Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:23:52 (1850)


     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum undirtektir og umræður um þessa tillögu og um þau mál er henni geta tengst og tengjast í raun. Ég vil þó endurtaka að hún er flutt undir því fororði sem við köllum umræðu um byggðamál. Ég vakti á því sérstaka athygli í framsögu minni, raunar einnig í greinargerð, að fjölbreytni atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum er nokkurt áhyggjuefni þegar við lítum til þess hvað fram hefur farið síðustu áratugi. Þessir síðustu áratugir eru nokkuð sérstakir. Menn hafa hrósað sér af þátttöku í þeirri pólitík sem hefur mótast og hefur ráðið þróun í atvinnumálum. Það verður að viðurkennast eins og er að einmitt á því tímabili hefur orðið að eins konar náttúrulögmáli að ríkisstofnanir verði á höfuðborgarsvæðinu. Ég er að tala um landsvæði sem er hið þriðja fjölmennasta á landinu, á eftir höfuðborgarsvæðinu og Eyjafjarðarsvæðinu. Til þessa hafa menn ekki getið þess að á Suðurnesjum er hlutfallslega minnst af ríkisstofnunum, af ríkisstarfsmönnum og af þjónustu opinberra stofnana miðað við íbúatölu og þrátt fyrir þennan íbúafjölda sem þar er er atvinnulíf þar jafneinhæft og í hinum fámennustu landshlutum. Þar er um tvennt að velja fyrir allt venjulegt fólk, að stunda fiskveiðar eða fiskvinnslu ellegar byggingarvinnu á byggingarstað. Þá er það nánast upp talið. Þetta eru sömu möguleikar og við sjáum þegar við lítum í hin fámennari byggðarlög og aðgætum hvers konar atvinnutækifæri bjóðast ungu fólki. Þá kemur fljótlega að því í þeirri athugun að þeir sem vilja og hafa áhuga á annarri atvinnu, þar sem hæfileikinn beinist að öðru, eru nánast tilneyddir að flytja annað. Það segir sig sjálft að þetta mun valda vaxandi einhæfni í starfsemi og mannlífi og mun væntanlega geta orðið til þess að mannlíf í þessum byggðum eigi sér ekki mikla framtíðarvon.
    Hér hafa verið nefndar til sögunnar nú starfandi og áður starfandi nefndir um flutning ríkisstofnana út á land. Það verður að segjast að sögur hinna eldri nefnda um þessi mál vekja ekki miklar vonir og á það hafa hv. þm. réttilega minnst. Ég tel hins vegar að yfirlýsing núv. ríkisstjórnar um þetta efni og starfshættir núv. nefndar gefi betri vonir en nokkru sinni fyrr.
    Minnst hefur verið á að álitaefni sé hvort hagkvæmni staðsetningar í Keflavík fyrir Landhelgisgæslu Íslands muni vera nægjanleg. Í því efni hef ég getið þess og skal endurtaka það að hafnaraðstaða þar er ágæt, hún er mjög vaxandi, þar eru talsverðar framkvæmdir og þar er mikið nábýli við góðar fiskihafnir. Þar er nálægð við fjölsótt fiskimið, við innsiglingarleiðir sem hafa reynst hættulegar aftur og aftur og nábýli við flugvöllinn sem gefur tækifæri til að samhæfa mjög vel gæslu á sjó og af lofti. Ef við virðum fyrir okkur aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli annars vegar og á Reykjavíkurflugvelli hins vegar hygg ég að allir séu þess vissir að annar flugvöllurinn á framtíð fyrir sér en hinn á þau örlög að hverfa. Varla mun flugvöllur í Reykjavík þjóna til frambúðar öðru hlutverki en því sem markast af daglegum þörfum byggðanna á höfuðborgarsvæðinu ef hann á ekki eftir að hverfa alveg af sjónarsviðinu.
