Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 17:00:43 (3791)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Gallinn er sá, hæstv. fjmrh., að það erum ekki við, það var óheppilegt orð sem hæstv. fjmrh. notaði, að það séum við sem borgum þetta sérstaklega. Því að hæstv. ráðherrar, þó laun þingmanna og ráðherra séu nú ekki merkileg, þá er það samt þannig að þeir borga sáralítið meira en aðrir. Það er það sem fólkið í landinu er að gagnrýna. Deilan snýst ekki um það hvort rétt hafi verið og óhjákvæmilegt eða skynsamlegt að færa þessa 4 milljarða til. Hún snýst fyrst og fremst um það hverjir áttu að bera þá. Hvernig átti að dreifa þeim byrðum. Ég held að það sé almenn pólitísk samstaða um að ákveðnar aðgerðir til að treysta grundvöll atvinnulífsins voru og eru óhjákvæmilegar. Það er ekki það sem deilt er um hér heldur það hvernig byrðunum var jafnað.
    Varðandi það hvort hæstv. fjmrh. sé eða verði skattakóngur, sem þegar er reyndar búið að úrskurða, þá er nógur tími til að fara í gegnum þá umræðu. Við 1. umr. þessa máls leyfði ég mér að halda því fram að það lægi fyrir óhrekjandi að hæstv. fjmrh. mundi slá metið og verða skattakóngur allra tíma og hæstv. fjmrh. viðurkenndi það í svarræðu sinni að sú kóróna mundi eflaust fara sér vel, ef ég man rétt. Ég held því að það sé ekki nema gamanefni að ræða þá hlið málsins og skipti litlu máli og bókhaldsæfingar í raun og veru.
    Aðalatriðið er að greiðslubyrði almennings vegna skatta verður augljóslega sú hæsta í sögunni á næsta ári. Það er augljóst. Það kann að vera að með einhverjum reikningsæfingum megi reyna að finna því stað að heildarskatttekjur ríkisins, að minnsta kosti að raungildi, verði lægri en við vitum jú að sem hlutfall af verðmætasköpun eða framleiðslu í þjóðfélaginu eru þær hins vegar mjög háar. Þetta fer þá allt eftir því í hvaða samhengi það er sett, hæstv. fjmrh. Ég hef engan áhuga á að neyða upp á hæstv. fjmrh. einhverjum titlum, einhverjum fyrstu sætum í þessu sambandi sem hann á ekki rétt á. Sem íþróttamaður vil ég bara að hæstv. ráðherra sé á réttum palli hvort sem það er fyrsta, annað eða þriðja sæti. Mig grunar því miður að kórónan sé föst hjá hæstv. fjmrh.