Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 17:08:05 (3794)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er stórt og mikið mál sem við erum hér að ræða. Það hefur verið afar merkileg reynsla að fylgjast með fæðingu þess undanfarna daga og þeirri vinnu sem átt hefur sér stað í því samhengi. Við höfum orðið vör við það undanfarna daga að það er að skapast mikill órói í samfélaginu. Verkamannafélagið Dagsbrún hélt fund í fyrradag og samþykkti harðorð mótmæli gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Það sama gildir um stjórn Iðju. Einn af verkalýðsforingjum Austurlands, sem reyndar er félagi í Sjálfstfl. og bæjarfulltrúi fyrir hann á Eskifirði, fór hörðum orðum um stefnu ríkisstjórnarinnar í útvarpinu í gærkvöldi. Hann sagði að hún væri að níðast á láglaunafólki. Í dag hefur miðstjórn Alþýðusambands Íslands setið á miðstjórnarfundi og ég á ekki von á öðru en okkur berist mótmæli frá þeim fundi vegna þess að þær aðgerðir sem er verið að boða í þessu frv. bitna fyrst og fremst á launafólki og ekkert síður þeim sem verst standa en öðrum. Hér er verið að ráðast á allt launafólk, líka þá sem bera minnst úr býtum. Að mínum dómi eru hér á ferð aðgerðir sem eru algjört siðleysi. Ég vil taka svo sterkt til orða, virðulegi forseti. Og það sem meira er að á meðan reynt er að byggja upp á einum stað samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar er verið að rífa niður á öðrum. Hér er hver höndin uppi á móti annarri eða eins og sagt var í gamalli bók: Vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri gjörir. Ég mun koma síðar að því. Að mínum dómi verða þessar aðgerðir þegar allt er saman lagt til að magna þá kreppu og þann samdrátt sem nú er í þjóðfélaginu.
    Í fréttum Morgunblaðsins í dag er sagt frá svari dómsmrn. við fyrispurn sem einn af varaþingmönnum Alþfl. lagði fram hér á þingi fyrir skömmu þar sem hann spurðist fyrir um gjaldþrot. Og í svari dómsmrn. kemur fram að á árinu 1991 og það sem af er ársins 1992, það kemur ekki fram hver er síðasti dagur í þeirri viðmiðun, hafa 540 fyrirtæki verið lýst gjaldþrota og eins og gefur að skilja eru flest þeirra í Reykjavík. 22 eru á Akureyri, 18 í Kópavogi, 12 í Keflavík, 9 í Ölfushreppi og 8 á Ísafirði. Þetta segir okkur mikla sögu um ástand fyrirtækjanna í landinu. Við horfum annars vegar upp á það að hagur launafólks þrengist og hins vegar mjög erfiða stöðu fyrirtækjanna í landinu.
    Hinn 23. nóv. sl. boðaði ríkisstjórnin aðgerðir sem höfðu það að markmiði að bæta stöðu fyrirtækjanna. Eða eins og segir í plagginu, með leyfi forseta:     ,,Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs og sporna gegn auknu atvinnuleysi.`` En það kemur fram í þeim plöggum sem við höfum undir höndum í efh.- og viðskn. að Þjóðhagsstofnun spáir því að hluti þessara aðgerða, sem meiri hlutinn ætlar sér væntanlega að samþykkja í lok þessarar umræðu, muni leiða af sér aukið atvinnuleysi. Hér er verið að leggja þungar álögur á greinar sem eiga í vök að verjast fyrir og það mun leiða af sér aukið atvinnuleysi. Hér er því hver höndin uppi á móti annarri og þetta eru mjög alvarleg tíðindi og alvarleg mál sem við er að fást. Þar við bætist að Þjóðhagsstofnun hefur verið að endurskoða sína þjóðhagsspá fyrir árið 1993 og forstjóri Þjóðhagsstofnunar upplýsti það á fundi í efh.- og viðskn. í gærkvöldi að sú spá væri töluvert dekkri en það sem áður hafði verið boðað. Allt eru þetta auðvitað mjög alvarleg tíðindi. En að mínum dómi er ríksstjórnin að magna þann samdrátt sem fyrir er. Hennar stefna leiðir til þess að samdrátturinn magnast.
