Samkeppnislög

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 14:36:32 (2944)

     Geir H. Haarde (um atkvæðagreiðslu) :
    Forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefði getað sparað sér þessa ræðu en notað tímann þess í stað til að kynna sér efni þeirra brtt. sem hér eru lagðar fram vegna þess að það er sérstaklega tekið fram í brtt. við 62. gr. að þessi umræddi kafli taki ekki gildi nema samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verði að veruleika með aðild Íslands. Í þessari atkvæðagreiðslu er því alls ekki um það að ræða að það sé verið að samþykkja eitt eða neitt sem komi til framkvæmda óháð hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Ég bendi jafnframt á það að við ræddum það hér í gærkvöldi á þingfundi þegar þetta mál var til umræðu hvernig haga skyldi afgreiðslu þessa máls við 3. umr., hvort það kæmi til greina að fresta endanlegri afgreiðslu málsins þar til fyrir lægju lyktir í hinu stóra máli um Evrópska efnahagssvæðið sjálft. Það er auðvitað allt til skoðunar og til athugunar og vænti ég þess að um það verði gott samkomulag. En ég hlýt að mótmæla þeim fullyrðingum sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hafði hér uppi að með því að samþykkja þennan kafla á þessu stigi væru þingmenn að brjóta stjórnarskrána. Þetta er auðvitað gersamlega fráleitt, fjarstæðukenndur málflutningur og kemur ekki til greina að þingmenn láti svona málflutning hafa áhrif á atkvæði það sem þeir fara með hér á Alþingi.
    Ég endurtek: Þessi kafli kemur ekki til framkvæmda, tekur ekki gildi nema samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði nái fram að ganga. Nái það ekki fram að ganga tekur þessi kafli aldrei gildi þannig að hér er ekki verið að taka neina áhættu. Það varð góð samstaða um það í hv. efh.- og viðskn. að afgreiða þetta mál með þessum hætti og ég treysti því, eins og fram kom í umræðum hér í gærkvöldi, að þeir sem stóðu að meirihlutaáliti og reyndar áliti allrar efh.- og viðskn. ásamt öðrum sem hafa verið að leggja á ráð um þinghaldið til jóla nái góðu samkomulagi um það hvenær þessu máli verður lokið við 3. umr. Fyrr verður frv. að sjálfsögðu ekki að lögum.