Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 02:46:59 (3676)


     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki orðið var við það að menn drægju í efa þann mikla efnahagslega ávinning sem óvefengjanlega hlýst af samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Samningurinn felur í sér tafarlausar tollalækkanir fyrir mjög þýðingarmiklar útflutningsafurðir okkar. Það hefur komið fram í máli margra og m.a. þeirra sem hafa talað gegn samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði að samningurinn feli í sér óvefengjanlega efnahagslegan ávinning. Það er annar kjarni þessa máls.
    Hinn er sá sem lýtur að umræðu um fullveldið og sjálfsákvörðunarréttinn. Í þeim efnum deili ég skoðun með Steingrími Hermannssyni, þingmanni Framsfl., sem hefur gert á þessu mjög góðan greinarmun í mjög athyglisverðri grein í Tímanum 8. febr. 1991. Greinin er opið bréf til Hjörleifs Guttormssonar. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hitt veist þú einnig mætavel að við tugi alþjóðasamninga, sem við höfum gert, hefur orðið að breyta íslenskum lögum, svo sem á mannréttindasviðinu, sviði vinnulöggjafar o.s.frv.
    Rétt er að allt slíkt takmarkar sjálfsákvörðunarrétt okkar. (Ég kem að fullveldinu síðar.) En þetta höfum við gert vegna þess að við höfum talið okkur það rétt eða skylt.
    Ég geri mikinn mun á fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti,`` segir Steingrímur Hermannsson. ,,Eins og fyrr segir takmörkuðum við iðulega sjálfsákvörðunarrétt okkar með alþjóðlegum samningum. Í flestum tilvikum getum við hins vegar dregið okkur út úr slíkum samningum, ef við viljum, og þannig endurheimt sjálfsákvörðunarrétt okkar. Sjálfsákvörðunarrétturinn takmarkast einnig af alþjóðlegu umhverfi og ástandi eða viðtekinni venju.
    Ef úr Evrópsku efnahagssvæði verður takmarkar það sjálfsákvörðunarrétt okkar á sviði viðskipta og efnahagsmála. Hins vegar er ekkert sem bannar að við drögum okkur út úr slíkum samningum og förum okkar eigin leiðir. Ég sé ekki að neinu sé fórnað þannig að slíkt yrði ekki framkvæmanlegt.``