    Það mætti fara mörgum orðum um stefnu ríkisstjórnarinnar undanfarna mánuði. Við höfum horft þar upp á hverjar aðgerðirnar á fætur öðrum sem beinast að því að koma á ýmiss konar þjónustugjöldum og endalaus niðurskurður hjá ríkisstofnunum. Annars vegar tengist þetta yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar um að einkavæða ríkisþjónustu og draga úr umsvifum ríkisins. Hins vegar er um það að ræða að ríkisstjórnin er að reyna að bregðast við þeim samdrætti sem hér er orðinn og er fram undan. En allar þessar aðgerðir bera þess merki að það er vaðið áfram. Þær eru vanhugsaðar og illa undirbúnar. Þar er ég sérstaklega að hugsa um aðgerðir hæstv. heilbrrh. sem hafa meira og minna mistekist og menn sitja nú rétt fyrir jól við að hræra í þeim fram og aftur, reikna og reikna til að finna einhverjar leiðir til að ná þeim markmiðum sem heilbrrh. setti sér í bandorminum fyrir árið 1992 við upphaf þessa árs. Þetta hefur allt saman meira og minna mistekist. Það er enn þá verið að hringla í þessu fram og aftur og náttúrlega orðið alveg hrikalegt þegar fólk veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið. Hver árásin kemur á fætur annarri og það er höggvið í sama knérunn aftur og aftur.
    Í þeirri spá sem Þjóðhagsstofnun gaf út í haust spáði hún því að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi rýrna um 2,7%. Spá þeirra er nú komin upp í 3,5% en Alþýðusamband Íslands spáir því að kaupmáttur muni rýrna um 7--8%. Þetta eru auðvitað mjög alvarleg tíðindi.
    Þjóðhagsstofnun spáði því um mitt ár að atvinnuleysi yrði í kringum 3%. Við endurskoðun spárinnar hækkaði talan upp í 3,5% og í gærkvöldi sagði forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar að spáin væri nú komin vel yfir 4% og stefndi í töluvert hærri tölu. Allt boðar þetta mikil tíðindi. En ríkisstjórnin bregst við með því að leggja auknar álögur á almenning í landinu.
    Ég ætla aðeins að renna yfir það, virðulegur forseti, hvaða aðgerðir það eru sem ríkisstjórnin er að grípa til og eru og verða til umræðu á næstu dögum. Þar er fyrst að nefna að ríkisstjórnin samþykkti að fella niður aðstöðugjaldið, sem er tekjustofn sveitarfélaganna í landinu. En í staðinn verður sveitarfélögunum bætt það tekjutap sem þau verða fyrir með hækkun tekjuskatts fyrst og fremst.
    Í öðru lagi eru gerðar ýmsar breytingar á tekjuskatti einstaklinga og því sem snertir fólkið í landinu eins og ég hef áður nefnt. Þar er fyrst að nefna að tekjuskatturinn hækkar um 1,5%, úr 32,8% í 34,3%, þ.e. hlutur ríkisins. Þar bætist við sérstakur tímabundinn 5% hátekjuskattur 1993 og 1994 á tekjur einstaklinga sem eru yfir 200 þús. kr. og hjóna yfir 400 þús. kr. Þar að auki lækkar persónuafsláttur um 400 kr. á alla línuna, eða um 4.800 kr. yfir árið. Vaxtabætur verða lækkaðar en það kemur reyndar ekki fram fyrr en á árinu 1994. Reiknað endurgjald einstaklinga í atvinnurekstri verður endurskoðað og í brtt. meiri hlutans er að finna útfærsluna á því þar sem ríkisskattstjóri fær heimild til þess að áætla tekjurnar í hlutfalli við sambærileg störf og bæta 15% álagi þar ofan á.
    Skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa verður felldur niður í áföngum og skattafsláttur vegna húsnæðissparnaðarreikninga verður einnig felldur niður í áföngum. Allt kemur þetta við einstaklingana í landinu þó þetta tvennt sem ég nefndi síðast komi fyrst og fremst við hag þeirra sem betur standa. En ég kem síðar að því að þarna getur verið um býsna vafasamar aðgerðir að ræða.
    Tekju- og eignarskattur lögaðila verður lækkaður. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því hringli sem þar hefur átt sér stað. Það er ljóst að ríkisstjórnin ákvað að lækka tekjuskatt fyrirtækjanna í landinu ekki eingöngu til að létta á þeim og bæta stöðu þeirra heldur ekki síst til að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart evrópskum fyrirtækjum vegna hins Evrópska efnahagssvæðis sem menn reikna frekar með að verði að veruleika. Það urðu vinnuveitendum og öðrum mikil vonbrigði að sjá það í tillögum ríkisstjórnarinnar að þessi lækkun var ekki sett fram í einum áfanga heldur tveimur. Hún kemur þannig út núna að tekjuskatturinn verður lækkaður úr 45% í 39% á árinu 1993 og síðan í 33% 1994. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næsta ári þegar verður farið að hringla í þessum skatti. En þetta leiðir af sér að staða fyrirtækjanna batnar ekki eins mikið og þau höfðu gert sér vonir um.
