Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 17:05:57 (3793)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Við eigum tækifæri til í efh.- og viðskn. að eiga orðaskipti um þetta ég og hv. formaður nefndarinnar enda ekki tími til mikilla umræðna um það í andsvörum.
    Mér er það auðvitað vel ljóst að mönnum er þröngur stakkur skorinn að ýmsu leyti í þessum efnum. Og því eru sannarlega takmörk sett hvað t.d. almenna skattprósentan í tekjuskattinum má fara hátt, m.a. vegna þess sem stendur í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og er rétt og enn réttara nú að tekjutenging af ýmsu tagi hefur stóraukist á undanförnum árum. Það gerir það að verkum að jaðarskattprósentan er orðin óheyrilega há á ákveðnu tekjubili hjá fjölskyldunum, á milli 60 og 70%. Þ.e. það er ekki nema fjórða hver króna sem verður eftir af þeirri sem aflað er á ákveðnu launabili.
    Það sem ég gagnrýni hins vegar og við höfum gert mjög harðlega er að ákveðnum aðilum er algerlega sleppt í þessum sambandi. Þar nefni ég sérstaklega fjármagnseigendurna. Það er auðvitað alveg með ólíkindum að eina ferðina enn skuli menn gefast upp við að koma sanngjörnum skatti á þá. Á sama tíma og menn eru að ganga í svona aðgerðir gagnvart jafnvel láglaunafólki eins og skerðing persónufrádráttarins er.
    Deilan er þess vegna fyrst og fremst um það hvað er réttlátast að gera. Hvað er skynsamlegast að gera? Það hefur enginn einkarétt á réttlætinu, hvorki ég né aðrir. Ég hef mína tilfinningu fyrir því hvað sé skynsamlegt og rétt og aðrir hafa sína. Og ég leyfi mér að halda því fram að það sé nokkuð erfitt að rökstyðja það að eina tiltæka leiðin í þessu sambandi hafi verið að lækka persónufrádráttinn núna þegar ekki er hróflað við fjármagnseigendum. Eða reyna að láta þá sem eru með langhæstu tekjurnar greiða meira. Það er mín skoðun að það hefði mátt afla að minnsta kosti með auðveldum hætti á milli 1 og 2 milljarða kr. með fjármagnstekjuskatti og meiri skatti á hæstu tekjur. Það hefði skilað verulega í þessu sambandi. Út á það hefði mátt að einhverju leyti sleppa því að leggja virðisaukaskatt á viðkvæma hluti eins og innlendar bækur og ferðaþjónustu og það hefði mátt hlífa tekjulægstu hópunum við tekjuskattshækkun.