Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 14:24:04 (2274)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í framhaldi af ágætri ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar og þeirri ábendingu sem hún kom á framfæri um umfjöllun fjölmiðla og þingmanna um uppsagnir karlmanna á Suðurnesjum þykir mér rétt að minna á að á síðasta þingi var lögð fram þáltill. um atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum af hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Ég hygg að engin þáltill. hafi fengið eins mikla umfjöllun í þinginu og hún. Þingmenn almennt tóku mjög mikinn þátt í þeirri umræðu og vildu nokkuð á sig leggja til að koma með úrbætur í þeim efnum. Það var nokkuð vel frá þessari umræðu greint í fjölmiðlum og ég hygg að hún hafi fengið þá umfjöllun sem hún verðskuldaði. Hins vegar má segja að það hafi strandað á aðgerðum, úrbætum, og þar er við stjórnvöld að sakast en ekki þingheim.
    Ég vil líka minna á vegna þess sem fram kom í ræðu hv. þm. og fleiri í þjóðfélaginu þessa dagana og mánuðina þar sem er tíska að tala um offjárfestinguna í sjávarútvegi að það er verulega orðum aukið að hamra svo á því sem raun ber vitni. Ég minni á að fjárfesting í sjávarútvegi er innan við 9% af þjóðarauðnum og ég minni líka á að fjárfesting í sjávarútvegi undanfarin ár hefur ekki verið nema brotabrot af heildarfjárfestingu landsmanna, eða um 4--5 milljarðar á ári af um 70 milljarða kr. fjárfestingu árlega. Uppbygging í sjávarútvegi um land allt miðaðist auðvitað við þá veiði sem menn höfðu á þeim árum og árunum á undan. Það er því ekki sanngjarnt að saka atvinnugreinina í heild um mikla offjárfestingu í ljósi þess að stofnanir hafa minnkað. Það skapar sérstakt vandamál sem verður að bregðast við en ég held að menn verði að draga úr þessari áherslu sem verið hefur á offjárfestingu í sjávarútvegi.