Stefna stjórnvalda í áfengis- og fíkniefnameðferð

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 15:58:55 (1633)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. að það er út af fyrir sig hægt að telja, sýnist mér, 413 rými í landinu öllu sem þjóna áfengis- og vímuefnasjúklingum með einum eða öðrum hætti. Vandinn er hins vegar sá að þessi rými eru misjöfn og þar fá sjúklingarnir mismunandi þjónustu. Það er í raun og veru útilokað að telja þau öll saman, að leggja þau saman og segja að þetta sé sams konar tilboð. Það er ekki þannig. Það er grundvallarmunur á þessum stofnunum. Ég held að það sé nauðsynlegt að við áttum okkur á því að það sem er að gerast núna í þessum hugmyndum er að hæstv. ráðherra talar um að leggja niður um 46 rými --- aðrir segja 52 en ráðherra segir 46 --- á tilteknum stofnunum sem hann telur upp. Þær stofnanir sem þarna er um að ræða og ég tel að séu í algjörum sérflokki að því er varðar áfengismeðferð frá læknisfræðilegu sjónarmiði eru Vík, Vogur, Staðarfell, Vífilsstaðir og geðdeild Landspítalans. Samtals eru rýmin á þessum stöðum 151 og það er verið að tala um að loka hugsanlega Vífilsstöðum og Staðarfelli, eða samtals 46 af 151 rými af þessu tagi.
    Nú er hins vegar mikilvægt og nauðsynlegt að hafa í huga að það er mikilvæg þjónusta veitt annars staðar í þessum efnum en ég hygg að þessi rými sem þarna eru nefnd, 151 talsins, séu út af fyrir sig nokkuð nálægt því að vera sambærileg. Ég tel þess vegna að það sé gengið býsna langt í því að skera niður þennan hluta þjónustunnar sem er í raun og veru þróaðastur frá almennu læknisfræðilegu sjónarmiði, burt séð frá því hvaða skoðun menn hafa á þeirri þjónustu sem veitt er annars staðar og ég gagnrýni ekki, langt frá því.
    Ég tel að það sé mikilvægt, virðulegi forseti, að í þessu máli hefur það komið fram --- um leið og ég þakka hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur fyrir að nefna þetta --- hjá hæstv. ráðherra að ákvörðun í þessu máli liggur ekki fyrir endanlega, málin eru til meðferðar hjá viðkomandi aðilum og fjárln. Að lokum segi ég svo það, virðulegi forseti: Ég gagnrýni það hins vegar að nefna eitt heimili sérstaklega af þremur heimilum SÁÁ. Ég tel ekki að það sé verkefni heilbrrh. að stinga Staðarfellsheimilið út úr þeim þremur stofnunum sem eru starfræktar á vegum SÁÁ.