Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:49:33 (3911)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það eru rúm tvö ár síðan þingheimur sameinaðist um það einróma á Alþingi að fella niður virðisaukaskatt á íslenskri bókaútgáfu. Rökin voru einkum tvíþætt: Annars vegar að á tímum vaxandi alþjóðlegra samskipta væri nauðsynlegt að styrkja rætur íslenskrar menningar. Þjóðin ætti óhikað að taka þátt í fjölþættu alþjóðlegu samstarfi en hún yrði jafnframt að kappkosta að varðveita menningu sína og færa hana til nýrrar kynslóðar. Hins vegar voru rökin þau að nauðsynlegt væri að styrkja útgáfu ritverka, vísindarita, safnrita öndvegishöfunda okkar og menningarlegrar bókaútgáfu af hvaða tagi sem væri. Það var ljóst að skattbyrðin, ef virðisaukaskattur væri ekki felldur niður á þessari útgáfu, væri með þeim hætti að bókaforlög, sérstaklega þau sem væru rekin af einkaaðilum, gætu varla risið undir því að gefa út meiri háttar ritverk, safnverk íslenskra öndvegishöfunda, fræðirit og aðrar perlur íslenskrar menningar.
    Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að leggja niður það forlag ríkisins sem annaðist útgáfu á verkum af þessu tagi m.a. Nú er gengið líka áfram á sömu braut með því að leggja virðisaukaskatt á bækur sem ljóst er að mun gera mjög erfiða ef ekki útlokaða útgáfu safnrita öndvegishöfunda íslenskra fræðirita og margvíslegra vísindaverka.
    Mér finnst það satt að segja óskiljanlegt að ríkisstjórn í vandræðum með ríkisfjármálin skuli ákveða að rjúfa þá þjóðarsamstöðu sem skapaðist hér fyrir rúmum tveimur árum síðan um að stíga þetta skref til að styrkja íslenska menningu. Við erum andvíg þessari skattlagningu og munum beita okkur fyrir því þegar við fáum aðstöðu til að henni verði breytt. Ég segi nei.