Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:43:13 (2248)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Bara til að hafa það á hreinu að ég var síður en svo að tala um að Skáksamband Íslands hefði of mikla fjármuni og var ekki að bera ÍSÍ og Skáksambandið saman á nokkurn hátt. Ég var hins vegar að benda á að hugmyndin sem að baki lægi væri sú sama að umbuna þeim sem standa sig vel og íþróttir stunda.
    Varðandi þær tölur sem hv. þm. fór með frá Íþróttasambandi Íslands rengi ég þær ekkert en á meðan ég þekkti til vissi ég að fjárveitingar til Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands hækkuðu alltaf nákvæmlega eins milli ára. Nú getur verið að þetta hafi breyst á undanförnum árum. Ég þekki ekki til þess en ég hygg þó að þess hafi verið gætt bæði af menntmrn., fjmrn. og fjárln. að þeir styrkir sem viðkomandi samtök fengu frá ríkinu hækkuðu jafnt milli ára. Engu að síður getur það verið að Íþróttasambandið hafi hlutfallslega hærri tekjur og þær hafi hækkað á undanförnum árum á meðan dregist hafi saman hjá Ungmennafélagi Íslands af þeirri ástæðu að þeir hafi fengið meira út úr lottóinu. Ég ætla ekki að rengja það.
    Staðreyndin er hins vegar sú að þannig er þetta a.m.k. hjá Ungmennafélagi Íslands. Ég veit að hv. þm. getur fengið þessar upplýsingar hjá fjárln. vegna þess að þessar tölur og staðreyndir voru lagðar fyrir hv. fjárln. sl. mánudagsmorgun.