Tekjustofnar sveitarfélaga

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 18:01:47 (3131)

     Kristinn H. Gunnarsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Það var ekki mikið eftir af minni ræðu en ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ekki væri von á frsm. málsins til þingfundar. ( Forseti: Forseti mun gera hæstv. félmrh. viðvart.) Ég þakka. Ég mun doka aðeins við með að nefna ný atriði þar til ráðherra kemur en ég var síðast að ræða áhrif af þessari breytingu og að gæta yrði að ýmsum atriðum sem eru breytileg eftir sveitarfélögum og taka yrði tillit til. Ég var þar kominn að ég var að nefna að sum sveitarfélög hefðu þurft að grípa til þess að leggja fram fé til atvinnulífsins á sínum stað, ýmist í formi beinna fjárframlaga eða með ábyrgðum og jafnvel hafa sveitarfélögin tekið lán til þess að standa undir þessu. Þetta hefur haft þau áhrif á fjárhag sveitarfélaganna að hann er ákaflega mismunandi og í sumum sjávarútvegsplássum hefur hann orðið býsna bágborinn, m.a. vegna þessara nauðsynlegu afskipta sveitarfélagsins af atvinnulífinu. Mér þykir því ekki sjálfsagt að útbúa frv. eins og þarna er gert þannig að þau fái ekki nema 80% af álögðu aðstöðugjaldi. Það sama skuli ganga yfir þau sveitarfélög og önnur sem ekki hafa þurft að styðja atvinnulífið á sínum stað. Ég tel að það verði við úthlutun fjárins úr ríkissjóði, sem á að koma í stað aðstöðugjalds, að taka mið af þessari mismunandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Lögð hefur verið fram greinargerð um þessi mál af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga, þ.e. samantekt yfir framlög sveitarfélaga til atvinnulífs á síðustu fimm árum. Ég tel að nefndin sem fær þetta mál til skoðunar ætti að fara yfir þá skrá og taka mið af þeim staðreyndum sem þar eru. Það er ákaflega misjafnt hve sveitarfélög eru fær um að taka á sig 20% skerðingu á álagningu aðstöðugjalds. Af

