Almenn hegningarlög

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 16:51:28 (1230)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frv. á þskj. 99 sem ég flyt ásamt hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Frv. fjallar um breytingu á almennum hegningarlögum og er einfalt í sniðum. Þar er lagt til að ein grein laganna verði felld brott, 108. gr. Með frv. fylgir svohljóðandi greinargerð:
    ,,Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi en var eigi rætt og er því endurflutt óbreytt.
    Greinin, sem lagt er til að falli brott, er í XII. kafla laganna, ,,Brot gegn valdsstjórninni``, og hljóðar þannig:
    ,,Hver, sem hefur í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, eða við hann eða um hann út af því, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum. Aðdróttun, þótt sönnuð sé, varðar sektum, ef hún er borin fram á ótilhlýðilegan hátt.``
    Hafa ber í huga að í greinargerð með hegningarlögunum kemur fram að ákvæði XII. kafla eru sett einkum til þess að vernda framkvæmd opinberra starfa. Brot gegn 108. gr. eru ekki þess eðlis að þar sé verið að hindra opinbera starfsmenn við framkvæmd starfa sinna og þykir flutningsmönnum nægjanlegt að athæfi, sem nú varðar við 108. gr., verði dæmt á grundvelli XXV. kafla laganna sem nefnist ,,Ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.`` Í þeim kafla eru ákvæði sem veita opinberum starfsmönnum ríkari æruvernd en almennum borgurum og vísast einkum til 242. gr. laganna.
    Flutningsmönnum þykir sem dómar Hæstréttar hafi túlkað 108. gr. laganna of rúmt miðað við tilgang XII. kafla laganna og þannig þrengt um of að frelsi manna til þess að tjá sig í ræðu og riti. Engu að síður er dómur Hæstaréttar niðurstaða íslensks dómskerfis og því óhjákvæmilegt að breyta lögum á þann veg að treyst er í sessi frelsi manna til þess að tjá sig í ræðu og riti.
    Frá því að frumvarpið var flutt á síðasta vetri hafa þau tíðindi gerst að 25. júní sl. felldi Mannréttindadómstóll Evrópu þann úrskurð að með dómi Hæstaréttar frá 20. okt. 1987 hafi verið brotið gegn 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um tjáningarfrelsi.
    Í dómnum kemur fram að ekki er andmælt því að leiða megi í lög takmörkun á tjáningarfrelsi heldur sé umrædd grein hegningarlaganna túlkuð þrengra en nauðsyn krefur. Niðurstaða dómstólsins er engu að síður að þær röksemdir, sem ríkið hefur fært fram, nægi ekki til að sýna fram á að sú takmörkun, sem kært var vegna, hafi hæft því réttmæta markmiði sem sóst var eftir. Takmörkunin var því ekki ,,nauðsynleg í lýðfrjálsu þjóðfélagi``. Þetta undirstrikar þá skoðun flutningsmanna að rétt sé og nauðsynlegt að fella brott 108. gr.``
    Með frv. fylgja nokkur fylgiskjöl. Í fyrsta lagi eru birtir þrír leiðarar, hver úr sínu dagblaðinu í Reykjavík, sem fjalla um þetta efni og taka undir sjónarmið flutningsmanna Enn fremur fylgir með útdráttur úr dómi Mannréttindadómstólsins þar sem fjallað er um meint brot á 10. gr. Evrópusáttmálans og að lokum er sem fylgiskjal dómur Hæstaréttar frá 20. okt. 1987 í málinu nr. 277/1986, Ákæruvaldið gegn Þorgeiri Þorgeirssyni.
    Mér er engin launung á því að kveikjan að frv. voru þessir dómar Hæstaréttar, annar frá 1987 yfir

Þorgeiri Þorgeirssyni og hinn frá 1992 yfir Halli Magnússyni. Málin eru hliðstæð. Þar er um að ræða menn sem fjalla um tilteknar athafnir opinberra starfsmanna í fjölmiðlum eftir að umræddir atburðir hafa gerst. Hér er því um að ræða opinbera umfjöllun, skoðun manna á því hvernig á málum var haldið o.s.frv.
    108. gr. í XII. kafla laganna, sem fjallar um vernd opinberra starfa, hefur það að markmiði að leiða í lög ákvæði sem eiga að koma í veg fyrir að opinberir starfsmenn séu hindraðir í að vinna sitt starf. Þessari lagagrein hefur verið beitt af ákæruvaldinu þannig að farið er í raun yfir á annað svið sem eru ærumeiðingar. Í báðum þessum málum var ekki ákært fyrir það að hindra menn við framkvæmd opinberra starfa heldur var ákært fyrir ærumeiðingar. Eins og bent er á í greinargerð er sérstakur kafli um það og því hefði verið fyllilega eðlilegt að mínu mati af hálfu ákæruvaldsins að miða ákæruna við þann kafla laganna.
