Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 14:12:54 (3922)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Alþýðuflokkurinn -- Jafnaðarmannaflokkur Íslands á iðnrh. í þessari ríkisstjórn og átti hann líka í þeirri fyrri. Flokkurinn með iðnrh. í broddi fylkingar stóð að því að leggja fram sérstaka þáltill. fyrir síðustu kosningar hér á Alþingi um lækkun húshitunarkostnaðar þar sem því var lýst yfir að það væri stefnan að stuðla að auknum jöfnuði í húshitun landsmanna þannig að kostnaðurinn yrði aldrei meiri en 5.000 kr. á mánuði miðað við verðlag í janúar 1991. Hér sjáum við jafnaðarstefnu Alþfl. Hún er sú að gera húshitunarkostnaðinn að skattstofni og auka þann mismun sem er á þessu fyrir. Þeir ganga til öfugrar áttar miðað við þeirra eigin tillögu. Ég segi nei.