    ér er einnig að finna ýmis önnur ákvæði sem snerta fyrirtækin og ég ætla ekki að tíunda nema það að þeirri aðgerð að frádráttur frá hagnaði vegna úthlutaðs arðs, sem átti að lækka, er frestað vegna eindreginna mótmæla fulltrúa atvinnulífsins. Og þá er það að nefna að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem lagður hefur verið á til bráðabirgða í 15 ár, er enn einu sinni framlengdur. Við vitum að þetta þykir ýmsum þingmönnum stjórnarliðsins þyngra en tárum tekur og ég hef grun um að jafnvel muni það gerast að einhverjir þeirra greiði atkvæði gegn þessum skatti, en ég ætla ekki að eyða löngum tíma í hann. Reyndar ætla ég bara að nefna þessa skatta fyrst en fara svo betur út í þá síðar.
    Þá er það virðisaukaskatturinn. 14% skattþrep í virðisaukaskatti á húshitun, afnotagjöld útvarps og sjónvarps, blaða og bóka sem er eitt alvarlegasta málið í þessum skattaormi að mínum dómi ef frá er talin hin

aukna skattbyrði láglaunafólks. Þá bætist einnig við 14% virðisaukaskattur á ferðaþjónustu og fólksflutninga sem hér hefur töluvert verið rætt um í dag.
    Þá er lækkun á tryggingagjaldi sem m.a. á að koma til móts við þá miklu skattlagningu sem ferðaþjónustan í landinu verður fyrir og er að mínum dómi til góðs.
    Síðast er það að nefna að inn í þetta frv. voru teknar tillögur úr öðrum frv. sem ekki gefst tími til þess að afgreiða fyrir jól en þar er um að ræða sérstakt bensíngjald vegna fjáröflunar til vegagerðar, hvort sem það skilar sér í vegagerð eða ekki, og einnig er að finna í brtt. meiri hlutans tillögur vegna gjalds af umboðsþóknun í gjaldeyrisviðskiptum sem einnig þurfti að koma að.
    Virðulegi forseti. Það eru sem sagt allmörg atriði sem hér eru til umfjöllunar og þau vega mismunandi þungt í þessu máli.
    Þegar þetta frv. var lagt fram til 1. umr. þá vakti það að sjálfsögðu mikla athygli að enn á ný stóð til að skerða barnabætur. Barnabætur voru skertar um 500 millj. á þessu ári og nú stóð til að klípa aðrar 500 millj. af barnafólki í landinu. Sem betur fer hefur ríkisstjórnin fallið frá þessum áformum enda verður að segjast eins og er að aðgerð af þessu tagi hefði verið aldeilis forkastanleg. Að leggja álögur á barnafólk með þessum hætti er óafsakanlegt og ég ítreka enn þá spurningu sem ég vil beina til formanns efh.- og viðskn., sem er fjölskyldumaður og hefur fyrir börnum að sjá, að ég vildi gjarnan að hann skýrði út fyrir mér hver sé fjölskyldustefna þessarar ríkisstjórnar því eins og hún kemur mér fyrir sjónir þá er hún afskaplega fjandsamleg fjölskyldunum í landinu og þá fyrst og fremst barnafólki því að það bólar lítt á aðgerðum til þess að bæta stöðu barnafjölskyldna sem margar hverjar eiga erfitt. Hér er um það að ræða að verið er að leggja aukna skattbyrði á fjölskyldurnar í landinu og stendur til að rýra hag þeirra sem eru að festa kaup á húsnæði.