    Mér þykir vænt um sem tillögumanni að heyra af sjónarmiðum eða afstöðu forstjóra Landhelgisgæslunnar en ég læt það liggja á milli hluta. Tillagan fjallar um að athugun fari fram og hún hlýtur að leiða fleira í ljós en hans afstöðu. En menn hafa haft talsverðar áhyggjur af þeirri stefnu sem við nú höfum um málefni gæslunnar. Það er rétt, það er áhyggjuefni og álitamál hversu langt skuli ganga í sparnaði í löggæslu. Þessi löggæsla er mjög sérstök.
    Hins vegar vegna þess að minnst hefur verið á samninga sem við kunnum að vera að undirgangast sem í fyllingu tímans munu leyfa öðrum þjóðum veiðar á Íslandsmiðum á ný að þá hefur þess réttilega verið getið að þar er ráðgert að eftirlit verði með öðrum hætti en það sem Landhelgisgæslan mundi annast. Í samningnum eru ráðgerð sérstök úrræði til þess að koma við eðlilegum viðbrögðum okkar ef okkur þykir ástæða til. En fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar, eins og annarra ríkisstofnana, hljóta að markast af þeirri forgangsröð sem við sjálf setjum og þær hljóta að markast af þeim ásetningi stjórnarsinna að ná betri tökum á ríkisfjármálum en verið hefur undanfarinn áratug eða nærri tvo áratugi, þessa blessuðu framsóknaráratugi sem menn hafa hrósað sér af. Staðreyndin er sú þegar menn eru að velta sér upp úr því að þá hafi verið lagður grunnur að þeim lífskjörum á Íslandi sem við njótum í dag að við hljótum að horfa með svolítilli vantrú fram á víxlana sem við og börnin okkar eða barnabörnin okkar eiga eftir að borga því við Íslendingar erum illilega skuldugir.
    Enn hafa menn nefnt til sögunnar að við munum í dag rita Íslandssögu framtíðarinnar. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt fyrir hv. alþm. En ég vek sérstaklega athygli á þeim orðum sem voru sögð um ríkidæmi okkar og vænti þess að menn leiði hugann að því hvaða arð við megum hafa af ríkidæmi sem við geymum í einangrun og liggjum á eins og ormar á gulli. Skyldi það færa okkur mikið bætt lífskjör? Samhengið var væntanlegur samningur um Evrópskt efnahagssvæði og væntanleg þátttaka okkar í því samstarfi. Ég hygg að með því fáum við miklu meiri ónumin lönd fyrir mannauðinn á Íslandi, fyrir getu, kunnáttu og samkeppnishæfni okkar Íslendinga en með því að einangra okkur frá því að geta haft áhrif á þær ákvarðanir, stefnur og málflutning grannþjóða okkar sem munu koma til með í framtíðinni að skipta sköpum um okkar framtíð, til að mynda í umhverfismálum sem voru réttilega nefnd til sögunnar. ( Gripið fram í: Þetta er gamalmennahæli heimsins, Evrópa. Þetta ætti flm. að vita.)
    Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að þátttaka okkar í samfélagi þjóðanna sé okkur nauðsynleg, okkur og þeim sem munu taka við af okkur. Ég trúi því ekki að hv. þm. vilji í raun og veru að við og börnin okkar fáum lakari lífskjör til þess eins að einangrast frá áhrifum á þá þætti sem munu móta lífskjörin.
    Virðulegi forseti. Ég segi aftur: Þökk fyrir góðar og málefnalegar umræður um málið sem ég flutti og þau málefni sem því tengjast. Ég er þess viss að nú eins og oft áður mun frv. um fjárlög ekki verða endanleg gerð fjárlaganna. Frv. á eftir að mótast í höndum fjárln. Hér hafa vissulega komið fram orð sem undirstrika þá skoðun og ég hygg að reyndari þingmenn þekki ekki frv. til fjárlaga sem hefur orðið óbreytt að lögum.
    Ég vænti þess að okkur muni takast að bæta hag Landhelgisgæslunnar. En við verðum að fara þar með löndum. Þessi lönd heita ríkisfjármál.