Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 02:54:58 (3680)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kemur í ljós hjá hv. 5. þm. Vestf. að hann taldi að utanrrh. hefði ekki haft umboð til samninganna frá ráðherrum í ríkisstjórninni. Málið liggur einfaldlega þannig fyrir að ráðherrarnir báru allir ábyrgð á stjórnarstefnunni. Ef þeir voru ósáttir við þetta mikilvæga atriði, sem þeir segja nú eftir kosningar að hafi skipt höfuðmáli, þá var náttúrlega Steingrími J. Sigfússyni ekki sætt --- en hann sat sem fastast. Og gerði raunar ekki þennan ágreining opinberan fyrr en hann lagðist í rannsóknir sínar eftir kosningar. Ég verð að segja eins og er að hann hefði getað sýnt svolítið meiri heiðarleika í þessu máli ef hann hefði viljað við hafa.