    Sem betur fer var hætt við skerðinguna á barnabótunum í þetta sinn en í staðinn stendur til að lækka persónuafslátt einstaklinga, sem sagt allra, um 400 kr. Mér finnst sú aðgerð alveg hrikaleg, ég verð að segja það, virðulegi formaður efh.- og viðskn. ( VE: Hvort er nú hrikalegra?) Þetta er kannski aðeins skömminni skárra af tveimur vondum kostum en ég verð að segja það að þetta gengur náttúrlega yfir alla línuna og þegar mér verður hugsað til þeirra kvenna sem t.d. vinna hjá Reykjavíkurborg, hjá ýmsum fyrirtækjum Reykjavíkurborgar og reyndar ríkisins líka og eru á lægstu launum og eiga að bæta fyrst á sig 1,5% hækkun á tekjuskatti og síðan lækkun á persónuafslætti, fyrir utan aðrar hækkanir og skerðingar sem fólk verður fyrir, að maður tali nú ekki um ef fólk verður svo óheppið að vera veikt, þá finnst mér þetta siðlaust. Mér finnst siðlaust að gera þetta. Ég er alveg undrandi á ríkisstjórninni að fara þessa leið. Við höfum reyndar ekki reiknað út hina leiðina sem hefur verið rædd sem er sú að hækka hreinlega prósentuna meira en hækka persónuafsláttinn líka til að verja þá lægstlaunuðu. Það sem mér finnst svo óafsakanlegt í þessu að ráðast svona á það fólk sem hefur lægstu launin. Það hefði átt að hlífa því því að fólk, sem hefur tekjur á bilinu í kringum 60 þús. kr., 60--70 þús. kr., er ekki aflögufært. Við erum að tala um aukningu þegar saman er talið svona upp á 2.000 kr. og þetta fólk, og nú er ég sérstaklega að hugsa um láglaunakonur, munar um hverjar 100 kr., það munar um hvern hundraðkallinn. Ég þekki dæmi um slíkt fólk. Og af því að ég er komin að persónuafslættinum og tekjuskattshækkuninni þá var mér að berast í hendur ályktun Alþýðusambands Íslands frá því í dag, af miðstjórnarfundi ASÍ, og ég ætla að leyfa mér að lesa hana, með leyfi forseta. Hún er svohljóðandi:
    ,,Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega hugmyndum meiri hluta efh.- og viðskn. um að auka skattaálögur almennings með því að lækka persónuafsláttinn um 400 kr. á mánuði eða 4.800 kr. á ári. Slík skerðing lendir óhjákvæmilega af meiri þunga á því fólki sem hefur lægstu tekjurnar.
    Miðstjórn fagnar þeirri ákvörðun að fallið verði frá því að skerða barnabætur um 500 millj. kr. á næsta ári en ítrekar að tekjuþörf ríkissjóðs ber að mæta með skattlagningu hærri tekna, fjármagnstekjuskatti og stórhertu skatteftirliti.
    Miðstjórn lýsir furðu sinni á því að ríkisstjórnin skuli enn hafna því að láta þá sem betur mega sín bera meiri byrðar en velja þess í stað að auka skattálögur lágtekjufólks.
    Miðstjórn ASÍ minnir Alþingi jafnframt á að þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp 1. jan. 1988 voru skattleysismörkin sem svarar rúmlega 72 þús. kr. miðað við verðlag í dag. Skattleysismörk hafa þannig verið lækkuð um rúmar 15 þús. kr. á mánuði á núverandi verðlagi. Einstaklingur með 72 þús. kr. tekjur var skattlaus 1988 en er nú gert að greiða nærri 9% tekna sinna í tekjuskatt og útsvar. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa skattleysismörkin verið lækkuð úr tæpum 63 þús. kr. í 57 þús. kr. eða um 6.000 kr. á mánuði og skattbyrði einstaklings með 63 þús. kr. tekjur aukin um 3,6%.``
    Þetta var ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands frá í dag. Ég tek heils hugar undir það sem hér segir og vil ég benda hæstv. félmrh. og öðrum, sem verið hafa að auglýsa eftir tillögum, á það sem fram kemur í ályktun ASÍ þar sem bent er á að þessari tekjuþörf ríkissjóðs beri að mæta með skattlagningu hærri tekna, fjármagnstekjuskatti og stórhertu skatteftirliti. Að vísu er í þessu frv. verið að leggja til lagabreytingar sem eiga að verða til þess að auka skatteftirlit en það var afar merkilegt að hlusta á þá sem komu á fund efh.- og viðskn., þar með talda fulltrúa ferðaþjónustunnar sem bentu á að hér í landi ætti sér stað mikil svört starfsemi í veitingahúsarekstri og ferðaþjónustu í skjóli ríkisins. ( VE: Undir verndarvæng.) Já, undir verndarvæng ríkisins, eins og það var orðað. Það er auðvitað alveg makalaust að ríkið skuli láta það viðgangast á tímum eins og þessum þegar tekjuþörfin er jafnmikil og raun ber vitni. Það er þó

skömminni skárra að skattleggja eyðsluna og drykkjuskapinn í okkur heldur en að vera að leggja skatta á það fólk sem hefur lægstu tekjurnar í landinu.