    Ástæðan að mínu mati fyrir því að ákæruvaldið valdi þessa grein til að sækja mál sitt á er sú að refsing er þyngri samkvæmt þessari grein, 108. gr., en samkvæmt ákvæðum XXV. kafla laganna. Nú er auðvitað réttmætt að jafnframt því sem mönnum er tryggt frelsi til þess að taka þátt í opinberri umræðu að menn beri ábyrgð á því sem þeir segja og skrifa og þurfi að sæta ábyrgð. En það verður að mínu mati að miða aðgerðir ákæruvaldsins við að ganga ekki svo langt að líkur séu á því að refsingar séu það þungar að dragi úr kjarki manna til að taka þátt í opinberri umræðu sem er afar nauðsynleg. Ég hef verið þeirrar skoðunar að túlkun Hæstaréttar á þessari grein hafi verið of rúm og hún leiði því af sér hömlur á þátttöku manna í opinberri umræðu. Með því er ég ekki að segja að Hæstiréttur hafi dæmt rangt, því getum við ekki haldið fram. Það kemur meira að segja fram í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Þeir benda á að greinin sé þannig orðuð að það megi vel túlka hana eins og Hæstiréttur gerir. Því höfum við flm. valið þá leið að breyta lögunum í stað þess að efast um gildi og lögmæti dómsins sem menn eiga náttúrlega ekki að gera.
    Ég vil fara fáum orðum um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu. 10. gr., sem dómur Hæstaréttar brýtur gegn, hljóðar þannig, með leyfi forseta:
  ,,1. Hver maður á rétt til að láta í ljós álit sitt. Í rétti þessum felst frelsi til að ráða skoðunum sínum, fá og miðla vitneskju og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. . . .  
    2. Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð, er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum, sem mælt er í lögum og eru nauðsynlegar í lýðræðisfrjálsu þjóðfélagi vegna öryggis almennings og ríkisins eða landvarna, til að komið sé í veg fyrir óspektir eða glæpi, til að vernda heilbrigði eða siðgæði, mannorð eða réttindi annarra, til að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.``
    Það kemur fram í greinargerð Evrópudómstólsins að í fyrsta lagi sé enginn ágreiningur um það að takmörk séu á tjáningarfrelsi. Um það er ekki deilt. Það er heldur ekki deilt um það að í lögum séu ákvæði sem takmarka það.
    Í þriðja lagi fellst dómurinn á það sjónarmið að fyrir hendi séu markmið sem séu réttmæt, þ.e. að vernda mannorð annarra. Í 10. gr. segir að það sé réttmætt markmið að setja lög til að vernda það. En spurningin sem velt er fyrir sér að lokum er þessi: Var takmörkunin sem er í greininni nauðsynleg í lýðfrjálsu þjóðfélagi, eins og segir í 10. gr. Mannréttindadómstólsins? Til að gera langt mál stutt vil ég lesa nokkrar setningar úr niðurstöðu dómsins, sem er í raun og veru svar við þessari spurningu, með leyfi forseta:
    ,, . . . hefur dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að þær röksemdir sem ríkið hefur fært fram nægi ekki til að sýna fram á, að sú takmörkun sem kært var vegna hafi hæft því réttmæta markmiði sem sóst var eftir. Takmörkunin var því ekki ,,nauðsynleg í lýðfrjálsu þjóðfélagi``.`` Með öðrum orðum hafi menn gengið of langt til að ná fram markmiði. Menn hafi gengið legnra en Mannréttindasáttmáli Evrópu heimilar.
    Nú kann maður að spyrja: Er nauðsynlegt að breyta lögunum? Er ekki nægjanlegt að þessi sáttmáli sé fyrir hendi og að íslenska ríkið hafi staðfest hann? Það var gert 1954 með auglýsingum en sá hængur er á að þó að ríkisstjórnin hafi staðfest tiltekinn alþjóðasáttmála öðlast hann ekki lagagildi þar með. Dómstólar verða að dæma eftir lögum og engu öðru svo íslenskir dómstólar geta ekki litið á Mannréttindasáttmála Evrópu sem lög og nýtt sér ákvæði hans við mat á uppkvaðningu dóma. Eina leiðin til þess að Mannréttindasáttmálinn verði virkur gagnvart dómsuppkvaðningum er sú að lögtaka sáttmálann grein fyrir grein. Það kom fram í máli hæstv. dómsmrh. í sumar í umræðu um þennan dóm að hann hefur áform uppi um að leggja fram frv. sem lögtaki þennan samning. Ég vil nota tækifærið og fagna því og hvetja ráðherrann til að leggja fram frv. hið fyrsta um það efni.
    Virðulegi forseti. Ég tel í sjálfu sér ekki nauðsynlegt málsins vegna að fara ítarlegri orðum um þetta frv. eða fylgja því úr hlaði með tilvitnun í frekari greinar, en ég vil bara að lokum benda á að ef frv. nær fram að ganga, þá er ekki verið að rýra rétt opinberra starfsmanna eða vernd þeirra við sín störf. Það er heldur ekki verið að gagnrýna í raun og veru æruvernd opinberra starfsmanna. Ég bendi á 242. gr. hegningarlaga, b-lið, sem tryggir þeim afar góða stöðu til að hnekkja óréttmætum ásökunum.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.