Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 17:03:18 (3792)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er sérstaklega ánægður yfir því hve hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er vel að sér í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og byrjaður að skamma okkur stjórnarliða fyrir að standa ekki við hana og hann sjálfur eflaust orðinn sammála hverju orði sem þar stendur. Ég vil upplýsa hann um að fyrir síðustu kosningar taldi ég aðstæður í ríkisfjármálum vera slíkar að það væri ekki hægt að lækka skatta. Það hefur nú komið á daginn að því miður er það ekki hægt og var þá aðalverkefnið að draga úr ríkisútgjöldum til að minnka hallann.
    Varðandi það sem við erum að gera núna. Við erum náttúrlega að horfast í augu við allt of mikið atvinnuleysi og þess vegna erum við að fella niður aðstöðugjaldið og þurfum þá á móti að hækka tekjuskatt einstaklinga. Ef, eins og mér fannst hv. þm. tala, allt sem gert var í virðisaukaskattinum væri ómögulegt og óalandi og óferjandi þýðir það að hækka þarf tekjuskatt enn þá meira til að geta staðið undir niðurfellingu aðstöðugjaldsins. Ef menn færu hans leið líka í sambandi við prósentuhækkun og skattleysismörkin mundi það kalla á mikla prósentuhækkun og ég held að við séum á gráu svæði hvað réttlæti og óréttlæti snertir og kannski ekki hægt að gerast sá hæstiréttur í réttlæti að segja að sú leið sem ríkisstjórnin fer sé alfarið óréttlát og sú leið sem hv. þm. mundi helst fara sé alfarið réttlát. Ég held að þetta sé ekki alveg svona svart og hvítt og sé kannski grátt svæði hjá okkur báðum.
    Varðandi það sem hann talaði um virðisaukaskatt á fólksflutninga vil ég segja að samkeppnisstaða flutningaþjónustunnar rýrnar kannski ekki alveg jafnmikið og annars væri vegna þess að bensínið hækkar á sama tíma sem er nú kannski ekki mikil afsökun. En að sjálfsögðu munum við eftir áramótin fara í lögin um vörugjald á bíla og þar með hópferðabifreiðir og þá gefst tími til að skoða ýmislegt varðandi ferðaþjónustuna vegna þess að skatturinn á hana á ekki að taka gildi fyrr en frá og með áramótum 1994.