    Ég bið nú hæstv. fjmrh. að íhuga þetta vandlega því enn einu sinni hefur ríkisstjórnin frestað því að taka upp fjármagnstekjuskattinn. Það er svo merkilegt að þessi fjármagnstekjuskattur er svo flókinn, hann er svo ofboðslega flókinn að það þarf að fresta því ár eftir ár að taka hann upp, en þegar menn eru að tekjutengja ellilífeyrinn eða hræra í lyfjakostnaðinum þá er það ekki flókið. ( Gripið fram í: Og tekjutengja barnabætur.) Já, tekjutengja barnabætur, það er ekki flókið mál, það er gert á einu síðdegi eða á kvöld- og næturfundum í ríkisstjórninni. En fjármagnstekjuskatturinn, hann er svo flókinn að það þarf að fresta honum ár eftir ár. Ég vísa því á bug sem komið hefur fram í umræðunni að stjórnarandstaðan og t.d. Kvennalistinn hafi ekki fram að færa tillögur um það hvernig eigi að standa að tekjuöflun ríkisins og minni á að ég hef ítrekað bent hæstv. fjmrh. á leiðir til þess. Sumt af því kemur heim og saman við það sem ASÍ hefur sagt, eins og raunverulegur hátekjuskattur, ekki tímabundinn skattur af því tagi sem hér er um að ræða, 5%, heldur hefði átt að fara þá leið sem ég hef áður nefnt að hækka skattprósentuna, hækka persónuafsláttinn og jafnvel að taka upp enn hærra skattþrep sem skilaði þó einhverju því að þessi hátekjuskattur, sem hér um ræðir, skilar ekki nema 300 millj. á næsta ári og 100 millj. á þarnæsta ári. Ég bendi enn á fjármagnstekjuskatt, endurskipulagningu í ríkisfjármálum og rekstri ríkisins, því að ég held að þau handahófskenndu vinnubrögð, sem hér er verið að beita, þar sem er verið að krukka og klípa í einstakar upphæðir, skili engu til lengdar. Það er bara verið að þrýsta lokinu á suðupottinn og svo springur þetta einn góðan veðurdag.
    Ég er alveg sannfærð um að árangur næst ekki til lengri tíma litið í ríkisfjármálum nema með verulegri endurskipulagningu og ég vil enn og aftur benda á að ég held að hæstv. heilbrrh. sé á mjög svo röngum brautum í sparnaðarleiðum sínum því að ég er alveg sannfærð um það að á nokkrum árum væri hægt að ná miklum árangri í heilbrigðiskerfinu með fyrirbyggjandi aðgerðum af ýmsu tagi og endurskipulagningu. Ég vil enn einu sinni tíunda það dæmi sem mér finnst svo sláandi að umferðarslys kosta þjóðfélagið 10 milljarða á hverju ári, samkvæmt upplýsingum yfirlæknis slysadeildar Borgarspítalans.
    Það er augljóst að með fyrirbyggjandi aðgerðum er hægt að ná peningum. Ég beini því til hæstv. dómsmrh. að hugleiða það því að hluta til heyra þessi mál undir hann, sem snerta ökumenn og þær reglur. Ég ætla ekki að fara út í umræður um það núna, það liggur hér fyrir frv. til breytinga á lögum um Umferðarráð og slíkt, ég man ekki titilinn á frv., og þá getum við væntanlega rætt þetta. Ég er alveg sannfærð um að þarna er hægt að ná niður miklum kostnaði og víðar eins og t.d. í heilbrigðiskerfinu.
    Ég var nú eiginlega komin út á aðrar brautir. Það flýgur margt í hugann þegar verið er að tala um tekjuöflun ríkisins en ég vil benda á það að ríkið á annarra kosta völ en að stinga hendinni dýpra og dýpra ofan í vasa launafólks.
