Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 18:10:59 (1823)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. frá hv. 5. þm. Reykn. um að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar suður á nes. Eins og hv. flm. veit, þá höfum við staðið saman að því að móta stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem stendur að ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir því að opinberar stofnanir og opinber þjónusta verði í auknum mæli flutt út á landsbyggðina. Og til að ná fram þessu markmiði ríkisstjórnarinnar skipaði forsrh. nefnd með fulltrúum allra flokka til þess að vinna að málinu. Sú nefnd er að störfum núna og vinnur af miklum krafti undir forustu fyrrv. alþm. Þorvaldar Garðars Kristjánssonar. Og þess er að vænta að niðurstöður nefndarstarfsins liggi fyrir áður en langt um líður.
    Auðvitað er Landhelgisgæslan ein þeirra stofnana sem þarf að skoða rækilega með tilliti til þess hvort flutt verður út fyrir höfuðborgarsvæðið eða ekki. Þær eru margar fleiri stofnanirnar sem þarf að skoða líka rækilega í þessu sambandi og það er verið að gera.
    Það er rétt að nefna í þessu sambandi að áður hafa nefndir verið starfandi með góðum hug og haft það verkefni með höndum að skoða flutning opinberra stofnana út á land. Árangurinn hefur ekki verið nægjanlega góður. Þá má nefna að ýmsar opinberar stofnanir hafa í vaxandi mæli reynt að flytja hluta af starfsemi sinni út á landsbyggðina og aukið þjónustuna við landsbyggðarfólk eins og aðstæður frekast leyfa og lagt þar gott starf af mörkum. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega nefna Byggðastofnun, en hún hefur einmitt núna á síðustu missirum stigið mjög mikilvæg skref í þá átt að efla þjónustu sína við landsbyggðina með því að flyja hluta af starfsemi sinni út á land með opnun útibúa. Ég var viðstaddur opnun skrifstofu Byggðastofnunar fyrir Austurland nú ekki alls fyrir löngu á Egilsstöðum og við bindum miklar vonir við það að þjónusta Byggðastofnunar, sem hefur verið góð fram að þessu, muni eflast og aukast og verða til eflingar atvinnulífi á Austurlandi. Og okkur er sagt að Byggðastofnun muni halda þessu starfi áfram.
    Ég vildi láta þess getið sem vel er gert í þessum efnum en ég bind miklar vonir við það starf sem nú er unnið á vegum ríkisstjórnarinnar í nefnd sem kannar flutning opinberra stofnana út á land og hvernig megi flytja opinbera þjónustu í ríkara mæli út á landsbyggðina en verið hefur. Þetta er eitt stærsta og brýnasta byggðamálið sem við er að glíma um þessar mundir. Það verður að segjast eins og er að það sem hefur valdið vaxandi aðstöðumun á milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar á undanförnum árum er hvað opinberar stofnanir hafa þanist út hér á höfuðborgarsvæðinu og þar með valdið vaxandi byggðaröskun á milli þessara svæða. Ríkisstjórnin ætlar sér að reyna að snúa þessari þróun við og við verðum að reyna að styðja stjórnina náttúrlega í þeirri góðu viðleitni.