Evrópskt efnahagssvæði

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 22:16:05 (3768)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Drottinn minn dýri, hæstv. forseti, það er ekki neitt niðurlægjandi að vera viðskiptaþjóð og það sem ég er með í huga er auðvitað fyrst og fremst það að við lögum okkur að hinum alþjóðlega markaði og þróun hans eftir því sem við ákveðum sjálf þá og þá. Þó að við séum að laga okkur að einhverju sem snertir viðskipti við Japan, þá erum við ekki þar með sagt að gera samning um eitthvert japanskt--íslenskt efnahagssvæði. Ég held að hugsanavillan í þessu máli sé að sumu leyti sú að í rauninni getum við á eigin forsendum og að eigin frumkvæði ákveðið hvaða þættir af hinu Evrópska efnahagssvæði og Evrópusvæðinu öllu það eru sem við tökum hér inn og ég held að það væri hentugra að við síum það sjálf heldur en að sitja við flæðilínuna og taka við því sem kemur frá Evrópubandalaginu.
    Aðeins um það að það sé ekki rétt hjá mér að þetta sé hugmyndafræði kalda stríðsins. Út af fyrir sig er ég sammála því, hafi ég orðað það þannig þá er það misskilningur. Það sem ég átti við var einfaldlega það að þessi ákvörðun um þessa tegund af sameiningu Evrópu varð til á tímum kalda stríðsins og hún þróaðist um og eftir 1950 aðallega þegar járntjaldið var í raun og veru sokkið niður í svörðinn í gegnum þvera Evrópu. Og ég held að hugmynd um þróun Evrópu, sem hefði orðið til eftir að múrinn hrundi, hefði verið talsvert mikið öðruvísi. Ég hygg að svo sé.