    Ég vil segja það hér, virðulegi forseti, að í sjálfu sér er ég ekki á móti þeirri 1,5% tekjuskattshækkun sem hér á sér stað ef á móti hefðu komið jöfnunaraðgerðir til hinna lægst launuðu. Það kemur reyndar fram í brtt. meiri hlutans að barnabótaauki til einstæðra foreldra verður hækkaður með fyrsta barni þannig að sá hópur verður fyrir aðeins minni skerðingu en ella hefði orðið en ég get ekki skrifað undir þessa tillögu eins og hún er hér. Ég get ekki skrifað undir það að láglaunafólk skuli verða að taka á sig skattahækkun af þessu tagi. Ég hefði heldur viljað sjá þessa hækkun færða örlítið upp stigann.
    Aðeins meira um persónuafsláttinn. Ég verð að vekja athygli á því, sem reyndar kemur fram í ályktun ASÍ, að ASÍ hefur deilt nokkuð við fjmrn. um þessa útreikninga á persónuafslætti og vilja þeir meina að launafólk hafi verið verulega hlunnfarið í þessum útreikningum eins og fram kom í þeim tölum sem ég las áðan. En ég vil benda á það að í fyrra, þegar persónuafslátturinn var reiknaður út, var ekki reiknað með því að neinar launahækkanir yrðu á árinu. Síðar kom í ljós að samið var um örlitla launahækkun sem var síðan reiknuð inn í persónuafsláttinn um mitt ár, en í hálft ár var fólk án þess að tekið væri tillit til þeirra verðbreytinga sem urðu. Enn á ný á að leika þennan sama leik, það er ekki gert ráð fyrir neinum verðbreytingum fram á mitt næsta ár a.m.k. en það er alveg augljóst mál og það hlýtur öllum að vera ljóst að þeirri miklu kjaraskerðingu, sem Alþýðusambandið metur upp á 7--8% rýrnun kaupmáttar, verður ekki tekið þegjandi. Það hlýtur að vera alveg ljóst. Þar af leiðandi hvað sem verður samið um þá hlýtur það að gerast að hinum lægst launuðu verði bætt þetta upp á einhvern hátt því það er alveg greinilegt að það er þegar kominn af stað mikill órói meðal verkafólks og annarra launþega vegna þessarar margföldu kjaraskerðingar og það er afar ótrúlegt að þessir útreikningar fjmrn. standist.
    Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að vaxtabótunum. Það stendur til að skerða þær um 400 millj. kr. á árinu 1994. Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði í gær í umræðum um Húsnæðisstofnun ríkisins að þetta er að mínum dómi hið versta mál. Það er augljóst að vaxtabæturnar eru veruleg upphæð sem greidd er úr ríkissjóði. Ef ég man rétt eru þær 3,3 milljarðar í fjárlagafrv. Þetta eru auðvitað verulegar upphæðir, en það má ekki gleyma því að þetta er nokkuð sem fólk hefur gert ráð fyrir í sínum útreikningum og það er mjög slæmt að vera að hringla í bótunum með þessum hætti og skelfa fólk ár eftir ár með hótunum um að skerða þessar bætur. Ef það er vilji til þess að skerða þær þá verður það frekar að gerast með eignatengingu þannig að þetta færist upp skalann og bitni fremur á þeim sem betur standa að vígi og eiga miklar eignir.
    Það er býsna merkilegt að í þeirri umsögn sem nefndinni barst frá Vinnuveitendasambandi Íslands benda

þeir á að ekki sé viturlegt að ganga lengra á braut tekjutengingar í skattkerfinu, segir í áliti VSÍ, með leyfi forseta. Og þeir segja: ,,Því eru samanlögð áhrif tekjuskattshlutfalls, barnabótaauka og vaxtabóta hjá algengustu fjölskyldum með venjulegar tekjur um og yfir 60%, þ.e. þessar fjölskyldur bæta sinn hag um 40 kr. fyrir hverjar 100 sem bætast við. Ef slíkar fjölskyldur búa auk þess við námslánaskuldir samkvæmt núgildandi lögum fækkar krónunum í 35.``
    Þetta er í tengslum við þeirra umfjöllun um tekjuskatt einstaklinga, vaxtabætur og barnabætur.
    Mér þykir merkilegt og umhugsunarvert að VSÍ skuli benda á þessa tekjutengingu. ASÍ hefur reyndar gert það líka en fyrst og fremst á þeim forsendum að þegar um tekjutengingu er að ræða, eins og mjög færist í vöxt og virðist vera gegnumgangandi stefna ríkisstjórnarinnar, þá gerist það aftur og aftur að viðmiðanirnar eru svo lágar. Þær eru svo lágar að þetta verður til þess að skerða kjör lágtekjufólks og meðaltekjufólks, þeirra sem ætti að hlífa.
