Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 16:49:07 (3786)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sú ræða sem við höfum nú hlustað á sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti okkur var sérkennileg í hæsta máta. Hér hefur hv. þm. talað hátt á þriðju klukkustund. Ég hlustaði á ræðuna alla og beið í ofvæni eftir því að hv. þm. mundi leggja fyrir okkur hvaða lausnir hann hefði á þeim vanda sem við blasti. Aldeilis ekki. Ekki eitt einasta orð um slíkt. Heldur talaði þessi hv. þm. eins og hann hefði ekki lifað í landinu sl. tvö ár frá því að síðustu kosningum lauk. Það má spyrja hvar hv. þm. hafi alið manninn sl. tvö ár. Er hv. þm. ekki kunnugt um það við hvers konar aðstæður núv. ríkisstjórn er að bjástra? Er hv. þm. ekki kunnugt um það við hvers konar aðstæður fólkið í landinu býr? ( ÓRG: Spurðu Hrafnkel.) Er þá ekki kominn tími til að hv. þm. fari að átta sig á því að tími gagnrýninnar er liðinn. Tími samstöðunnar er runninn upp. Að menn reyni nú fremur að leita lausna en að koma dag eftir dag eftir dag til að grafa undan öllum tilraunum til þess að leysa fram úr þeim vanda sem við blasir, ekki einungis að leysa fram úr heldur til þess að reyna að finna einhverjar þær lausnir sem geta gert okkur kleift einmitt að ná fram þeim markmiðum sem Sjálfstfl. m.a. lofaði kjósendum í síðustu kosningum og Alþfl. og Framsfl. líka,

Alþb. líka og Kvennalistinn líka. Til þess að það megi gerast verður að leggja ákveðinn grunn og grípa til ákveðinna ráðstafana gagnvart þeirri kreppu sem nú er skollin yfir okkur. (Gripið fram í.) Ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon veit það ekki þá ætti honum að vera kunnugt um það núna. ( Forseti: Má ég biðja hv. 8. þm. Reykn. að leyfa mönnum að ljúka máli sínu.) ( ÓÞÞ: Hann bannaði það alls ekki. Þetta er misskilningur hjá forseta.)