þessum sökum m.a. og eins hinu að innheimtan sjálf hefur líka verið mjög breytileg, t.d. þar sem innheimtan hefur verið meira en 80%, kemur það auðvitað til skerðingar á fjárhag sveitarfélaganna að fá ekki samsvarandi innheimtuhlutfall á næsta ári. Oft fer það saman að innheimtuhlutfallið er hátt og viðkomandi sveitarfélag hefur þurft að blanda sér inn í atvinnulífið með beinum hætti og leggja til þess fé.
    Ég vil líka gera athugasemdir við töluna 80%. Ég tel að það þurfi að skoða hana nánar. Það er ekki sjálfgefið að það sé staðreynd sem þar er sett fram að innheimtan sé þessi að meðaltali. Ég er með skjal frá hagfræðingi Þjóðhagsstofnunar sem lagt var fram á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var 19. og 20. nóv. sl. Þar kemur fram að á þessu ári er áætlað að álagt aðstöðugjald verði 5,3 milljarðar en jafnframt kemur fram í þessari greinargerð að áætlað er að aðstöðugjaldið skili sveitarfélögum 4,8 milljörðum á þessu ári, þ.e. að afföllin séu ekki nema 10%. Borið saman við ríflega 4,5 milljarða á síðasta ári þá hækki það um rúmlega 6% á milli áranna 1991 og 1992. Ég tel að þetta verði að skoða.
    Eitt atriði enn vil ég ítreka. Það er atvinnusamsetningin sem er mismunandi eftir sveitarfélögum og álagningarhlutfallið sem er mismunandi eftir atvinnugreinum. Ég get ekki, eins og kom fram fyrr í ræðu minni, fallist á það að útdeiling fjárins úr ríkissjóði eigi að taka mið af því hvernig aðstöðugjaldið hefur dreifst heldur eigi að dreifa jafnar en verið hefur. Menn hafa verið með 1,3% álagningarstuðul t.d. á verslun en um og innan við 1% á fiskvinnslu og innan við 1% á veiðar. Sveitarfélögin hafa tekið minni tekjur í aðstöðugjald af þessum fyrirtækjum, m.a. til að hlífa sjávarútveginum. Það er ekki alveg sanngjarnt að menn refsi þessum sveitarfélögum fyrir að hafa ekki fullnýtt álagningarheimild á sjávarútveginn. Ég tel að það verði að taka mið af þessu líka.
    Þá vil ég spyrja hæstv. félmrh. um það, af því að það kemur fram í öðru frv. sem hér liggur fyrir, hvort ætlunin er að hækka tekjuskatt einstaklinga um 1,5% sem á að skila tæpum 3 milljörðum kr. ef ég man rétt. Það er m.a. af þessum tekjum sem ríkissjóður ætlar að fjármagna greiðslur sínar til sveitarfélaga. Það kemur ekki fram í því frv. að þessi 1,5% hækkun sé tímabundin. Ég fæ því ekki séð annað af frv. og greinargerð með því en að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að þessi 1,5% verði varanleg hækkun. Eru það áform ríkisstjórnarinnar að þessi 1,5% renni á árinu 1994 og síðar yfir til sveitarfélaga og bæti þar að því leyti sem það getur upp missinn af aðstöðugjaldinu? Er ríkisstjórnin að undirbúa það eða er hún með þau áform að velta afnámi aðstöðugjaldsins yfir á einstaklinga með tekjuskattshækkun? Þetta finnst mér ástæða til að nefna og spyrja hæstv. ráðherra til að fá fram skýr svör um áform ríkisstjórnarinnar í þessu efni því að ég fæ ekki séð af skattafrv. að þessi sérstaka 1,5% hækkun á tekjuskatti sé tímabundin heldur sé henni ætlað að vera varanleg. Hún hlýtur þá annaðhvort að eiga að renna í ríkissjóð eða í sveitarfélagasjóði.
    Þá vil ég spyrja um ákvæði til bráðabirgða II. Þar segir að 120 millj. kr. af þessum 80% sem eiga að renna til sveitarfélaga --- því þau eiga ekki að fá 80% heldur 80% mínus 120 millj. og þær milljónir eiga að renna í Jöfnunarsjóð og verður varið til greiðslu jöfnunarframlaga samanber 14. gr. sem er um tekjujöfnunarframlög og þjónustuframlög ef ég man rétt. Ég spyr um ráðstöfun þessa fjár. Á að verja því til a-liðar 14. gr. sem er tekjujöfnunarframlag eða á að verja því til b-liðar um þjónustuframlög? Eftir hvaða reglum á að verja því? Er það kannski svo að það sé mat ráðherra að það vanti í dag fé til þess að fullnægja 14. gr., að það sé nú þegar ekki nægilegt fé í Jöfnunarsjóði til að fullnægja jöfnunarhlutverki 14. gr.? Ég spyr af því ég hef ekki skýringar og bið því hæstv. ráðherra að skýra þetta frekar.
    Þá er það ákvæði til bráðabirgða IV. Ég tel víst að þetta ákvæði frv. sé komið inn án samþykkis Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég spyr ráðherra hvort það sé rétt hjá mér að þetta ákvæði hafi verið sett inn án þeirra samþykkis. Ég tel það slæmt ef svo er því eins og hv. 2. þm. Austurl. las upp þá var nýverið gert samkomulag um framlag sveitarfélaga í Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem kveðið var á um samráð. Ég vek líka athygli á því, af því að það kom fram í ræðu hæstv. félmrh., að það ætti ekki að hafa mikil áhrif á útlánagetu Lánasjóðs sveitarfélaga þótt framlag ríkissjóðs félli niður eitt ár. Ég ætla ekki að deila við ráðherrann um það mat. Vissulega er þetta nokkuð öflugur sjóður. En ég vek athygli á því að í skýrslu sveitarfélaganefndar er lagt til að þetta framlag verði tekið frá sjóðnum árin 1994--1998 eða í fimm ár og því varið til annarra aðgerða, þ.e. til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga, m.a. með því að jafna skuldastöðu sveitarfélaga. Ef þau áform ganga eftir, sem við vitum auðvitað ekki um enn þá en ég reikna með að hæstv. ráðherra a.m.k. sé því fylgjandi, erum við búin að taka þetta framlag af Lánasjóði sveitarfélaga í sex ár. Ég spyr: Hvaða áhrif hefur það á getu sjóðsins? Við verðum að hafa það í huga að sjóðurinn er í vaxandi mæli farinn að lána sveitarfélögum sjálfum til skuldbreytinga, skuldugum sveitarfélögum sem fer fjölgandi, til þess að greiða úr fjárhagsvanda þeirra. Því miður hef ég ekki ástæðu til að ætla að það dragi neitt úr þeirri eftirspurn frá hendi sveitarfélaga eins og ástandið er í mörgum sjávarplássum á landinu.
    Þetta eru þau atriði, virðulegi forseti, sem ég vil nefna við 1. umr. Þótt frv. gefi tilefni til frekari umræðna og ræðuhalda um málefni sveitarfélaga og tekjustofna þeirra læt ég þetta duga að sinni en ítreka það að í nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, verður að mínu viti að skoða þetta mál afar vandlega því að það er ekki lítið mál að ætla að breyta með svo róttækum og óvissum hætti þriðja stærsta tekjustofni sveitarfélaga.