    Varðandi vaxtabæturnar þá kann það vel að vera að þarna hafi enn einu sinni verið búinn til snjóbolti sem hleður stöðugt utan á sig og þarf að skoða því það er auðvitað ekki hægt að horfa upp á slíkt. Það verður að skerða bæturnar þannig að það bitni á þeim sem best hafa kjörin, en ég set alla fyrirvara við þá skerðingu sem hér á sér stað.
    Þá ætla ég að koma örstutt inn á skatta fyrirtækjanna í landinu. Ég kom aðeins inn á það áðan að þar voru stökkin tekin fram og aftur og tölurnar hækkuðu og lækkuðu til skiptis. Í tengslum við annað það sem stóð til að gera, en sumu af því hefur verið frestað, komst framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands þannig að orði að embættismennirnir í fjmrn. stunduðu bírókratískan leikaraskap, eins og hann sagði. Það væri bírókratískur leikaraskapur sem ætti sér stað í fjmrn.
    Ég vil taka undir það að ég er sammála því að lækka skatta á fyrirtækjum og ég held reyndar að það sé óhjákvæmilegt í þeirri stöðu sem er í þjóðfélaginu. Ef Ísland verður aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði, sem ég er reyndar andvíg, eins og fram hefur komið fram fyrr í þessari viku, er óhjákvæmilegt að sjá til þess að staða íslenskra fyrirtækja sé nokkuð sambærilegt við það sem gerist úti í Evrópu. Maður óttast reyndar að þegar fram í sækir verði þau það ekki.
    Í frv. er langur kafli um skattrannsóknir sem að mínum dómi er gott mál og ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í þær breytingar. Þær ganga út á það að skilja að skatteftirlitið og skattrannsóknirnar. Hér á að stofna nýtt embætti skattrannsóknarstjóra. Það er gert í þeim tilgangi að bæta skatteftirlitið og reyna að koma í veg fyrir skattsvik. Eins og við vitum er þarna töluverða peninga að sækja ef þessi stofnun eða deild, ég veit ekki hvernig maður á að flokka þetta. ( VE: Nýtt embætti.) Nýtt embætti, já. Það er rétt hjá hv. formanni efh.- og viðskn. Ef þetta embætti fær það sem til þarf til að geta sinnt þessu eftirliti af einhverju viti. Það má minna á að það hefur verið ein af kröfum aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega ASÍ, að skatteftirlit yrði hert verulega.
    Þá ætla ég aðeins að nefna það að í þessum tillögum er að finna hert ákvæði varðandi tekjur einyrkja eða sjálfstæðra atvinnurekenda, en menn hafa ástæðu til að ætla að í þeirra hópi eigi sér stað nokkur undanskot frá skatti. Ég er sammála því að þetta sé gert en menn hafa nokkuð velt fyrir sér framkvæmdinni, hvernig þetta muni verða í reynd. --- Virðulegur forseti, hér er hafinn annar fundur úti í horni. ( Forseti: Forseti vill biðja hv. þm. að hafa hljóð í salnum. Ég bið hv. þm. afsökunar á athyglisleysinu.) Þeir geta brugðið sér frá ef þeir vilja.
    Þá ætla ég aðeins að koma að hátekjuskattinum og aðallega í því samhengi, virðulegi forseti, að við í efh.- og viðskn. létum kalla á fulltrúa sjómanna. Það er ljóst að allnokkur hópur sjómanna mun lenda í þessum hátekjuskatti svo framarlega sem tekjur þeirra dragast ekki mikið saman en því miður hefur verið mikill aflasamdráttur og kjör sjómanna hafa rýrnað allverulega, enda var m.a. þeirra sérstaki skattafsláttur rýrður í fyrra. ( Gripið fram í: Nei. Það er ekki rétt.) Er þetta rétt hjá þingmanninum? ( Gripið fram í: Nei.) Nei, ég man ekki betur en hér hafi verið samþykkt skerðing á sjómannaafslætti, en það er hringlað svo mikið í þessu að stundum er erfitt að átta sig á því hver hin endanlega niðurstaða verður, en sjómannaafslátturinn var skertur og kjör sjómanna hafa versnað. En það sem sjómenn beina einkum athyglinni að er sá þáttur sem lýtur að fyrirframgreiðslunni. Þeir benda á að það á að innheimta fyrirframgreiðsluna á haustmánuðum og fram til jóla sem er sá tími þegar sjómenn hafa hvað minnstar tekjur og leiðir það af eðli fiskveiða hér við land. Þá verður um eftirágreiðslu að ræða. Hluti af þessum hátekjuskatti verður tekinn inn með fyrirframgreiðslu en síðan er hann gerður upp eftir á. Þeir telja þetta koma afar illa við sig en það verður auðvitað að koma í ljós hvernig framkvæmdin á þessu verður. Menn hafa líklega ekki séð aðra betri leið en þessa.
