Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:44:59 (2249)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu verulega til baga fyrir okkur í þessari umræðu að hafa ekki undir höndum þessar tölur um tekjur Ungmennafélagsins. Ég ætla ekki að reyna að rifja þær upp í öllu því talnaflóði sem yfir oss fjárlaganefndarmenn gengur. En það mun vera rétt að tekjur Ungmennafélagsins hafa breyst með einhverjum öðrum hætti m.a. af ástæðum sem eru raunar óskyldar þessu máli að því er ég hygg. Þess vegna er ekki gott að blanda þessu saman.
    Eftir stendur, sem var auðvitað kjarninn í því sem ég var að segja, að ég tel ekki sérstök efni til að stofna þennan sjóð af fjárlögum Alþingis. Hins vegar er ég þess mjög hvetjandi að afreksmenn séu efldir og studdir og hvattir til dáða á alla lund vegna þess að ég tel að þeir hafi mjög miklu hlutverki að gegna í okkar þjóðfélagi. En ég tel einfaldlega að þeim málum eigi að skipa þannig að Íþróttasamband Íslands noti stærri hluta af sínum miklu tekjum, sem það þó vissulega þarf á að halda, til þess að efla og bæta hag afreksmanna af ástæðum sem ég hef rakið vegna þess að ég tel afreksmenn í íþróttum gegni miklu uppeldislegu hlutverki í okkar þjóðfélagi sem síst má vanmeta.