Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:05:59 (2238)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég gat þess í umræðu um þingsköp fyrr í dag að ég teldi þörf á því að ráðherrar yrðu hér viðstaddir og taldi þá sérstaklega upp forsrh., dómsmrh. og félmrh. Félmrh. var hér viðstaddur ræðu mína en svaraði að vísu engu spurningum mínum og er farinn aftur úr húsinu. En ég var með spurningar til forsrh. og dómsmrh. í framhaldi af ábendingum umboðsmanns Alþingis og ég tel að þessari umræðu geti engan veginn lokið fyrr en þessir ráðherrar hafa veitt svör við spurningum sem fram eru komnar og allra síst í ljósi þess að þeir hafa ekki verið hér undir þessari umræðu og hafa greinilega öðrum mikilvægari hnöppum að hneppa en að sinna þinginu sem þeir eru kjörnir fyrst og fremst til að sinna meðan það er að störfum. Ég vil því fara fram á það, virðulegur forseti, að þessir tveir ráðherrar verði kvaddir til þingfundar til að svara fyrirspurnum. Verði ekki unnt að ná til þeirra eða geti þeir ekki komið verði umræðunni frestað þar til síðar þegar betur stendur á hjá þeim.