    Ég tek þetta í þeirri röð sem þessar breytingar koma fyrir í frv. og ætla ég næst að víkja að húsnæðissparnaðarreikningunum. Það er merkilegt að skoða þá töflu sem við fengum frá fjmrn. sem sýnir að fólk hefur nýtt sér húsnæðissparnaðarreikninga í mjög auknum mæli. Hér kemur fram að á árinu 1990 var áætlaður skattafsláttur vegna húsnæðissparnaðarreikninga 19 millj. kr., en á árinu 1991 varð afslátturinn 118 millj. Hann óx frá 19 millj. upp í 118 millj. Það er greinilegt að margir hafa nýtt sér þetta sparnaðarform og hér gildir það sama og áður hefur verið sagt að það er mjög vont þegar verið er að hringla með hluti þennan hátt. Það kom reyndar fram hjá fulltrúum Húsnæðisstofnunar að þessir reikningar virðast vera lítið notaðir til þess að fjárfesta í húsnæði. Þarna er því í rauninni bara um eitt af þeim sparnaðarformum að ræða sem upp hefur verið komið og kannski ástæða til að beina frekar sjónum að því hvernig slíkur sparnaður eigi að vera. Ég hlýt að leggja til að það verði reynt að beina húsnæðissparnaði fyrst og fremst til húsbréfa og fólk safni sér húsbréfum en það verður auðvitað að sjá sér einhvern hag í því. Ég lýsi því ekki yfir mjög mikilli andstöðu við þessa aðgerð eina og sér en það er auðvitað alltaf vont að raska áformum fólks með þessum hætti. Fyrst er reynt að beina því inn á einhverjar ákveðnar brautir í sparnaði og áður en við er litið er öllu kippt til baka. Þetta eru auðvitað ekki góðir stjórnarhættir en reyndar á að afnema þennan skattafslátt í áföngum.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um skattinn á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ef ég man rétt á hann að skila 435 millj. á þessu ári. Þegar við stöndum frammi fyrir aðgerðum af því tagi sem hér um ræðir verður maður að segja að þessi skattur er skömminni skárri en margt annað, þó ég viti að formaður efh.- og viðskn. er mikið á móti honum og reyndar fjmrh. líka. Þeim er tregt tungu að hræra vegna þess máls að verða að horfa upp á þennan skatt samþykktan 15 ár í röð þó það sé eitt af þeirra helstu baráttumálum að losna við hann. Ég þykist muna það rétt að í þeirri merku bók, hvítbókinni, sem nokkuð hefur verið vitnað til í dag, er að finna klausu sem er svo, með leyfi forseta:
    ,,Sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verður felldur niður um leið og skattlagning eigna og fjármagnstekna verður samræmd.`` Samkvæmt þessu hefur ríkisstjórnin nokkurn tíma til stefnu til þess að ganga frá þessu máli því það er augljóst að meðan þessi samræming hefur ekki átt sér stað og skatti verið komið á fjármagnstekjur þá hefur ríkisstjórnin ástæðu til að innheimta þennan skatt. ( VE: Við höfum því mikinn hvata til að taka upp fjármagnstekjuskattinn.) Já, það er vonandi að hvatinn reynist einhver. En þetta er sorgarsaga sem ekki er ástæða til að ítreka og endurtaka hér.
    Þá er ég komin að virðisaukaskattinum, virðulegi forseti. ( Forseti: Forseti biður velvirðingar á að grípa svona inn í ræðu hv. þm. en langar að upplýsa að það stendur til að fresta þessari umræðu kl. sex þangað til í kvöld og taka önnur mál sem eru á dagskrá og væntanlega til atkvæðagreiðslu líka áður en þessum fundi verður frestað klukkan hálfsjö. Forseti vildi því spyrja hv. þm. hvort hann á mikið eftir af sinni ræðu af því að forseta heyrðist vera komið að kaflaskiptum.) Ég hef grun um að það séu kannski tuttugu mínútur. ( Forseti: Þá væri gott ef þingmaðurinn vildi fresta ræðunni núna.)