Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 19:53:42 (3162)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er fyrst að nefna að í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að tekið sé á vanda gömlu sjávarútvegsfyrirtækjanna ef ég má nota það orð. Það er gert með hugmynd um þróunarsjóð sem reyndar er ekki endanlega mótuð tillaga. Þar er gert ráð fyrir að verulegir fjármunir fari til þess að hjálpa þeim fyrirtækjum. Það hefur verið nefnt í því sambandi að 400--500 millj. kr., jafnvel hærri upphæð, fari árlega í þennan sjóð, en ríkissjóður hefur hingað til notið þeirrar upphæðar. Það er því komið til móts við þessi fyrirtæki.
    Varðandi gömul og gróin fyrirtæki, sem stundum eru kölluð kolkrabbinn, vil ég segja að þau fyrirtæki sem græða og skila sköttum gera okkur gagn og gera það að verkum að við getum staðið undir ýmissi þjónustu. Til viðbótar gætu þessu fyrirtæki nú, ef við lækkum tekjuskattinn, sett fjármagn í ný fyrirtæki og búið til atvinnufyrirtæki og tækifæri fyrir þá sem eru atvinnulausir.