Gilsfjarðarbrú

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:43:52 (2363)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að leiðrétta fáein atriði sem fram hafa komið í þessari umræðu af hálfu hæstv. félmrh. Það liggur fyrir að í mars 1991 gaf Vegagerð ríkisins út skýrslu um Gilsfjarðarbrú og þar með var rannsókn málsins lokið og Vegagerðin gerði ákveðna tillögu. Forhönnun er líka lokið í málinu og í viðtali við hv. 1. þm. Vestf., sem birt var í blaði Sjálfstfl. á Vestfjörðum fyrir síðustu kosningar, lýsir hv. þm. Matthías Bjarnason því yfir að það sé ekkert því til fyrirstöðu að bjóða verkið út þegar á árinu 1992.
    Sjálfstæðismenn voru með mikla svardaga um það að við þetta verk yrði að standa og framkvæmdir yrðu að hefjast eigi síðar en 1993. Og á það er minnt í nýlegu bréfi sem við þingmenn fengum frá nokkrum sveitarstjórnarmönnum á Vesturlandi og í Austur-Barðastrandarsýslu að fundur þingmanna Vestfirðinga og Vestlendinga, sem haldinn var skömmu fyrir síðustu alþingiskosningar, hafi ályktað einróma að hafist yrði handa í Gilsfirði umsvifalaust að lokinni brúargerð yfir Dýrafjörð. Var þá gert ráð fyrir að verkið yrði allt boðið út á árinu 1993. Fyrirheitin af hálfu stjórnarþingmanna þessara tveggja kjördæma liggja fyrir. Við spyrjum um efndirnar. Það sem liggur fyrir er að það verk sem síðar átti að hefjast á að byrja á undan. Það liggur líka fyrir að það verk sem verður síðar, þ.e. Gilsfjarðarbrú, mun gjalda þeirra lána sem tekin verða vegna Kúðafljóts og menn skulu ekki gera lítið úr þeim fjárhæðum sem falla á Vegagerðina

þegar farið verður að endurgreiða þessi lán. Það verða um 300--400 millj. á ári í afborganir af lánunum auk vaxta. Vextirnir einir á fyrsta ári endurgreiðslutímabilsins gætu verið allt að 300 millj. kr. og ég spyr hæstv. félmrh.: Ætlar ráðherrann að standa við loforð flokksmanna sinna í kjördæminu og Vesturlandskjördæmi eða er hann á flótta undan stóru yfirlýsingum flokksins?