Tekjustofnar sveitarfélaga

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 18:15:53 (3132)


     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram allítarleg umræða um frv. sem hér er til umræðu, frv. um breyting á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. um niðurfellingu aðstöðugjalds. Ég get kannski stytt mál mitt mikið því nú eru þegar komnar fram ítarlegar spurningar sem ég hefði gjarnan viljað spyrja. Ég mun ekki sakna þessa tekjustofns, aðstöðugjaldsins, og ég tel að þetta hafi verið eitt af því besta eða eitt það besta sem kom fram í ráðstöfunum í ríkisfjármálum frá 23. nóv. 1992 til að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs. Þessi gjaldstofn, aðstöðugjaldið, er búinn að vera við lýði síðan 1962 og er að allra mati mjög svo óhagstæður atvinnulífinu. Þessi veltuskattur, sem leggst jafnt á tap og hagnað, getur ekki verið eðlilegur. Hann hefur skapað mjög mikinn ójöfnuð og hefur margfeldisáhrif í för með sér sem kemur að sjálfsögðu niður á vöruverði. Það er ótrúlegt annað en vöruverð lækki verulega þegar aðstöðugjaldið dettur niður um áramótin.
    Aðstöðugjaldið er ekki aðeins óréttlátur skattstofn varðandi fyrirtæki heldur hefur það komið mjög misjafnlega niður á sveitarfélögunum eins og hér hefur fram komið. Það hefur sem sagt fylgt tvöfalt óréttlæti í kjölfar aðstöðugjaldsins. Þó að hér sé stigið fyrsta skrefið í breytingum á þessum lögum um aðstöðugjald þá þarf að stíga annað skref, að jafna tekjur sveitarfélaga. Það skref er ekki stigið í þessu frv. Það eru notuð sömu viðmiðunarmörk og í dag og þau viðmiðunarmörk eru óréttlát. Ef við skoðum árbók sveitarfélaga sjáum við að aðstöðugjald getur verið allt frá tæpum 3 þús. kr. á einstakling upp í tæplega 30 þús. kr. eftir því hvað sveitarfélagið heitir. Þetta þurfum við að skoða mjög vandlega. Ég hlakka til að skoða þetta í hv. félmn. og takast á við þetta mál.
    Ég ætla ekki að orðlengja um þetta. Það hefur ekki verið rætt hér um landsútsvarið sem er óbreytt og ég ætla að leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh. um það. Það er ekki gert ráð fyrir því að breyta landsútsvari að þessu sinni en þessi aðstöðugjaldsbreyting hlýtur að kalla á breytingu varðandi landsútsvarið. Þau fyrirtæki sem ekki borga aðstöðugjald borga svokallað landsútsvar. Það eru t.d. Sementsverksmiðja ríkisins, Áburðarverksmiðjan, olíufélögin o.s.frv. Mig langar að spyrja hæstv. félmrh. hvernig hann hefur hugsað sér framhald landsútsvars, hvort framhaldið sé að það verði óbreytt. Verður fróðlegt að heyra hvort ekki hefur verið um það rætt í ríkisstjórninni að breyta þeim skattstofni.
    Það hefur verið rætt um ákvæði til bráðabirgða sem eru í frv. Ég ætla aðeins að taka IV. ákvæðið, varðandi Lánasjóð sveitarfélaga. Þar er áætlað að 110 millj. kr. falli út. Ég get ímyndað mér að Lánasjóður sveitarfélaga lifi það af til eins árs en spurningin er um framhaldið. Allir sveitarstjórnarmenn spyrja sig í dag, vegna þess að hér er talað um að bæta eigi sveitarfélögunum þetta upp með hlutfalli af tekjuskatti í ár, hvert framhaldið verður. Menn eru auðvitað uggandi um það hvert framhaldið í þessu máli verður. Við hljótum að fá svar við því núna. Það hlýtur að hafa vera skoðað áður en þessi ákvörðun lá fyrir. Það er auðvitað stóra málið hvaða varanlegur tekjustofn kemur í staðinn fyrir aðstöðugjaldið.