stóðu að.
    Með till. er birt sem fskj. nýleg grein eftir Helga Jóhannesson, verkfræðing hjá Vegagerð ríkisins, og þar er dreginn fram margháttaður fróðleikur og reifaðar fyrstu hugmyndir um æskileg viðbrögð. Enn fremur sú mynd sem ég sýndi hér áðan af botni Breiðamerkurjökuls og nágrennis samkvæmt íssjármælingum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, en það er eins og ég gat um Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur, ég nefndi hann jöklafræðing áðan, hann er hvort tveggja, sem hefur staðið fyrir þeim mælingum og haft af þeim veg og vanda á vegum sinnar stofnunar.
    Það skal minnt á það að umrætt landbrot kemur við fleiri þætti en vegasambandið eitt því t.d. liggja raflínur og ljósleiðari um eiðið milli Jökulsárlóns og sjávar og taka þarf tillit til þess við málsmeðferð framvegis.
    Þess er síðan að geta að frá því að tillaga þessi var lögð fram á þingi fyrir röskum mánuði hefur komið í ljós að það hefur orðið rof í farvegi Jökulsár á Breiðamerkursandi, óvænt rof sem ekki var sjáanlegt þegar athuganir voru gerðar á árinu 1991, eða 1990 öllu heldur. Það kemur sem sagt fram að síðan í mars 1991 hefur grafist upp úr farveginum innanverðum í átt að brúnni svo nemur dýpkun á farvegi árinnar um 2,40 m á þessum tíma frá því í mars 1991 og þannig er kominn áll mun dýpri en áður var að vestari brúarstólpa.
    Það er því alveg ljóst að grípa verður til aðgerða þegar á þessum vetri ef menn ætla ekki að stefna þarna í verulega hættu varðandi mannvirki. Vegagerðin fylgist vissulega með þessum aðstæðum nú og nýtur tilstyrks heimamanna sem fylgjast með málum, m.a. Fjölnis Torfasonar sem hefur yfir bát að ráða og hefur stundað þarna mælingar og fylgst með þróun mála að þessu leyti.
    Hér skal ekki farið út í það hvað gera þurfi þó ég hafi heyrt vangaveltur um það frá aðilum sem eru að líta á þessi mál að til bráðabirgða þurfi að setja einhvers konar þröskuld í farveginn til þess að spyrna á móti stórstraumsflóði inn í lónið, taka sem sagt af meðalflóð en spyrna gegn stórstraumsflóði sem færir gífurlegt magn af vatni inn í Jökulsárlónið, jafnstórt og það er. Rofmáttur þess er auðvitað gífurlega mikill þegar það mikla vatn sem þar er á ferð fjarar út um farveginn. Þarna er því vá fyrir dyrum nema gripið verði til aðgerða til bráðabirgða burt séð frá hinum framtíðarvandanum sem sýnist vera að koma á okkur á einhverju tímabili vegna strandrofsins sem er einstakt í raun hér á landi. A.m.k. mun þetta vera í fyrsta sinn sem strandrof ógnar í einhverjum teljandi mæli í seinni tíð mannvirkjum hérlendis. Það væri þá helst rofið við Vík í Mýrdal á framburði vegna Kötluhlaupa sem nú er verið að fylgjast með vegna byggðarinnar í Vík og nágrenni.
    Hér er að mínu mati, virðulegi forseti, stórt mál á ferð og þeim mun nauðsynlegra að tekið verði stefnumarkandi á því af hálfu þingsins. Það er lagt til í tillögunni að kostnaður af þessum aðgerðum greiðist af óskiptu vegafé, þ.e. að Austurlandskjördæmi leggi ekki meira til heldur en sem svarar hlut þess almennt sem eins kjördæmis í landinu vegna þess að hér er um samgöngur fyrir landið allt að ræða. Þetta varðar auðvitað alveg sérstaklega stærri aðgerðir en þetta snertir einnig bráðabirgðaaðgerðir sem sýnist nauðsynlegt að gripið verði til mjög fljótlega.
    Ég vænti þess að þetta mál fái góða og ítarlega meðferð. Ég legg til að því verði vísað til samgn. þingsins og ég efast ekkert um að það verði góður hugur hjá þeim sem þar eiga sæti að veita málinu brautargengi, taka á því og kanna aðstæður sem varða málið og að við fáum að sjá það eftir umfjöllun nefndarinnar síðar á þessu þingi.